16.05.1927
Neðri deild: 76. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3272 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

20. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Fjhn. hefir ekki haft tíma til að athuga þetta mál sem skyldi síðan það kom frá hv. Nd., en þar hafa verið gerðar á því nokkrar breytingar, sem þurft hefði að athuga nánar, þó að flestar þeirra sjeu að vísu fremur smávægilegar. Jeg skal skýra stuttlega frá þeim breytingum, sem á frv. hafa verið gerðar síðan það fór úr þessari hv. deild.

Það er þá fyrst, að burt hefir verið felt niðurlag 7. gr., svo hljóðandi: „Útibúum bankans er eigi skylt að leysa inn seðla eða kaupa gull nema bankaráðið mæli svo fyrir“. Þetta er gert með tilliti til þess, að álitið er hentugra að láta sparisjóðsdeildina hafa útibúin heldur en seðlabankann, og verð jeg að fallast á, að þetta fyrirkomulag sje „praktiskara“. Við það sparast að hafa tvenskonar bókfærslu hjá útibúunum.

Þá er 8. gr. Í upphafi þeirrar greinar er orðabreyting, að í stað: „Seðlabankanum er heimilt að gefa út seðla“ komi: „Seðlabankinn gefur út seðla“. Í sömu grein er breyting á þá leið, að í stað „gullforða, er nemi 40%“ komi: „gullforða, er nemi 3/8“ o. s. frv. Þessa breytingu álít jeg til skemda, en þar sem ekki munar meiru, mun meiri hl. nefndarinnar sætta sig við hana, þótt jeg hinsvegar verði að halda því fram, að betra hefði verið að hafa 40%, eins og venjulegast er að hafa gullforðann í öðrum löndum Evrópu.

Úr 9. gr. er strikuð svigasetning í síðustu málsgrein, og er það gert í samræmi við breytinguna á 7. gr., um að seðlabankinn skuli ekki hafa útibúin, heldur sparisjóðsdeildin.

Þá er 10. gr. Þar er slept úr b-lið orðinu „erlendum“. Þetta tel jeg heldur til skemda, þar sem það dregur fremur úr tryggingum bankans, en nefndin mun þó ekki gera þetta að ágreiningsatriði.

Í 13. gr. hefir Nd. tekið aftur upp þessi margumtöluðu orð „á dálk“. Jeg álít þau óþörf, en hinsvegar svo meinlaus, að litlu skifti, hvort þau standa þarna eða ekki. Síðasta málsgr. er feld burtu í samræmi við breytinguna við 7. gr.

Úr 14. gr. eru feld burtu þau hlunnindi bankanum til handa, að einfaldar ávísanir fái víxilrjett, ef þær eru afsagðar eftir sömu reglu og víxlar vegna greiðslufalls. Jeg taldi þetta hlunnindi fyrir bankann, en Nd. ber lögfræðing fyrir því, að ákvæðin þyrftu að vera fyllri, ef þau ættu að standa. Jeg lít svo á, að það sje bankanum í óhag, að þessu sje burtu kipt, en eins og sakir standa, verður nefndin að sætta sig við þessa breytingu.

Við 21. gr. er gerð sú breyting, að endurskoðendur skuli skipaðir til þriggja ára, og tel jeg þá breytingu heldur til bóta.

Þá er 24. gr. breytt þannig, að varasjóður skuli fá helming arðs, í stað Telur nefndin þá breytingu til bóta, af því að hún vill tryggja hag bankans sem best.

Þá hefir verið gerð töluverð breyting á 34. gr. Eins og frv. var samþ. í þessari hv. deild var ákveðið, að 4 bankaráðsmenn, er vera skyldu utanþingsmenn, skyldu kosnir á þá leið, að hvor deild kysi 2 þeirra, en Nd. hefir breytt þessu þannig, að bankaráðsmennirnir mega vera þingmenn og skulu kosnir af sameinuðu þingi. Jeg hefði talið betra að láta þau ákvæði standa, sem sett voru um þetta í þessari hv. deild. Þau miðuðu að því að skapa ró um bankann og draga úr pólitískum erjum. Er ósjeð ennþá, hvaða óhappaafleiðingum þessi breyting veldur. Nefndin verður þó að sætta sig við þessa breytingu eins og á stendur, þar sem komið er að þinglokum. Þess má geta, að Norðmenn hafa reynt að gera sínar bankastjórnir sem hlutlausastar í pólitík, en það hefir ekki tekist. Bitlingasýkin hefir altaf verið svo mikil innanþings þar eins og annarsstaðar.

Í 3. málsgr. þessarar greinar er bætt inn orðinu „endurgjaldslaust“. Það er að segja, bankaráðsmaður verður að búa svo nærri Reykjavík, að hann geti sótt þangað bankaráðsfundi endurgjaldslaust hvenær sem er. Væri hann t. d. búsettur í Hafnarfirði, mætti bankinn ekki kosta ferð hans á milli. Í niðurlagi greinarinnar er feld burt setning, en bætt inn í á öðrum stað, svo að þar er aðeins um tilfærslu að ræða.

Þá kem jeg að 36. gr. í fyrstu málsgrein er á einum stað breytt lítilsháttar orðaröð, sem engu máli skiftir. Í niðurlagi 2. málsgr. eru feld burtu orðin: „og auk þess dýrtíðaruppbót af allri launahæðinni“ o. s. frv. Þetta er aftur fært inn í 57. gr., af því að rjettara þykir að hafa það í bráðabirgðaákvæðum heldur en í frv. sjálfu. Þá er skeytt aftan við 3. málsgrein sömu greinar þessum orðum: „Bankaráðið getur einnig veitt fráförnum aðalbókara, aðalfjehirði og fjehirði og ekkjum þeirra eftirlaun af fje bankans eftir sömu reglum“. Þetta er til bóta, og hefði annars orðið að koma síðar með sjerstökum lögum.

