02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3161 í B-deild Alþingistíðinda. (2043)

20. mál, Landsbanki Íslands

Hjeðinn Valdimarsson:

Það er óhætt að segja, að nú er svo komið, að mest er um það vert, að peningastofnanir landsins sjeu á rjettum og traustum grundvelli reistar. Mætti því búast við, að í slíku frv. og því, er hjer er um að ræða, væri gert alt, sem hægt er af landsins hálfu, til þess að efla sem mest þá stofnun, sem á að verða seðlabanki landsins. Seðlabankar hafa það hlutverk í öllum löndum að stjórna peningamálum hvers lands. Þeir ráða vaxtakjörum til einstakra manna og annara banka, og því er undir ákvörðun þeirra komið, hvernig atvinnurekstur getur borið sig. Í öðru lagi eiga þeir að sjá um jafnvægi á peningagildi landsins, þannig að gengi sveiflist sem minst upp og niður, eða þá færa það til eftir atvikum, eftir því sem Alþingi kann að orka. Það er því næsta mikils virði, að seðlabank.ar sjeu sterkar stofnanir og að baki þeim standi sterkur og eindreginn vilji almennings. Fyrst þá, er sagt verður, að svo sje, má búast við verulegum árangri af starfi þeirra. Þá þurfa þeir og að hafa töluvert mikið eigið fje. Er viðskiftakreppur koma, hlaupa seðlabankarnir í skörðin þar, sem almennir bankar bregðast. Þeir eru til með sína seðla og sitt fjármagn til þess að hjálpa öðrum peningastofnunum og almenningi, er á þarf að halda og mest liggur við. En til þess er nauðsynlegt, að seðlabankinn njóti alls mögulegs trausts og svo tryggilega um hann búið, að ekki sje ástæða til að halda, að bankinn hafi ekki á bak við sig það fjármagn og gjaldþol, sem hægt er að safna að aðalpeningastofnun í landinu. Ennfremur þarf að vera trygt eftirlit frá þings og þjóðar hálfu, áður en tekin er ákvörðun um slíkan banka, og stjórn hans þannig fyrir komið, að hún sje ódýr og þannig, að ekki nema tiltölulega fáir menn beri ábyrgðina, til þess að hún dreifist sem minst, en verði því traustari.

En sje skoðað frv. eins og það kemur frá hæstv. stjórn og hv. Ed. með þetta fyrir augum, verður mönnum það á að segja, að engu er líkara en að þessir tveir aðiljar hafi gert sitt til þess að rýra væntanlega seðlabankastofnun og veikja aðstöðu hennar frekar en styrkja. Jeg get mint á atriði, sem hv. þm. Str. (TrÞ) gat um og mestum býsnum veldur, en það er takmörkun ábyrgðar ríkissjóðs við stofnfje bankans sjálfs. Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir komið með ýmsar ástæður til þess að afsaka þessa breytingu á frv.

Það er þá fyrst sú ástæðan, að komið hefir fram á undanförnum þingum frv. til laga um banka með takmarkaðri ábyrgð. En með því að þar var um hluthafabanka að ræða, afsakar það ekki takmarkaða ábyrgð á seðlabanka ríkisins, enda náði þetta frv. ekki fram að ganga og sætti óvenjumikilli andúð utan þings.

