11.04.1927
Efri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2739 í B-deild Alþingistíðinda. (1936)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg skal byrja með að þakka háttv. samgmn. afgreiðslu og meðferð þessa máls. Hún hefir verið fljót í verkum, og eftir atvikum er jeg ánægður með gerðir hv. nefndar, þótt jeg sje nokkrum hluta hennar ósamþykkur að sumu leyti.

Út af orðum hv. frsm. (MK) hefi jeg ekkert að segja nema þakka góðan stuðning. En út af ræðu háttv. 1. landsk. (JJ) þarf jeg að gera aths. í sambandi við brtt. hans. En með því að hann er ekki við í deildinni nú sem stendur, get jeg byrjað á háttv. 5. landsk. (JBald) og svarað honum fyrst. Hann flytur brtt. og tilheyrandi varatill. Brtt. þessa sama efnis kom fram í hv. Nd., en var feld þar og hafði lítið fylgi. Jeg get því þegar af þeirri ástæðu ekki verið með þessari brtt. fyrir mitt leyti. En auk þess er hjer ekki um óhlutdrægan aðilja að ræða, þar sem er Alþýðusamband Íslands; það veldur því, að brtt. er með öllu óaðgengileg. Um varatill. er það að segja, að hún er á engan hátt aðgengileg heldur.

Jeg þykist vita, að hv. flm. sjái, þó að hann vilji kannske ekki viðurkenna það, að það er alt annað en aðgengilegt fyrir sjerleyfishafa að mega ekki flytja inn erlenda verkamenn meðan nokkur maður fæst hjer. Það má sem sje altaf segja, að hægt sje að fá menn, bara ef goldið er nógu hátt kaup. Frá mínu sjónarmiði er það langt frá því að vera eftirsóknarvert. Þótt hv. 5. landsk. vilji aðeins taka tillit til hagsmuna verkamanna og loka augunum fyrir öllu öðru, þá getum við, sem viljum taka tillit til allra stjetta, ekki gengið framhjá viðhorfi atvinnurekenda, t. d. bænda. Verður ekki sjeð nein sanngirni í því, að mjög margir verkamenn verði teknir úr þeirra þjónustu, af því að sjerleyfishafi neyddist til að draga að sjer verkafólk hjerlendis fyrir ofurkaup vegna settra ákvæða. Sama máli er að gegna um hinn aðalatvinnuveginn, sjávarútveginn. Jeg veit, að háttv. þm. hlýtur að vera það ljóst, að báðar till. eru gersamlega óaðgengilegar. Ef hann álítur æskilegt að fá fyrirtækið framkvæmt, eins og mjer skildist á ræðu hans, þá er heimskulegt og vitlaust að setja þau skilyrði, er fæli þann frá, er sjerleyfið á að fá.

Jeg álít, að um þetta atriði sjeu nægileg ákvæði í frv. Og auk þess fellur þetta undir önnur lög, sem samþykt voru nú á þinginu, um rjett útlendinga til atvinnu hjer á landi.

Vitanlega er engin ástæða til að setja nein sjerstök ákvæði um afstöðu þessa fyrirtækis til innflutnings útlendinga. Þar um gilda náttúrlega þau almennu lög.

Um brtt. hefi jeg þá ekki meira að segja. En út af ræðu hv. 5. landsk. að öðru leyti verð jeg að láta fáein orð falla.

Hv. 5. landsk. spurði, hvað ætti að gera við aflið. Um það stæði ekkert í sjerleyfinu. Gert væri aðeins ráð fyrir að afla orkunnar og leiða hana alla leið suður að Skerjafirði, en þar endaði spottinn, eins og hv. þm. komst, að honum víst fanst, hnyttilega að orði. Jeg veit ekki, hvort hann álítur alla þá, er að þessu máli standa, fávita eða hvað. Menn með öllum mjalla leika sjer ekki að því að leggja fram 40–50 milj. kr. til þess að veita raforku langan veg og síðan út í sjó. Það gerir enginn maður óvitlaus „upp á sport“.

