15.02.1927
Efri deild: 6. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3311 í B-deild Alþingistíðinda. (2106)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Jónas Jónsson:

Í gær ljet hæstv. ráðh. (JÞ) falla nokkur orð um það, að sín ræða mundi ekki uppfylla fylstu ræðukröfur, að því er mjer skildist, og vildi hann koma ábyrgðinni fyrir það yfir á mig, en ekki á þann, sem annars er vant að kenna um slíkt, nefnilega á sjálfan ræðumanninn. Það er til gamalt máltæki, sem segir, að „árinni kennir illur ræðari“, og ef hæstv. ráðh. (JÞ) vill gera sjer það ómak að athuga ræður sínar, þá hlýtur hann að sjá það, að fyrsta ræðan er venjulega sæmileg, en þegar hæstv. ráðh. (JÞ) þarf að fara að svara, þá verður svarið venjulega eintómur grautur og endileysa. Heilavjel hæstv. ráðh. er svo stirð, að hann þarf lengri tíma til ræðugerðar en kostur er á til undirbúnings svarræðu. Þess vegna eru svarræður hans altaf ófullkomnar. Næst þessu játaði hæstv. ráðherra, að af þessu frv. mundi ekki leiða þingfækkun á næstu árum, eða fram til 1930. Maður verður því hissa, að hann skuli leggja svo mikið kapp á að koma þessu fram, þegar ekki verður gagn að því fyr en eftir mörg ár. Þetta er því undarlegra, þegar þess er gætt, að í frv. er gert ráð fyrir því, að breyta megi til um þinghaldið og kjörtímabilið í það horf, sem nú er, með einföldum lögum. Ráðherrann játar, að þetta frv. skapi enga breytingu fyrst í stað, en þegar fram líða stundir, er opin leið með einföldum lögum til þess að koma öllu í sama horf aftur. Til hvers er þetta þá gert? Hæstv. ráðherra neitaði því, að þetta væri gert í flokkshagsmunaskyni. En það er tómur fyrirsláttur. Hann reyndi ekki að hrinda þeim rökum, er jeg færði fyrir því, að í kjölfar þessarar breytingar er sótt eftir smávægilegum flokkshagsmunum, svo sem framlengingu kjörtímabils tveggja íhaldsatkvæða, en stytting kjörtímabils tveggja stjórnarandstæðinga. Það hefði verið dálítið annað mál, ef hæstv. ráðherra hefði ráðgert næsta landskjörið 1929; þá hefði leikurinn verið jafnari. Jeg held, að líku máli sje að gegna um þetta frv. og frv. um ríkislögreglu, sem talið var, að borið hefði verið fram af umhyggju fyrir alþjóðarheill. Það var drepið í Nd. Ef það hefði verið borið fram vegna heilla alþjóðar, þá hefði stjórnin átt að koma með það aftur. En tilgangurinn var sá, að þjóna flokkshagsmunum, og það komst upp, og er það komst upp og þjóðin hafði fordæmt frv., þá þorði stjórnin ekki að koma með það aftur. Öðru máli er að gegna um frv. mitt um fjölgun býla; jeg ber það fram á hverju þingi, uns góður málstaður sigrar. Það er ekki til neins að reyna að telja mönnum trú um annað en að hjer sje verið að leika sjer að stjórnarskránni, eða þá að gera tilraun til þess að krækja í flokkshagnað, sem kemur stjórninni til góðs, en verður þjóðinni í heild til skaða.

Þá talaði hæstv. forsrh. um hörð orð, er jeg hefði viðhaft við umr. í gær, og tilnefndi nokkur. En þar til er því að svara, að að minsta kosti eitt þessara orða er löghelgað hjer af hinum látna forsætisráðherra, Jóni Magnússyni, svo ekki verður annað sagt en fordæmið sje fínt. Annars fá dómar um athafnir manna gildi eftir sannleik þeim, sem í þeim felst. Það verður að teljast sannað, að frumvarp stjórnarinnar á þinginu 1924 hafi verið fram borið af helberum loddaraskap, og þá veit jeg ekki, hvaða orð á betur við um slíka framkomu en einmitt orðið hræsni. Ef hæstv. forsrh. svíður undan þessu, þá er það hin sannsögulega staðreynd, sem á bak við liggur, sem brennir. Ef nú hæstv. ráðh. vill athuga það, sem kom fyrir í starfsbyrjun þessarar deildar, að stjórnarskrá Alþingis er brotin svo greinilega, að engin afsökun er til. (Forseti HSteins hringir: Við hvað á hv. 1. landsk.?). Jeg á við úrskurð hæstv. forseta um nefndakosningarnar. (Forseti HSteins: Jeg held, að hv. 1. landsk. og hv. 5. landsk. ættu ekki að vera að reyna að gera mikinn hvell út af þeim úrskurði, þar sem hann er hárrjettur, því að ákvæði 16. gr. þingskapanna fara í bága við önnur ákvæði þeirra. Það stendur að vísu svo, að sami maður megi ekki sitja í fleiri en tveim fastanefndum, en það stendur líka, að fastanefndir skuli vera 7 og 5 menn skuli sitja í fjvn. Nú er það vitanlegt, ef ráðherrarnir þrír eiga sæti hjer í deildinni, þá er ekki hægt að framfylgja þessum ákvæðum, og jafnvel þótt ekki ættu nema tveir þeirra sæti hjer, því að ekki verður forseti settur í nefndir. Jeg skil því ekkert í þessum hv. þm. að vera að finna sjer þetta til). —