Enn gat hæstv. fjrh. þess, að þegar umr. voru hjer í þinginu um heimild fyrir ábyrgð á láni handa Landsbankanum, þá mætti það mótspyrnu af hendi margra þingmanna. Út frá því komst hæstv. ráðh. að þeirri niðurstöðu, að sú mótspyrna hlyti að vera bygð á þeirri forsendu, að þeir hinir sömu þingmenn hafi að minsta kosti ekki þá gert ráð fyrir því, að ríkið bæri ábyrgð á bankanum yfirleitt. Jeg mótmæli, að svo hafi verið um mig að minsta kosti og veit, að svo er um fleiri hv. þm. Slíkt kom okkur aldrei til hugar, þótt við vildum ekki fá hæstv. ríkisstjórn svo að segja ótakmarkaða lánsheimild í hendur. Það er alt annað mál, að ríkissjóður beri ábyrgð á bankanum, þegar hann er illa stæður, eða að ríkisstjórnin hafi á hverjum tíma heimild til þess að taka ný lán fyrir bankans hönd, svo mikil, sem henni sýnist. Hjer var um að ræða 9 milj. kr. lán hjá nýjum viðskiftavin, og auk þess ástæðan til lántökunnar sú, að styrkja átti annan banka heldur en Landsbankann, því að það er öldungis óvíst, að lánið hefði verið tekið annars, ef sú ástæða hefði ekki verið fyrir hendi.

Jeg tók það fram þá, að jeg hefði ekkert á móti heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að ábyrgjast lán fyrir bankann, ef ekki væri ætlast til að ganga inn á nýja braut með því að ná stórfeldum peningastraum til landsins, sem mundi hafa í för með sjer miklar breytingar á peningamálum þjóðarinnar.

Ekkert er eðlilegra en það, að Alþingi áskilji sjer rjett til þess að athuga, hvort rjett sje að fara inn á þá nýju braut. Hæstv. ráðh. (JÞ) hefir játað, að lagaprófessorinn, sem spurður var álits um þetta atriði, telji, að ríkissjóður muni sem stendur bera ábyrgð á Landsbankanum lögum samkvæmt. En á móti þeirri skoðun setti hann sína skoðun, að eins og sakir stæðu, kæmi ekki til mála, að það væri hægt í framkvæmdinni.

Því er svo háttað, að það hefir afdrifamiklar afleiðingar, ef menn ætla sjer að halda því fram, að ríkissjóður beri ekki ábyrgð á Landsbankanum. Má til nefna aðrar stofnanir, sem ríkið rekur, t. d. verslanir ríkissjóðs. Gjaldtraust þeirra er bygt á því, að ríkissjóður standi þar á bak við. Mjer er kunnugt um það, að ríkissjóður eða ráðherra sem slíkur hefir ekki tekist formlega á hendur ábyrgð á viðskiftalánum t. d. landsverslunarinnar, meðan jeg var starfsmaður þar. Það var gengið út frá ábyrgðinni sem gefinni. Afnám ábyrgðarinnar hlýtur að hafa í för með sjer veikt gjaldtraust út á við fyrir þessar stofnanir. Einnig má gera ráð fyrir, að það hefði þau áhrif, að gjaldtraustið minkaði inn á við.

Þegar erfitt er í ári og hætt við, að bankinn tapi, er enginn vafi á því, að innlánsfjeð mundi verða tekið út og lagt inn annarsstaðar, þar sem því væri betur borgið. Gæti jafnvel hugsast, að það yrði flutt til útlanda.

Hæstv. fjrh. vildi geta þess, að þar sem bankinn væn ekki stofnaður sem gróðafyrirtæki, þá væri ekki ástæða til, að ríkissjóður bæri ábyrgð á honum, nema að því leyti, sem þyrfti til þess að auka og viðhalda stofnfje bankans.

En bankinn er eftir sem áður gróðafyrirtæki, og gróðinn rennur í ríkissjóð. Þótt sparisjóðsdeildin sje sjálfstæð stofnun og tekjuafgangur renni í varasjóð deildarinnar, þá er varasjóður þó ávalt eign ríkissjóðs, og þótt seðl4abankinn gefi aðeins 6% í ríkissjóð, þá er það þó nokkuð, og bankinn þá eign ríkissjóðs. En öllu þessu má hvenær sem er breyta með nýjum lögum og leggja allar eignir bankans beint inn í ríkissjóðinn.