En svo slept sje öllu gamni, þá byggjast spurningar hv. þm. á misskilningi, þeim misskilningi, að hann heldur, að fjelagið ætli sjer að byggja út allan fossinn í einu. En það er ekki tilgangur þess, heldur er meiningin að færa sig smátt og smátt upp á skaftið, eftir því sem tilefni gefst til að notfæra orkuna.

Í Reykjavík eykst raforkuþörf til iðnaðar, þótt dýr sje, um helming árlega. En tilgangur fjelagsins er að selja slíkum iðnaðarfyrirtækjum hjer orkuna og ef til vill einnig stofna sjálft til iðnaðarfyrirtækja, til þess að skapa markað fyrir vatnsorkuna, ef vænlegt þykir. Þetta vona jeg, að hv. þm. láti sjer nægja. Þá áleit hv. þm., að það væri eitthvað braskkent við það, að fjelagið ætlaði að selja hlutabrjef í fyrirtækinu; en jeg sje ekki, að það þurfi að vera. Jeg skal athuga það nánar, þegar jeg svara háttv. 1. landsk. (JJ). Hann áleit, að tryggingar yrði að setja fyrir því, að eitthvað yrði gert, og áleit, að eignir fjelagsins væru ekki nema eins og 5 aurar í samanburði við það fjármagn, sem þyrfti til framkvæmdanna. Það fer auðvitað eftir því, hvað hægt er að meta vatnsrjettindi fjelagsins, en þau hljóta að vera mikils virði — í allri Þjórsá.

Hv. þm. sagði, að það væri óforsvaranlegt að veita leyfið fyr en fje væri fyrir hendi. En jeg held, að það væri alveg órjettmætt að veita ekki leyfið, ef fjelagið hefði til umráða eða góða von um t. d. 4–5 miljónir, og það gæti sýnt fram á, að líkur væru á, að það gæti fengið mismuninn.

Þá óskaði hv. þm. ýmsra upplýsinga frá mjer, sem hann virtist ætla að láta sína afstöðu til málsins byggjast á. Jeg skil nú ekki í því, að hv. þm. haldi, að jeg hafi legið á upplýsingum alt þingið. Jeg geri ráð fyrir, að hann hafi fylgst með gangi málsins í hv. Nd. og viti, hvaða upplýsingar jeg hefi gefið þar. Jeg veit því, að í raun og veru ætlast hann ekki til nýrra upplýsinga frá mjer nú. Þá talaði hann um, að það mundi hafa verið slunginn samningamaður, sem við mig hefði samið. Hjer er hv. þm. að tala um hluti, sem hann veit ekkert um, en því neita jeg ekki, að samningamennirnir hafi verið vel til síns starfs fallnir, en ef í þessum orðum hv. þm. á að liggja einhver aðdróttun til mín, um að samningarnir hafi af minni hálfu tekist illa, þá vil jeg benda á, að í hv. Nd. komu fram raddir um það, að jeg hefði verið of harður í samningunum í garð fjelagsins. Jeg sje ekki, hvað gott við getum haft af því að vera að setja skilyrði, sem við vitum fyrirfram, að ekki yrði gengið að. Það yrði til þess, að altaf yrði að vera að slaka til, og gæti þá dregist lengi, að nokkuð yrði gert í þessum efnum.

Háttv. 5. landsk. tók það rjettilega fram, að það er hægt að koma vjelum og þess háttar austur án járnbrautar og það er enginn vafi á því, að fjelagið telur það stóran óhag fyrir sig að þurfa að leggja brautina.

