27.04.1927
Efri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3142 í B-deild Alþingistíðinda. (2031)

20. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. annars minni hl. (Jónas Jónsson):

Jeg þarf að víkja fáeinum orðum að hæstv. forsrh. Hann segir, að það sje ekki vegna blaðagreina, að ráðist sje í að reyna að hindra aðstreymi til Landsbankans, heldur sje það út af grein Ólafs Lárussonar. En alt, sem Ól. Lárusson segir, stendur jafnt fyrir þessu. En þar sem hæstv. ráðh. heldur því fram, að jeg sje hjer í ósamræmi við skoðun mína á enska láninu, þá fer hann með rangt mál. Það er hann, sem hefir snúist. Það var hann, sem ætlaði að taka lán handa Landsbankanum án þess að spyrja þingið leyfis, af því að hann hjelt, að bankinn hvíldi á herðum landsins. Hitt hefi jeg skýrt áður, að það datt engum þingmanni í hug, að Landsbankinn tæki margra miljóna króna lán erlendis án þess að þingið vissi. Það var sjálfsagt að láta þingið fjalla um svo stórfelda ráðstöfun. Hæstv. ráðh. mælti móti till. minni um ræktunarsjóðinn. En það geta aðeins þeir gert, sem ekki vilja unna ræktunarsjóðnum að fá þessi kaup. Sjóðurinn er þur, af því að hann getur ekki selt brjef. Það er alger misskilningur hjá hæstv. ráðh., að ræktunarsjóðurinn geti beðið nokkurn halla af þessu ákvæði. Þetta er einmitt þveröfugt.

Jeg get vel skilið, að hv. frsm. meiri hl. sje orðinn þreyttur á sínum eigin útúrdúrum, en það var hann, sem skapaði útúrdúrinn í söguna 1909, og getur hann því þakkað sjálfum sjer það. Hann hjelt því fram viðvíkjandi brjefi Ólafs Lárussonar, að hann væri nú farinn að efast um, að landið bæri ábyrgð á lánum Landsbankans. En í blaðagreinum 1913 hjelt hann því fram, að landið bæri ábyrgð á bankanum. Þetta sýnir, að hv. þm. er nú að brjóta niður það, sem hann þá var að byggja upp. Það er sýnilegt af áliti meiri hlutans og mínu, að við tökum gild rök Ólafs Lárussonar. (BK: Ekki jeg framar). Þá hefir hv. þm. snúist tilefnislaust. Hv. þm. talaði um samábyrgðir og tryggingar og vildi koma því inn, að í samábyrgð væri ljeleg trygging. Það hefir enginn sagt, að samábyrgð væri sú trygging, er aldrei gæti tapast á. En jeg hefi sannað, að það hafa orðið meiri töp á persónutryggingum heldur en henni. Samábyrgðin hefir verið sögð eins góð, en það hefir sannast, að hún er betri. Hv. þm. vill ekki gefa upp nöfn. Það sýnir, að hann hefir ekki gagn af þessum rökum sínum hjer. En hann ætti ekki að vera með dylgjur um þetta, sem hann getur ekki staðið við.