Það er skiljanlegt hverjum manni, sem athugar það, að með þessu, að taka af bankanum ríkissjóðsábyrgðina og láta hann hafa í staðinn 3 milj. kr., er verið að láta ríkissjóð kaupa af sjer ábyrgðina. Jeg efast ekki um, að enginn fjármálamaður, hvorki utanlands nje innan, telur það ekki borga sig fyrir bankann að fá 3 milj., en tapa í þess stað ótakmarkaðri ábyrgð ríkissjóðs. — Þessi breyting á frv., sem hæstv. fjrh. er að mæla með, mundi því skerða mjög gjaldtraust bankans.

Þá eru enn nokkur atriði í frv., sem eru miður ákjósanleg. Mun jeg drepa á þau helstu.

Stjórn bankans á að vera í höndum 5 manna bankaráðs og 3 bankastjóra. Þetta bankaráð á að hafa á hendi mikið starf, alt daglegt eftirlit í bankanum, og að launum 25 þús. kr. á ári. Undir því starfa 3 bankastjórar sem framkvæmdarstjórn bankans, og er einn þeirra hæstur í tigninni, en ekki eins og nú, að allir sjeu jafnrjettháir, þótt ekki verði sjeð af frv., að hvaða leyti aðalbankastjóri hafi völd fram yfir hina tvo. Verður það sennilega tiltekið í erindisbrjefi hans. Bankastjórarnir hafa að launum 12 þús. kr. á ári, auk dýrtíðaruppbótar, en laun aðalbankastjóra skulu ákveðin af bankaráðinu með samningi. Það lítur út fyrir, að þessi aðalbankastjóri eigi að verða nokkuð dýr maður, úr því að ekki þykir fært að geta um launaupphæð hans. Ef hægt væri að sýna fram á brýna nauðsyn til þess að hafa yfirbankastjóra, þá er auðvitað ekkert við því að segja að skipa mann í þá stöðu, þótt hann hefði að sjálfsögðu nokkru hærri laun en hinir. En alt virðist benda á, að 3 bankastjórar, jafnir að völdum og metorðum, geti vel annast framkvæmdarstjórn bankans, þannig að allir sjeu ánægðir, og verður því ekki sjeð, hvað vakir fyrir hæstv. fjrh. með þessu. Þegar slíkt bákn er yfir bankanum, 5 manna bankaráð og 2 bankastjórar, auk aðalbankastjóra, með tilskildu bókhaldi, skriffinsku og eftirliti, þá má fyrst búast við, að færi að bera á ágreiningi um mál bankans við ýms tækifæri. og þá færi heldur en ekki að dreifast ábyrgðin frá því, sem nú er, og vandalaust að skjóta sjer undan henni fyrir hvern einstakan.

Eins og nú er á fje opinberra sjóða að ávaxtast í Landsbankanum, þar sem því verður viðkomið. En eftir frv. er ekki ætlast til þess. Það má auðvitað ávaxtast þar eins og í hverjum öðrum banka, en það er ekki nein skylda. Við þetta atriði er tvent að athuga. Annað er það, að hætt er við, að hæstv. stjórn mundi hyllast svo til að opinbert fje, sem nú er ávaxtað þar, yrði flutt þaðan og yfir í aðra peningastofnun, t. d. Íslandsbanka. Gæti það haft stórkostleg áhrif, ef svo óskynsamlega væri farið að, og er ekki enn sjeð fyrir afleiðingarnar af slíku ráðlagi. Í öðru lagi mundu menn álykta og álíta svo, að ekki sje bankinn sjerlega tryggur, úr því að hæstv. stjórn ber það fram og háttv. Alþingi samþykkir — en það vona jeg, að komi ekki til —, að Landsbankinn, sem þó er eign ríkisins, skuli ekki hafa í sinni vörslu fje opinberra sjóða.

