23.04.1927
Efri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3034 í B-deild Alþingistíðinda. (2010)

20. mál, Landsbanki Íslands

Jónas Kristjánsson:

Jeg er í fjhn. og hafði því tillögurjett um þetta mál. Jeg ætla því að leyfa mjer að gera aths. við 5. brtt. hv. 1. landsk. (JJ). Sú tillaga er svo hljóðandi:

„Allar opinberar stofnanir og opinberir sjóðir, er hafa handbært fje á sjóðvöxtum, skulu geyma það í Landsbankanum eða útibúum hans, nema öðruvísi sje ákveðið í stofnskrám eða skipulagsskrám. Sama er um ríkisfje og opinbert fje, er opinberir starfsmenn hafa undir höndum.

Ákvæði greinar þessarar taka ekki til Söfnunarsjóðs Íslands nema að því leyti, sem hann hefir handbært fje á sjóðvöxtum. Sparisjóðir skulu halda rjettindum þeim, er þeir hafa samkvæmt lögum nr. 44, 3. nóv. 1915, um sparisjóði“.

Þessi tillgr. er afaróheppileg fyrir sveitir landsins. Það er kunnugt, að sparisjóðum úti um land er flestum svo vel stjórnað, að þeir hafa engu tapað og fje þeirra er geymt á öruggum stað. Þar að auki hafa þessir sparisjóðir safnað allmiklum varasjóði, svo að þeir eru hin mesta stoð fyrir þau hjeruð, sem hlut eiga að máli. Það er því óhappaverk, ef á að sundurliða þessar stofnanir og rýra þær meira en gert er með sparisjóðslögunum, að því leyti, sem þeir eru skyldir til að geyma nokkuð af fje sínu í Landsbankanum. Jeg vil þeim banka vel á allan hátt, en það má ekki efla hann á kostnað annara þjóðþrifastofnana.

Mjer kom þessi brtt. einkennilega fyrir sjónir, þar sem hv. 1. landsk. (JJ) þykist vilja styðja sveitirnar eftir megni. Mjer er kunnugt um sparisjóðina, sem eru á Sauðárkróki og Blönduósi, að þeir eru mikil stoð og stytta fyrir kaupfjelögin þar. Jeg held, að hv. 1. landsk. hafi því ekki gert sjer grein fyrir því, hvað hann er að gera með þessari brtt. Hv. 1. landsk. hreyfði ekki þessari brtt. á fundum nefndarinnar. Mig langaði til, en sá það ekki fært fyrir bankann, að koma með þá uppástungu, að sparisjóðunum væru útveguð reikningslán, til þess að auka starfsfje þeirra, svo að starf þeirra gæti orðið að sem mestum notum fyrir ræktun landsins, landbúnaðinn og viðskifti öll. Jeg get ekki fylgt þessari brtt., af því að mjer finst hún ganga í þveröfuga átt við það, sem ætti að vera. Mjer finst hv. 1. landsk. ekki sýna þau heilindi með þessari till., sem hann þykist vilja sýna sveitum landsins.

Þá vil jeg minnast á þá brtt., sem fjallar um, að bankaráðið verði kosið utan þings og að matsnefnd bankans verði útnefnd af hæstarjetti. Hv. 1. landsk. gaf í skyn, að jeg ætti eitthvað í þeim, og er það rjett.

