17.03.1927
Neðri deild: 32. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2540 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Árni Jónsson:

Jeg get búist við, að það, sem jeg hefi fram að færa, hefði þótt betur eiga heima við 1. umr. þessa máls. Jeg skal ekki neita því, að athugasemdir mínar verða nokkuð almenns eðlis og snúast ekki um einstakar greinar frv. En jeg vona samt, að hæstv. forseti láti þetta viðgangast, enda álít jeg, að maður hafi leyfi til að segja eins og honum býr í brjósti við hvaða umr. sem er.

Mál þetta er að rjettu talið eitthvert mesta og merkasta málið, sem liggur fyrir þessu þingi, og finst mjer því ekki vansalaust, ef haft er á móti, að menn láti skoðanir sínar á því í ljós. Jeg veit ekki, um hvaða mál ætti að tala, ef ekki þetta.

Því er haldið fram, að af því að þjóðnytjafyrirtæki er tengt sjerleyfinu, sje sjálfsagt að veita það, og vitnað í sjerleyfið frá í fyrra til virkjunar Dynjandi, sem veitt var án þess að um neitt slíkt væri að ræða í sambandi við það. — En þetta er aðeins önnur hliðin. Hin er þessi: af því að þjóðþrifafyrirtæki er sjerleyfinu tengt, getur verið og er sjerstök ástæða til að fara varlega. Því að ef hjer er um samskonar „humbúg“ að ræða og í fyrra, eða fyrirtækið aðeins bygt á trú og ágiskunum, þá er ábyrgðarhluti að binda slíkt þjóðþrifamál sem járnbraut er talin við afdrif þess. Fylgismenn eru bjartsýnir og telja þess ekki langt að bíða, að fyrirtækið komist á laggirnar. Aðrir draga það í efa, sjerstaklega hv. 1. þm. Reykv. Nákvæmlega sömu ummælin var að heyra hjer um sjerleyfið í fyrra. Jeg greiddi atkvæði með því. En nú er dálítið annað uppi á teningnum. Ef hjer er um „svindilbrask“ að ræða, er gersamlega óforsvaranlegt af forvígismönnum járnbrautarmálsins að tengja það við sjerleyfi Titans og hindra með því framgang þess um óákveðinn tíma. — Þegar járnbrautarmálið var hjer til umræðu í fyrra, var svo að heyra á forvígismönnum þess, að þar væri á döfinni augljóst gróðafyrirtæki fyrir ríkissjóð. Jeg veit ekki til, að þeir hafi breytt um skoðun, en það, að þeir koma fram með málið í öðru formi, byggist á því, að þeir búast við öðrum lyktum þess nú en í fyrra. Þá dagaði málið uppi. Jeg held, að ósýnt hafi verið, að ákveðinn meiri hluti væri á móti því þá. Og síðan hefi jeg heyrt yfirlýsingar manna, sem ekki varð með vissu sagt um, hvorumegin stæðu, um fylgi þeirra við járnbrautarmálið. Hefði ekki verið rjettara að taka upp sjálft járnbrautarmálið? Það hefði ekki þurft langra umræðna við, eftir þann undirbúning, sem það fjekk í fyrra. Að mínu áliti hefði verið heppilegra að fá það útkljáð áður en þetta frv. kom fram.

Nú er það svo, að háttv. flm. frv., sem hafa lýst yfir trú sinni á fyrirtækinu, hafa ekki fært okkur, sem erum dálítið vantrúaðir, heim sanninn.

Jeg vil minna á það, að járnbrautin er aðeins lítill þáttur í þessu risafyrirtæki upp á 40–50 milj. kr. Mjer heyrist reyndar á hv. frsm., að hann vilji draga saman seglin og telji, að byrjað verði með svo sem 14 milj., er gangi til járnbrautar og virkjunar. En hvað um það. Járnbrautin verður því aðeins lögð, að von sje til, að fyrirtækið í heild sinni komist á laggirnar. Þá er að athuga, á hverju þær vonir byggjast. Mjer til undrunar gat hv. frsm. þess, að fyrsta undirstaðan væri hlutafje það, sem Titan á nú.

Jeg sje, að hv. frsm. kveinkar sjer við, að talað sje um trygginguna, sem fólgin er í hlutafjenu. Það er ofurlítil sönnun þess, að ekki sje alt sem öruggast.

