28.04.1927
Neðri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3455 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg hafði ekki gert ráð fyrir því að þurfa að taka til máls við þessa umr. málsins. Og þó að jeg standi upp, er það ekki til þess, að jeg ætli að svara neinu því, sem vikið hefir verið að okkur 6, sem meiri hl. skipum, enda er hv. frsm. meiri hl. einfær um það. En það, sem aðallega neyddi mig til að kveðja mjer hljóðs, var það, að hæstv. forsrh. fann ástæðu til í ræðu sinni að tala sjerstaklega um afstöðu mína til þessa máls, og hóf mál sitt með því að tala um frv. það, sem jeg hefi borið fram til breytingar á stjórnarskránni.

Hann sagðist hafa búist við, að jeg mundi leggja aðaláherslu á þing annaðhvert ár og yrði þar af leiðandi á móti öllum öðrum breytingum á stjórnarskránni. Jeg skal gleðja hæstv. forsrh. með því að játa, að þar á hann kollgátuna. Það fyrsta, sem jeg lagði fram í nefndinni, var þetta tilboð mitt til samkomulags um þessa einu breytingu, þinghald annaðhvert ár, og fleiri stóðu mjer þar að baki. Og þetta boð mitt til samkomulags stendur enn. En jeg var aldrei með að lengja kjörtímabilið. En hv. Íhaldsmenn vildu ekki ganga inn á þetta, og hv. 1. þm. Reykv. (JakM) heldur ekki.

Þá var farið að ræða málið alment í nefndinni, og þá var það einn fylgismaður hæstv. forsrh., sem hjelt fram afnámi landsk. þm. Og upp úr því skapaðist svo þessi meiri hl., sem kom sjer saman um að standa að þessum tveim till.: þinghaldi annaðhvert ár og afnámi landskjörsins.

Annars býst jeg við, að hæstv. forsrh. hafi frjett, að jeg og fleiri í þessum meiri hl. munum bera fram brtt. við það ákvæði stjfrv., að breyta megi með einföldum lögum, að þing skuli háð á hverju ári, ef brtt. okkar verða samþyktar. En um það get jeg ekkert sagt að svo stöddu, hvort brtt. þessi eða aðrar, sem einstakir nefndarmenn hugsa sjer að bera fram, geti komið við þessa umr. eða verði látnar bíða til 3. umr. Þó skal jeg fyrir mitt leyti lýsa því yfir, að verði frv. nú tekið út af dagskrá, þá skal jeg kalla saman fund þegar í kvöld og bera þetta undir meðnefndarmenn mína.