Jeg vil svara útskýringum hæstv. forseta nokkrum orðum. Jeg vil þá fyrst benda á, að bókstafur þingskapanna er beinlínis brotinn. Í öðru lagi eru eins og nú stóð á 2 þm. ekki nema í einni nefnd, af því að þeir fengu ekki að vera í fleiri nefndum. Ennfremur vil jeg benda á, að forseti úrskurðaði tvisvar sinnum 5 menn í fastanefndir, þar sem ekki ber skylda til að hafa fleiri en 3 menn. Ef forseti hefði úrskurðað 3 menn í þessar fastanefndir, þá hefði verið hægt að fylgja fram ákvæðum þingskapanna. (Forseti HSteins: Það var samkvæmt tilmælum tveggja aðalflokka hjer í deildinni, að 5 menn voru settir í samgmn. og fjhn., og var búið að kjósa í þær nefndir, er mótmælin komu fram. Annars læt jeg útrætt um þetta). Jeg vænti því, að hæstv. ráðherra skilji það, að eftir það, sem skeði hjer í deildinni fyrsta daginn, þá verði því tekið með „kritiskum“ augum, er farið er að tala um velsæmi af hálfu íhaldsins. Þeir, sem búa í glerhúsi, ættu að gæta þess að kasta ekki grjóti.

Í stjfrv. er talað um það, að hinu og þessu sje slept til þess að fá samkomulag um það að koma fram aðalatriðunum. En þegar jeg bendi á atriði, sem altaf hefir verið meira deiluatriði, lenging kjörtímabilsins, og þegar jeg tek fram, að jeg vilji hjálpa honum til þess aðkoma frv. í gegn, ef ekki sje verið með slíkar veiðibrellur, þá verður hæstv. ráðherra æfur og heldur, að jeg sje kominn til hans í sementsbúðina og ætli að fara að hefja verslunarþjark, sem þar kann fram að fara. Þótt hæstv. ráðh. tilheyri verslunarstjettinni, vænti jeg, að hann þurfi ekki að óvirða sína stjett með þessu, og vona jeg, að hann verði kurteisari næst þegar hann talar um verslun. Annars var það misskilningur, að jeg væri að bjóða honum nokkra verslun. Jeg vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp samskonar orð, sem hæstv. atvrh. (MG) sagði í fyrra:

„Þá vil jeg taka upp það, sem jeg hefi sagt, að til samkomulags get jeg gengið inn á 1., 3., 5. og 6. brtt., svo fremi hv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) vill fylgja frv. út úr deildinni, af því að jeg geri mjer von um að koma málinu í gegn, þótt þessar till. verði samþ.

Jeg vona, að heili hæstv. ráðh. sje ekki hrumari en það, að hann sjái, að hæstv. atvrh. hefir hjer hegðað sjer á sama hátt og jeg, og jeg vænti þess, að mjer verði ekki lagt það til lasts, þótt jeg í þessu eina efni feti í fótspor hans.

Mjer fyndist sanngjarnt, að hæstv. ráðherra, er berst fyrir þessu máli nú, gefi skýringu á því, hvers vegna flokksmenn hans drápu samskonar frv. 1924. Hefir þeim nú snúist hugur? Jeg ætla, að fimm þeirra sjeu hjer í deildinni nú, en enginn þeirra hefir tekið til máls. Þeir ætlast víst til, að forsvarsmaður þeirra leysi þá úr þeim vanda. Það var ekki Jón heitinn Magnússon, sem drap þetta frv., heldur þessir flokksmenn hans. Það er því mjög líklegt, að það hafi verið núverandi hæstv. forsrh., sem fyrirskipaði þetta stjórnarskrármorð 1924.

Þá talaði hæstv. ráðherra um það, að stuðningsmenn sínir þyrftu ekki að vera hræddir við kosningar. En það er nóg, ef þeir eru það. En síðasta landskjör sýnir þó, að hæstv. ráðherra er 3/8 minna metinn en sá flokksmaður hans, er að komst og lýsti hæfileikum sínum á mjög yfirlætislausan hátt, er hann kallaði sjálfan sig pólitískan dverg. Annars fanst mjer það vanta á, til þess að maður fengi fullkomna mynd af ánægju ráðherrans yfir kosningunum, að hann lýsti því, hvort honum hafi líkað vel að bíða ósigur í fimm kauptúnum við bæjarstjórnarkosningar á síðasta ári. Það mun vera einn af ritstjórum íhaldsins, sem símaði þá til útlendrar frjettastofu, að þetta væri stórsigur fyrir jafnaðarmenn. En ráðherranum mun vera líkt farið og Morgunblaðinu, sem gat ekki um bæjarstjórnarkosninguna á Siglufirði fyr en að hálfum mánuði liðnum, en þar kom íhaldið engum manni að.

Það er ekki annað sýnna en tvent sje það í máli þessu, sem vakir fyrir stjórninni, og hvorugt gott. Annað er það, að reyna á ódýran hátt að slá sjer upp á því að látast fylgja því, sem hún ekki fylgir, en hinsvegar, ef það er samþykt, þá fylgja því flokkshagsmunir, svo stjórnin hafi eitthvað fyrir snúð sinn.

Jeg vil aðeins svara hv. 5. landsk. (JBald) því, út af endurtekningum hans á aðdróttunum í garð Framsóknarflokksins um óheilindi í þessu máli, að hann gat ekki hið minsta hreyft við þeim rökum, sem jeg bar fram í gær, t. d. um óeigingirni Framsóknarmanna í hæstarjettarmálinu. Þannig eru þeir ávalt fúsir að vinna með andstæðingum sínum, er þeir telja, að það geti orðið til góðs.