25.03.1927
Neðri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2622 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg er vantrúaður á þetta frv. vegna þess, að jeg hefi ekki getað öðlast þá sannfæringu, að fjelagið Titan geti komið þessu fyrirtæki í framkvæmd. Þetta er stjfrv. og því ber hæstv. atvrh. ábyrgð á því, að hjer sje annað og meira á bak við en gylling ein. Þeir, sem honum trúa, álíta, að hann hefði ekki flutt það nema hann hefði einhverja vissu fyrir framkvæmdum. Jeg er nú ekki eins trúaður á hæstv. atvrh. eins og sumir þeirra, sem hjer hafa talað. Jeg get trúað, að við norskt fjelag eins og Titan gæti hann teygt sig nokkuð langt, ekki síður en við önnur norsk fjelög, sem hann hefir átt skifti við. Því hefir mjer fundist rjett að heimta tryggingu fyrir því, að byrjað yrði á framkvæmdum. Háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) hefir komið fram með brtt., sem fer fram á, að trygging verði sett fyrir því, að byrjað verði á virkjuninni. En nú hefir háttv. 1. þm. Rang. (KIJ) lýst yfir því, að ekki verði byrjað á járnbrautarlagningunni fyr en fje sje fyrir hendi til virkjunarinnar. Þótt mjer finnist nú brtt. háttv. 1. þm. Reykv. eðlileg, þá er hún þó minna virði en mín brtt., því að hún leggur viðurlög við því, ef ekki verður byrjað á járnbrautinni á tilsettum tíma. Þess ber að gæta, að það er hagur fyrir fjelagið að hafa þetta sjerleyfi í höndum í 2 ár, en jafnframt er það óhagur fyrir landið. Það getur ekki sjálft ráðist í fyrirtækið á meðan, og ekki heldur veitt öðrum fjelögum leyfi til járnbrautarlagningar, þótt slíkt byðist, sem vel væri hugsanlegt. Því finst mjer eðlilegt að miða trygginguna við það, að byrjað verði á járnbrautinni 1. maí 1929, þannig að ef ekkert verður úr því, þá verði það ekki aðeins tap fyrir ríkissjóðinn, heldur komi eitthvað í aðra hönd. Trygging sú, sem jeg fer fram á, er svipuð tryggingu háttv. 1. þm. Reykv., sem sje sú, að öll unnin mannvirki sjerleyfishafa, fasteignir og vatnsrjettindi, verði ríkiseign án nokkurs endurgjalds, ef ekkert verður úr framkvæmdum. Þetta er að vísu mikilla peninga virði fyrir þá, sem virkjað geta, en ekki mikils virði fyrir þá, sem ekki geta það.

Með það fyrir augum, að þessi brtt. mín verði feld, hefi jeg komið fram með varatill., þess efnis, að sjerleyfishafi setji ríkisstjórninni tryggingu fyrir 100 þús. kr. greiðslu, ef ekki verði byrjað á verkinu 1. maí 1929. Það er ekki rjett hjá hv. 1. þm. Reykv., að jeg heimti þetta fje út í hönd eða bankatryggingu fyrir því. Tryggingin má vera veð, sem ríkisstjórnin tekur gilt, í fasteignum eða vatnsrjettindum fjelagsins hjer. Og jeg skil, satt að segja, ekki, ef fjelagið hefir nokkra trú á því, að fyrirtækið komist í framkvæmd, að það geti ekki gengið að því, sem tekið er fram í varatill. minni.

Jeg mundi því sjá mjer fært að fylgja frv. út úr deildinni, ef önnurhvor brtt. mín á þskj. 232 yrði samþykt. Mjer finst nóg fyrir fjelagið að hafa tvö ár til að hlaupa upp á. Geti það ekki á þeim tíma lagt fram það fje, sem til þess þarf að hefja verkið, þá á það að hafa fyrirgert rjetti sínum og greiða fyrir gabbið. Alþingi á ekki að veita erlendu fjelagi sjerleyfi til starfrækslu hjer aðeins með það fyrir augum, að fjelagið geti rak að saman fje á sjerleyfissölu, en sleppi ef til vill við að byrja á þeirri stóriðju eða járnbrautarlagningu, sem ætlast var til.