Og þó að það sje rjett, að jeg hafi fengið fjelagið til þess að ganga að því að leggja járnbraut, þá er það engin bót fyrir minn málstað, að jeg hefði sett svo ströng skilyrði, að ekki væri hægt að ganga að þeim. Hv. þm. hjelt því ennfremur fram, að engin trygging væri sett fyrir því, að verkinu yrði lokið á. tilsettum tíma, og að fjelagið mundi fá frest. En hann hlýtur að hafa tekið eftir því, að ef verkinu er ekki lokið á rjettum tíma, þá missir fjelagið rjett sinn, samkvæmt ákvæðum frv. Og hvað það snertir, að sjerleyfishafar muni fá frest, þá hefir háttv. þm. enga ástæðu til að halda slíku fram nú. Það fer alt eftir því, hvort það á þeim tíma verður álitið hyggilegt eða ekki. Um það getum við að svo stöddu engu spáð. Hv. þm. mintist á eldri sjerleyfi og hjelt því fram, að við hefðum verið „margsviknir“ á þeim. En jeg man ekki til, að gerð hafi verið nokkur sjerleyfislög, þar sem hluthafar hafi verið skyldaðir til að taka sjerleyfi, og annars er ekki hægt að tala um svik, þótt ekkert verði úr.

Þá kem jeg að hv. 1. landsk. (JJ), og skal jeg taka hans brtt. eftir röð. Fyrsta brtt. hans er um það, að fjelagið eigi að setja að veði allar eignir sínar hjer á landi, til tryggingar því, að það fullnægi skilyrðum 10. gr. — Um þessar tryggingar, sem verið er að tala um bæði hjer og í hv. Nd., vil jeg segja það, að jeg get ekki sjeð, hvaða sanngirniskröfu við eigum á slíku. Það er ekki nema eðlilegt, að slíkt skilyrði sje sett, þegar maður getur búist við því að verða fyrir einhverjum skaða. En svo er ekki hjer. Jeg vil í þessu sambandi undirstrika það, sem hv. 1. þm. G.-K. (BK) sagði í fyrra um Dynjandaleyfið. Hann segir þar svo: „Jeg ætla aðeins að minnast á, í hvaða tilfellum verður að teljast nauðsynlegt að heimta veð. Það er aðeins þegar svo stendur á, að búast má við, að landið tapi, ef fyrirtækið kemst ekki á fót — —“. Þetta er alveg rjett hugsun, — því að fyrir hvað eigum við að fá borgun? Biðum við nokkurn skaða? Ekki höfum við fje til þess að leggja járnbraut eins og stendur, hvort sem er. Það má kannske telja það skaða, að við höfum látið prenta þskj. í þessu máli og haft umr. um það. Það er helsti kostnaðurinn. Nei, það á ekki að veita sjerleyfi nema ástæður þyki til, og þá tryggingarlaust. Þegar þessir menn þurfa að útvega fje til fyrirtækisins, verða þeir að geta sýnt skilmálana, og fer þá eftir því, hve aðgengilegir þeir eru, hvort menn fást til að leggja fram nokkurt fje. Sá, sem skrifar sig fyrir hlut í fyrirtækinu, getur ekki vitað, hve mikið aðrir vilja leggja fram, og komi svo á daginn, að svo lítið fje fáist, mega þeir, sem fyrstir lofuðu fje, búast við, að það, sem þeir lögðu fram, verði tekið til greiðslu á tryggingarfjenu. Afleiðingin gæti því orðið sú, að enginn þyrði að byrja. Jeg verð því að leggjast á móti fyrstu brtt. frá hv. 1. landsk., enda kom svipuð till. fram í hv. Nd. og var feld þar.

Því hefir verið haldið fram, að vatnsrjettindi fjelagsins væru lítils virði. Það getur nú verið álitamál. Fjelagið er búið að eyða miklu í rannsóknir og mælingar, og skýrslurnar um þessar rannsóknir eru mikils virði, auk þess sem vatnsaflið sjálft hlýtur að vera mikils virði. Ef við viljum semja á þeim grundvelli, að eitthvað eigi að verða úr framkvæmdum, þá megum við ekki setja fleyga í málið, sem sjáanlega geta orðið til spillis.

