18.05.1927
Neðri deild: 81. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3614 í B-deild Alþingistíðinda. (2224)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Út af ummælum hv. þm. Ak. (BL), sem ekki virðist hafa neina verulega trú á því, að það myndi verða svo í reyndinni, að fjárlög yrðu sett til tveggja ára eftir því frv., sem hjer liggur fyrir, vil jeg aðeins benda á það, að ákvæðið um, að með einföldum lögum megi kveða á um það, að reglulegt þing skuli haldið árlega, er að efninu til ekki nýmæli fyrir þetta frv., því að alveg tilsvarandi ákvæði hefir staðið í stjórnarskránni frá 1874, alla þá stund, sem hún var í gildi, þótt það hafi verið orðað nokkuð öðruvísi. Það var víðtækari heimild til að breyta ákvæðum þeirrar greinar, sem ákvað, að reglulegt þing skyldi koma saman annaðhvert ár; en samt sýndi reynslan, að sú heimild var aldrei notuð á því næstum 30 ára tímabili, sem stjórnarskráin var í gildi, og jeg fyrir mitt leyti er svo sannfærður um rjettmæti þess atriðis að setja fjárlög til tveggja ára og að halda reglulegt þing annaðhvert ár, að jeg er ekki hræddur við, að lagaheimild til að víkja frá þessu yrði notuð fyrst um sinn.

Háttv. 1. þm. Árn. (MT) þarf jeg engu að svara. Öll þau málsatriði, sem hann vjek að, hafa verið rædd hjer áður.

Hv. 4. þm. Reykv. (HjV) deildi á hv. Ed. og stjórnina fyrir það, að hún rjeði of miklu um afgreiðslu stórmála, og nefndi hann þar fjárlögin og stjórnarskrárbreytinguna. Jeg get vel skilið, að háttv. þm. finnist hann og flokkur hans ráða helst til litlu um afgreiðslu þessara mála, því að eftir útliti þeirra skýtur niðurstaðan nokkuð skökku við það, sem háttv. þm. vildi vera láta. Hann sagði líka, að það væri á ábyrgð stjórnarinnar, hve Ed. rjeði miklu. En bæði þessi stórmál, sem hann nefndi áðan, bera nú þannig að, að það er þessi háttv. þingdeild, sem hefir um þau seinasta atkv. En ef það verður ofan á, að Nd. samþykkir þau óbreytt eins og Ed. gekk frá þeim, þá má telja stjórninni það frekar til sæmdar en vansæmdar, að meiri hl. Ed. hefir tekist að sníða þannig hvortveggja lögin, að þessi hv. deild, þar sem stjórnin er sögð vera í minni hl., treystir sjer til þess að ganga að þeim óbreyttum. Jeg hygg því, að stjórnin verði aldrei ámælisverð fyrir þetta.

Það er alveg röng ágiskun hjá hv. þm. (HjV), að það sje tilgangur stjórnarinnar og Íhaldsflokksins með samþykt stjórnarskrárbreytingarinnar að fá kosningatímann í þetta sinn fluttan fram í byrjun júlí. Jeg get sagt háttv. þm. það, að mjer eða stjórninni hefði ekki komið til hugar að eyða orðum að stjórnarskrárbreytingunni á þessu þingi, ef stjórnin hefði ekki sjeð annan merkilegri tilgang með henni en þann, að hafa áhrif á kjördaginn við eina einustu kosningu. Þetta er alveg gripið úr lausu lofti hjá hv. þm. og stafar af sjerstakri skoðun hans á hinu besta stjórnskipunarfyrirkomulagi og því, að hann getur ekki sett sig inn í það, að stjórnin og flokkur hennar álíta, að með stjórnarskrárbreytingunni fáist umbætur nokkrar á stjórnarfarinu. En það álítum við. Jeg er sannfærður um það, að reynsla undanfarinna ára með þingi á hverju ári hefir sýnt það, að meðan máttur þjóðarinnar er ekki meiri en hann nú er, þá er henni ofboðið með því að hafa þing á ári hverju, þing, sem telur sjer skylt að verða við óskum manna úr ýmsum áttum um útgjaldaaukandi löggjöf. Á hverju þingi koma fram nægar óskir, sem eðlilegt er í landi, þar sem svo mörgum þörfum er ekki fullnægt, svo sem óskir um skóla, spítala, vegi, brýr o. s. frv., alt, sem til framfara horfir og nöfnum tjáir að nefna. Það hefir verið reynt að halda í horfinu með því að hafa jöfnuð á tekjum og gjöldum. En það hefir aftur á móti ekki verið hægt að koma í veg fyrir, að sett væri löggjöf, sem hefði í för með sjer ný árleg útgjöld fyrir ríkissjóð. Hin útgjaldaaukandi löggjöf síðan 1918 er þegar orðin svo mikil, að jeg er sannfærður um, að afkomu þjóðarinnar er hætta búin, ef við höldum enn áfram með jafnmiklum hraða. Eina ráðið við þessu er að láta þingið aðeins koma saman annaðhvert ár. Jeg legg meira upp úr þeim óbeina sparnaði, sem af þessu leiðir, en hinum beina sparnaði, sem verður þingkostnaðurinn annaðhvert ár. Og tilhögun þessi á að verða notuð þangað til kjósendur finna nægan kraft hjá þjóðinni til þess að taka upp aftur þann hraða, sem verið hefir undanfarin ár. En jeg hygg þó, að það muni líða áratugir þangað til.

Jeg veit nú, að þessar ástæður hafa ekkert gildi fyrir hv. 4. þm. Reykv. Um hann og hans flokk er það að segja, að þeir líta ekki á getu þjóðfjelagsins eða gjaldþol þegnanna, heldur á það, hvort æskilegt sje fyrir þá að uppfylla kröfur manna, og heimta svo, að það sje gert, hvort sem það er hægt eða ekki. Andstætt þessum skoðunum stendur stjórnin og Íhaldsflokkurinn, og jeg veit, að Framsóknarflokkurinn er skiftur, því að nokkur hluti hans mun andstæður vera hinum einhliða skoðunum Alþýðuflokksins og þm. hans. (HjV: Hvenær hefir það komið fram?). Við hvert tækifæri, sem hægt er að finna á öllu kjörtímabilinu. (HjV: Til dæmis?). Dæmin eru svo mörg, að það ætti að vera óþarfi að nefna þau. Það þarf ekki annað en minna á það, hvernig Framsóknarflokkurinn hefir snúist við þeim útgjaldatill. og till. um niðurfelling á tekjum ríkissjóðs, sem skifta mörg hundruð þúsundum króna og hv. þm. (HjV) getur fundið nóg af, ef hann athugar till. þær, er flokksbróðir hans og fyrirrennari hjer í deildinni hefir borið fram.

Loks spurði hv. þm., hvenær kosning ætti að fara fram. Jeg sagði í gær það, sem jeg hafði um það að segja, og sje ekki ástæðu til þess að taka það upp nú. En jeg mæltist þá til þess, að ef flokkarnir hefðu einhverjar óskir í því efni, þá kæmu þær fram. Jeg hygg, að jeg hafi nú fengið upplýsingar um óskir Framsóknarflokksins, og þar sem sá flokkur hefir stuðlað að því, að frv. þetta gæti orðið að lögum, þá tel jeg mjer skylt að taka tillit til óska hans, eftir því sem unt er. Hinsvegar telur stjórnin sjer ekki skylt að taka eins tillit til óska þeirra þm. og flokka, er hafa verið frv. andvígir.