En við skulum leggja niður fyrir okkur, hver líkindi eru til þess að fá lagt fram nægilegt fje. Þá er fyrst að líta á afkomu samskonar fyrirtækja í Noregi undanfarið. Um hana er það að segja, að hún hefir verið bágborin. Iðjuver, reist eftir 1918, hafa átt erfitt uppdráttar og verið rekin með tapi. En það hefir forðað sumum fyrirtækjunum frá gjaldþroti, að gömlu fjelögin hafa oft verið hluthafar í þessum nýju fyrirtækjum og þau hafa með gróða stríðsáranna getað staðið straum af töpunum. Jeg hefi heyrt haft eftir mjög merkum hagfræðingi, að eitt af því, sem vald hafi hinu mikla hruni í Noregi eftir 1920, hafi verið hið gífurlega tap á slíkum atvinnurekstri. Þó er í Noregi betri aðstaða til þessa en hjer.

Í Noregi er mikið af óstarfræktum fallvötnum. Jeg kem ekki auga á nokkra ástæðu til þess, að Norðmenn fari að láta fje úr landi til þess að starfrækja samskonar fyrirtæki og þeir eiga óunnin heima.

Jeg verð að segja, að þrátt fyrir alla bjartsýni hv. flm. frv., á jeg ekki von á stofnfje frá Noregi. Og jeg verð að halda því fram, að það sje órjettmætt að stofna til járnbrautarlagningar í sambandi við þetta sjerleyfi. Það eru engar sannanir fyrir, að hjer sje um öruggan grundvöll að ræða. Þetta verður aðeins til þess að slá járnbrautarmálinu á frest um óákveðinn tíma. En járnbrautin er svo merk úrlausn samgöngumálanna hjer á Suðurlandsundirlendinu, að jeg álít ekki sæmilegt að blanda henni inn í fyrirtæki, sem menn hafa ekki fulla trú á.

Jeg býst við, að fylgismenn Titans segi, að þetta sjeu ekki nema sleggjudómar hjá mjer. Jeg get ekki sannað mitt mál, frekar en þeir sitt. Þar kemur fullyrðing á móti fullyrðingu.

En gerum nú ráð fyrir, að alt sje gott og blessað, Titan sje ágætt fyrirtæki og peningarnir liggi í skúffunni. Eins og jeg sagði áðan, er járnbrautin ekkert aðalatriði fyrir Titan. Fjelagið leggur hana ekki til þess að græða á henni, heldur til þess að geta komið á fót stóriðju þarna austur frá. Til þess þarf að koma þangað kynstrunum öllum af efni til byggingar orkuvers.

Þegar verið var að gera áætlanir um flutning með þeirri járnbraut, sem var til umræðu á síðasta þingi og ríkissjóður átti að borga, var gert ráð fyrir, að járnbrautin mundi svara kostnaði með 8 þús. tonna flutningi. En Titan mundi þurfa mörgum sinnum meiri flutning, marga tugi þús. tonna. Af þessu er augljóst, að ef til kæmi, að mönnum yrði að trú sinni á framkvæmdum Titans, þá hefðum við þar með trygt okkur svo öflugan viðskiftavin, að þau viðskifti gætu breytt járnbrautinni úr vafasömu fyrirtæki í hreint og beint gróðafyrirtæki handa ríkissjóði.

Afstaða mín til málsins er þá þessi: Hafi menn ekki trú á framkvæmdum Titans, þá á ekki að veita sjerleyfið. Hafi þingið hinsvegar trú á, að 40 miljónir komi, þegar kallað er á þær, á það ekki að blanda járnbrautarmálinu inn í þetta sjerleyfi, heldur krefjast þess, að ríkið leggi járnbrautina.

Sjerleyfisveitinguna að öðru leyti ætla jeg ekki að fara inn á. Það er mín skoðun, að þar komi trú á móti trú, eða öllu heldur ótrú á móti trú. Mín ótrú á fyrirtækinu kemur á móti trú fylgismanna frv. Jeg mun samt sem áður greiða frv. atkv. til 3. umr., ef ske kynni, að háttv. „trúmenn“ fengju einhverjar þær vitranir, sem gætu leitt okkur heiðingjana í allan sannleika.