Þá hefir verið felt úr 37. gr. niðurlag 2. málsgr., svo hljóðandi: „Nú er bankaráðsmaður fjarverandi um stund, og ber hann meðábyrgðina á því, sem bankaráðið hefir ályktað í fjarveru hans, nema hann skrifi ágreiningsatkvæði um einhverjar framkvæmdir þess í fjarveru hans í fundarbókina“. Jeg álít til skemda að fella þetta niður, en nefndin mun þó láta við það sitja.

Þá er komið að 38. gr. Þar er orðabreyting við 1-lið, „framkvæmdarstjórnar“ í stað „bankastjórnar“. Svo er. einnig skeytt aftan við liðinn: „Svo og að ákveða, að fengnum tillögum framkvæmdarstjórnarinnar, hverjir starfsmenn bankans skuli geta skuldbundið bankann með undirskrift sinni í tilteknum málefnum hans“. Þetta er nýmæli hjer, en í erlendum bönkum er það venja, að fleiri en bankastjórarnir einir geti skuldbundið bankann með undirskrift sinni. Það getur komið fyrir, að þetta þurfi að nota hjer síðar, þegar bankinn stækkar, svo að bankastjórarnir hafa ekki við að skrifa undir. Getur þá verið þægilegt að mega gefa öðrum umboð til að skrifa undir í þeirra nafni. En þetta er framtíðaratriði, sem litlu máli skiftir, hvort sett er inn nú eða ekki. Það er að minsta kosti ekki til skaða.

Þá er í m-lið þessarar sömu greinar í stað: „endurskoðendur bankans ræki vel starf sitt“ sett: „endurskoðendur ræki vel“ o. s. frv., og er það rjett.

í 39. gr. er lítilsháttar breyting í 2. málsgr. í frv., sem samþ. var í þessari deild, hófst hún svo: „í forföllum hans kemur sá hinna bankastjóranna, sem er eldri í stöðunni“. — í Nd. hefir verið bætt við þetta: „eða sá, sem eldri er að árum, ef báðir eru jafngamlir í stöðunni“. Þetta gerir raunar hvorki til nje frá, en er þó heldur betra. Þá kemur önnur höfuðbreytingin við 4., 5. og 6. málsgr., um að framkvæmdarstjórarnir skuli halda fundarbók. Jeg skal lesa greinina eins og hún hljóðar eftir breytingu Nd.: „Framkvæmdarstjórarnir halda fundarbók, sem í eru ritaðar allar ályktanir, sem gerðar eru á fundum þeirra. Til þess að gerð verði gild ályktun verða eigi færri en 2 bankastjórar að taka þátt í atkvæðagreiðslu, enda sjeu þeir sammála. Að jafnaði skulu engar meiri háttar ráðstafanir gerðar, ef einn bankastjóri mótmælir, og alls ekki, ef aðalbankastjóri er þeim mótfallinn. Nú er ályktun gerð, sem einn bankastjóri er mótfallinn, og á hann þá rjett á að bóka rökstutt ágreiningsatkvæði í fundarbókina“.

Þetta var svo í frv., sem samþ. var hjer, að ef einn bankastjóri setti rökstudd mótmæli í fundarbókina eða dagbækurnar, þá skyldi ágreiningsatriðið lagt fyrir bankaráðið til úrslita. Í norsku bankalögunum er svo ákveðið, að ef einn af fimm bankastjórum mótmælir láni, þá má ekki veita það. Mjer þótti í þessu „landi kunningsskaparins“ of langt gengið, að einn bankastjóri gæti ráðið, og vildi því hafa ákvæði um, að áfrýja mætti ágreiningsatriðum til bankaráðsins. Það getur oft komið fyrir, að minni hlutinn hafi rjettara fyrir sjer en meiri hlutinn. Jeg hefi reynslu fyrir því. Af því komið er að þingslitum og ekki hægt að breyta þessu nema stofna málinu í tvísýnu, verður nefndin nauðug viljug að sætta sig við þessa breytingu.

Þá er jeg kominn að 42. gr., sem mikið hefir verið rætt um, að alþingismenn mættu ekki vera bankastjórar. Þetta hefir Nd. felt úr frv., og gildir þá sama um bankastjóra Íslandsbanka, að þeir mega eiga sæti á Alþingi. Jeg lagði til upphaflega, að þetta væri strikað út, en afrjeð svo að lata hv. Nd. skera úr. Það er því ekki á móti vilja nefndarinnar, að þetta ákvæði er felt niður.

Þá kem jeg að 56. gr. Þar er bætt aftan við ákvæði um það, að seðlabankinn þurfi ekki að hafa útibúin öll á sinni könnu, heldur sparisjóðsdeildin. Er það gert til þess að binda ekki útibúin við seðlabankann einan.

Þá hefir verið sett viðbót við 57. gr., sem svo hljóðar: „Bankastjórar, aðrir en aðalbankastjóri, svo og allir bankaráðsmennimir, fá dýrtíðaruppbót af allri launaupphæðinni. Dýrtíðaruppbótin reiknast með sömu vísitölu og dýrtíðaruppbót starfsmanna ríkisins“. Þetta ákvæði er, eins og jeg tók fram áðan, fært aftur í bráðabirgðaákvæðin, enda á það þar betur heima en í frv. sjálfu, þar sem gera má ráð fyrir, að dýrtíðaruppbótin hverfi með tímanum.

Þetta eru þá allar breytingarnar, og þó að sumar þeirra sjeu til skemda, þá eru aðrar meinlausar og einstaka til bóta. Hefir meiri hl. því, eins og sjest af nál. á þskj. 627, fallist á að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.