27.04.1927
Neðri deild: 60. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2875 í B-deild Alþingistíðinda. (1983)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Hjeðinn Valdimarsson:

Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að jeg væri að vinna á móti hagsmunum míns kjördæmis með því að leggjast á móti þessu frv., með því að jafnerfitt væri að útvega fje til að virkja Sogsfossana. En nú vil jeg beina þeirri spurningu til hæstv. atvrh., hvort hann álíti það jafnerfitt að útvega 5–6 miljónir og ef til vill alt að 100 milj., eins og láta mun nærri, að þurfi til að virkja Urriðafoss og koma upp tilheyrandi orku- og iðjuverum.

Virkjun Sogsins tæki 2–3 ár, og á henni mætti byrja strax, þegar fje væri fengið, en Titan á ekki að byrja fyr en 1931 og virkjunin getur tekið ótakmarkaðan tíma.

Reykjavíkurbær þarf að fá rafmagn sem fyrst og sem ódýrast, og það liggur alveg beint við að taka það úr Soginu.

Jeg vil þakka hv. frsm. fyrir svör hans, en jeg skal geta þess um leið, að það voru í raun og veru engin svör við því, sem jeg spurði um. Það segir sig sjálft, að fjelagið byrjar á verkinu, ef það tekur við sjerleyfinu, en það, sem jeg spurði um, var það, hvort það mundi yfirleitt taka við sjerleyfinu.