Jeg skal þá geta þess, að jeg stakk upp á því, að bankaráðið væri kosið utan þings af því, að jeg óttast, að hv. 1. landsk. komist í þessa nefnd. Mjer hrýs hugur við að hugsa um, hvílíkar afleiðingar það gæti haft fyrir land og þjóð. Viðkynning mín við hann á þessu þingi er sú, að mjer ógnar það, ef maður, sem ekki hefir meiri rjettlætistilfinningu, maður, sem fórnar öllu á altari flokkspólitísks fylgis og pólitískra eiginhagsmuna, þótt það sje landi og þjóð til mesta háska, væri kosinn í þessa nefnd. Það eru ekki fá dæmi, sem mætti færa þessu til sönnunar. (JJ: Ölvaða embættismenn). Hv. þm. er sjálfur stöðugt ölvaður af hatri, illgirni og ofsóknarástríðu, og það rennur aldrei af honum. Og ef hann ætlar sjer að nota bankann eins og bindindismálið, til pólitískra hagsmuna fyrir sig, þá sjá allir, hvaða afleiðingar það gæti haft. Fyrir þær verður ekki sjeð. Það er öllum kunnugt, að hann hefir notað Samband íslenskra samvinnufjelaga og samvinnuskólann sem pólitíska lyftistöng fyrir sjálfan sig. Þetta viðurkenna jafnvel sumir flokksbræður hans. Það er ekki til þrifa, heldur til stórskaða fyrir samvinnufjelagsskapinn, hvernig hv. þm. hefir misnotað þetta þjóðþrifafyrirtæki, sem Samband Ísl. samvinnufjelaga og samvinnufjelagsskapurinn er í sjálfu sjer. Það er nú svo komið, að samvinnuskólinn virðist til þess eins stofnaður og starfræktur að ala upp pólitíska „agitatora“ og slefbera fyrir háttv. 1. landsk. Það er vitanlegt, að háttv. 1. landsk. hefir marga slefbera í hverri sveit landsins. Einn þeirra hefir viðurkent fyrir mjer, að hv. 1. landsk. hafi aukið og rangfært sögu frá sjer, til þess að geta notað hana sem vopn á pólitískan andstæðing. Hvernig færi, ef þessi hv. þm. kæmist í bankaráðið? Gæfi hann yfirlýsingu um, að hann tæki ekki við kosningu, þá stæði mjer á sama um þessa brtt. Það vakti aðeins fyrir mjer að hindra, að hv. þm. kæmist í nefndina, svo að ef hann gæfi yfirlýsingu um það, að hann vildi ekki fara í hana, þá væri jeg ánægður.

Það eru fleiri læknar en jeg, sem álíta, að þessi maður sje ekki andlega heilbrigður. Einkennin koma sjerstaklega fram sem ofsóknarástríða og í því að sá hatri og rógi út um sveitir þessa lands. (Forseti hringir). Jeg verð að skoða þessa hringingu sem samþykki. Jeg var aðeins að skýra, hvers vegna meiri hluti nefndarinnar hefði hagað till. eins og hann gerði. Það er nú komið svo, að það er að rætast, sem segir í Völuspá, „að bræður munu berjast og að bönum verða“, því að þessi maður hefir sáð út eiturfræi haturs og sundrungar. Það hefir jafnvel gengið svo langt, að menn hafa orðið að flýja ættaróðul sín fyrir þessar sakir. Fyrir háttv. 1. landsk. virðist vaka hið latneska máltæki: Divide et impera (deildu og drotnaðu). Hv. 1. landsk. hefir oft orðið tíðrætt um drauga og hefir áður sagt hjer í deildinni, að frumvörp sín væru draugar, sem ásæktu stjórnina og Íhaldsflokkinn og myndu ráða niðurlögum hans. Hann segist sjálfur vera draugavaldur. En það fór nú oftast svo, að uppvakningarnir rjeðust að draugavaldi, þegar þeir náðu ekki í eða rjeðu ekki við þá, sem þeir voru sendir til höfuðs, og dróu þann, sem vakti þá upp, niður í dysina til sín. Og nú eru þessir draugar hv. 1. landsk. að draga hann sjálfan niður í dys hins blinda haturs og ofsóknarástríðu, þar sem aldrei sjer sól rjettlætis og sannleika. Mjer sýnist hann vera kominn hálfur niður í þá gröf. Fólk setur geðveikiköst hans í samband við strauma og spyr, hvernig standi á tungli, þegar köstin koma að honum. Hvernig er nú hægt að trúa þessum manni fyrir fjármunalegri velferð þjóðarinnar og láta hann sitja í bankanefndinni? Flokksmönnum hans ætti að vera trúandi til að hindra það. Annars vorkenni jeg flokksmönnum hans það að hafa hann fyrir foringja, eins og jeg aumkva sjálfan hann. Hv. 1. landsk. hefir tvö andlit. Með öðru horfir hann til jafnaðarmanna; hitt veit að bændum, og eru þau andlit allólík.