2. brtt. hv. þm. er um það, að ekki megi framselja sjerleyfið nema með samþykki Alþingis. í frv. stjórnarinnar er ætlast til, að til stjórnarinnar sje að sækja um þetta. Munurinn á því, hvort Alþingi eða stjórnin framkvæmir þetta, sýnist mjer aðallega vera sá, að það gæti valdið allmiklum drætti, alt að ári, ef Alþingi á að gera það, og það gæti haft mikið að segja fyrir járnbrautarlagninguna. Úr því að við erum hjer að setja skilyrði fyrir Titan og sömu skilyrði eiga að gilda um aðra, þá sje jeg ekki ástæðu til að setja strangari ákvæði en svo, að heimta samþykki stjórnarinnar til þessa.

Um 3. brtt. hv. þm. vil jeg segja það, að jeg gæti vel gengið inn á fyrri setninguna í henni. En það, sem í henni felst, er fulteins vel framsett hjá hv. 1. þm. G.-K. og hv. 1. þm. Eyf., og sje jeg því ekki, að hún komi til álita, enda lýsti hv. þm. því yfir, að hann væri fús til að taka hana aftur og koma með brtt. við síðari umr. málsins.

Síðari hluti till. er um það, að ríkissjóður taki ekki á neinn hátt ábyrgð á skuldbindingum sjerleyfishafa. Jeg skil ekki, hvernig háttv. þm. getur ímyndað sjer, að slíkt geti komið til mála. (JJ: Jeg kom með dæmi frá Noregi). Það hefir aldrei komið fyrir, að norska ríkið hafi þurft að bera ábyrgð á skuldbindingum einkafjelaga. (JJ: Það hafa verið gerðar slíkar kröfur). Já, — en hvað varð um þær kröfur? Þær urðu auðvitað að engu. Mjer finst það óviðeigandi að vera að tala um skuldbindingar, sem auðvitað eru okkur óviðkomandi, og svo getur það orðið til þess að vekja tortryggni þeirra manna, sem fjelagið þarf að fá peninga hjá. Jeg get ekki sjeð, að annað sje unnið við að samþ. svona till., því að það sjer hver einasti maður, sem eitthvað þekkir til fjármála, að það getur ekki átt sjer neinn stað, að við verðum á nokkurn hátt bundnir af skuldbindingum fjelagsins vegna frv. eins og það er. Að öðru leyti þarf jeg ekki að svara hv. 1. landsk. Hann var að tala um eignir fjelagsins og var með fyrirspurn til mín um þær. Jeg hefi enga heimild til þess að telja hjer upp eignir þess eða gefa neina efnahagsskýrslu. En á það dreg jeg enga dul, að jeg veit, að fjelagið getur ekki lagt mikið fje fram sjálft, og það ætlar að útvega sjer fje hjá öðrum. (JJ: Eða framselja leyfið). Já, getur komið til mála, en aðallega mun tilætlunin vera að selja hlutabrjef í fyrirtækinu.

Hv. þm. spurði ennfremur, hvort h/f Titan væri samningshæft, og átti víst að skilja það svo, hvort við gerðum okkur ekki minkun með því að semja við það. (JJ: Jeg svara síðar). Jeg get ekki betur sjeð en að fjelagið sje í þeim skilningi fullkomlega samningshæft, því að það er kunnugt, að það eru bæði heiðarlegir og duglegir menn, sem að því standa. Hvað það snertir, að þetta sje ekki ríkt fjelag, þá á það þó vatnsrjettindin í allri Þjórsá, og þau hljóta að vera mikils virði, sjerstaklega þegar á það er litið, hve miklu hefir verið kostað til rannsókna á vatnsaflinu. Hv. þm. viðurkendi, að ástæðan til að veita leyfið væri járnbrautin. Þetta er alveg rjett. Þá mintist hv. þm. á sjerleyfi, sem þingið hefði áður gefið. Jeg veit ekki til, að gefið hafi verið út mikið af ónotuðum sjerleyfum, en það hafa verið gefin út sjerleyfislög. Hv. þm. fór mjög hörðum orðum um Dynjandasjerleyfið í fyrra og sagði, að það hefði verið alveg óforsvaranlegt. Jeg verð að segja, að mjer komu á óvart þessi ummæli hv. þm., því að í umr. í fyrra um það mál opnaði hann ekki sinn munn til andmæla. (JJ: Jeg greiddi atkv. á móti). Það er jeg hræddur um, að sje ekki rjett hjá hv. þm., að minsta kosti er þá ekki rjett bókað í Alþt., því að þar stendur, að frv. hafi verið samþ. með 10 shlj. atkv., svo að jeg get ekki sjeð, að hv. þm. skýri rjett frá.