Í sömu átt gengur það, að fram skuli fara sjerstök úttekt á bankanum. Það lítur ógn sakleysislega út eins og það er í upphafi í frv. En þó var feld í hv. Ed. till. um, að sú úttekt færi fram á venjulegan hátt, þannig að eftirlitsmaður banka og sparisjóða framkvæmdi hana. Það virðist benda á, að skipa eigi sjerstaka rannsóknarnefnd í því skyni. Sú rannsókn gæti valdið ekki lítilli tortrygni í garð bankans. Fleira virðist og benda á, að til sjeu þeir menn, sem er það ekki fjarri skapi að gera Landsbankann tortryggilegan. Í aðalmálgagni hæstv. stjórnar, Morgunblaðinu, birtist t. d. nýlega grein, sem gekk út á það að veikja trú manna á bankanum, með því að hamra á þeirri skoðun, að landið beri ekki ábyrgð á honum.

Þá er það ákvæði aftast í frv., að skylda bankann til þess að endurkaupa viðskiftavíxla af Íslandsbanka. Við því er auðvitað ekkert að segja, að ætlast sje til, að Landsbankinn kaupi víxla af öðrum bönkum, og þá vitanlega ekki síður af Íslandsbanka, að öðru jöfnu. En slík skilyrðislaus skylda að kaupa fyrir vissa upphæð víxla af ákveðnum banka, án þess neitað verði, hvernig sem á stendur, virðist ekki vera til þess að styrkja aðstöðu Landsbankans gagnvart þeim banka.

Enn eru tvö atriði, sem jeg þarf að minnast á.

Hæstv. forsrh. lagði mikla áherslu á það, að bankastjórar mættu ekki vera alþingismenn, og það var ekki fyr en úrskurður kom um það frá hæstv. forseta Ed. (HSteins), að þetta ákvæði væri á móti stjórnarskrá landsins, að hæstv. ráðh. ljet af þrákelkni sinni. En nú kemur þetta ákvæði afturgengið fyrir tilstilli stuðningsmanna hæstv. stjórnar í Ed., og er svipurinn enn vel þekkjanlegur, en hljóðar nú svo, að alþingismenn megi ekki vera bankastjórar. Sjá allir, hver munurinn er; það er sætaskifti á orðum, en eðlismunur enginn.

Mjer finst það hart, ef Alþingi færi nú að samþykkja, að nokkrir af samþingismönnum vorum megi ekki hafa á hendi embætti eða önnur störf fyrir þjóðina auk þingmensku. Það er bæði á móti anda og orðahljóðan 44. gr. stjórnarskrárinnar. Og kunnugt er, að þetta er gert fyrir harðfylgi hæstv. forsrh., til þess að bola frá þingsetu ákveðnum manni, sem er eindreginn andstæðingur hæstv. stjórnar, en er jafnframt bankastjóri við Íslandsbanka. Er þessi vansi enn óvirðulegri fyrir þær sakir.

Þá vildi jeg minnast á síðasta atriðið, þar sem ætlast er til með frv., að kosning í bankaráðið skuli fara fram á þessu þingi. Nú standa kosningar fyrir dyrum og það er víst, að flokkur núverandi stjórnar verður í minni hluta eftir kosningarnar og að bráðabirgðastjórnin, sem nú situr, verður þá að fara frá. — Er þetta því hálfgert gerræði, að ætlast til þess, að þetta þing, sem vitað er, að er í ósamræmi við vilja þjóðarinnar, skipi nú bankaráð, sem á að vera fulltrúi þjóðarinnar við bankann.

Að endingu vil jeg draga það saman, sem jeg nú hefi sagt um frv. Þær breytingar, sem hæstv. stjórn hefir lagt mesta áherslu á í hv. Ed., ganga í þá átt að rýra álit Landsbankans út á við og gera honum óhægra um að vera aðalfjárstofnun landsins, draga sem mest úr áhrifum hans á stjórn peningamálanna, og þá jafnframt gera einkabönkum sem auðveldast að leika lausum hala.