23.03.1927
Neðri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg hafði ekki gert ráð fyrir því að þurfa að taka til máls oftar, en hjer hefir gerst enn eitt æfintýri, sem gefur mjer ástæðu til þess að kveðja mjer hljóðs.

Hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) hefir dregið mig inn í þessar umræður á þann hátt, að æfintýri er líkast, þar sem hann bar mjer það á brýn, að jeg væri að rjetta útlendingum höndina. Og um þetta verð jeg að segja, að það kemur úr hörðustu átt, því að allra manna síst hefir háttv. þm. (ÓTh) ástæðu til að beina þessu að mjer.

Hjer á þinginu voru í fyrra þrjú frv. á ferðinni og miðuðu öll að því að hlynna að útlendingum. Það voru frv. um virkjun Dynjanda, frv. ,um happdrættið og frv. um útlenda bankann. Ef hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) hefir nokkuð fylgst með því, hvernig um þau mál fór, þá hlýtur hann að vita, að jeg var á móti þeim öllum. En það hygg jeg, að hv. þm. (ÓTh) hafi ekki svo hreinan skjöld. Mun það og koma í ljós áður en lýkur á þessu þingi, að aðstaða mín hefir ekki breyst í þessu efni.