Það kemur einkennilega fyrir að koma nú fram með þetta. Ef hv. þm. hefir litið svo á í fyrra, að leyfið væri óforsvaranlegt, þá var það skylda hans sem þm. að koma fram með andmæli. Nú er hægt að sýna fram á, að þetta sjerleyfi er mun betra fyrir landið en Dynjandaleyfið. Munurinn er a. m. k. um 5 milj. kr. Það er járnbrautarverðið, að frádregnum þeim 2 milj., sem ríkið á að leggja fram, og svo munurinn á árgjaldinu fyrir hestorku rafmagns. Nú er gaman að sjá, hve samkvæmur hann er sjálfum sjer. í fyrra hreyfði hann engum andmælum, en nú er hann fullur getsaka í máli, sem hægt er að sýna fram á, að er a. m. k. 5 milj. kr. hagstæðara fyrir landið.

Hv. þm. upplýsti, að í Noregi hefðu verið gefin sjerleyfi, sem hefðu lent í „svindilbraski“, eins og hann orðaði það. Það má vera, að þetta sje rjett, en jeg hefi þó ekki heyrt þess getið, að norska ríkið hefði mist álit við það eða hlotið neina vansæmd af því.

Annars mátti skilja það á ræðu hv. þm., að hann væri ráðinn í því að samþ. frv., því að hann sagði, að það væri gott að fá þetta sjerleyfi, ef eitthvað yrði gert, og sömuleiðis ef ekkert yrði úr framkvæmdum, því að þá mundi þingið ekki veita fleiri sjerleyfi í bráð. Af þessu skilst mjer, að það sje alveg sjálfsagt fyrir háttv. þm. að greiða atkv. með frv.

Jeg er ekki sömu skoðunar og hv. 1. þm. G.-K. (BK) um þetta mál, án þess jeg vilji þó gera lítið úr hans skoðun. Jeg viðurkenni, að þetta er óreynt mál. En jeg sting upp á því til samkomulags við hann og hv. meðflm. hans, hvort þeir vilja ekki falla frá brtt. sínum, gegn því loforði, að þær verði teknar orðrjett upp í sjerleyfið. Hv. flm. brtt. (BK) vjek að þessu, en mjer skildist hann vera tregur til þess af því að ekki yrði vitað fyrirfram, hvaða stjórn gæfi sjerleyfið út. Jeg sje ekki, að það skifti neinu máli. Sú stjórn, sem gefur sjerleyfið út, verður að kynna sjer umr. um málið og alt, sem fram hefir farið því viðvíkjandi, og þá einnig þetta atriði. Jeg vildi því frekar mælast til, að háttv. flm. vildu ganga inn á þessa miðlunarleið, þar sem ekki verður sjeð, að hún geti á nokkurn hátt orðið hættuleg þeirra málstað. Viðvíkjandi fyrri brtt. var svo um talað milli mín og sjerleyfisbeiðanda, að það yrði að vera sjerleyfisatriði, hvenær þessar 2 milj. skyldu greiddar. Jeg er viss um, að þeir geta ekkert haft á móti þessum ákvæðum. Síðari brtt. tel jeg einnig rjettmæta og er fús til að lýsa yfir því, að hún skuli tekin upp í sjerleyfið á sínum tíma.