24.02.1927
Neðri deild: 14. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (2269)

36. mál, bann gegn næturvinnu

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Maður heyrir sama „sóninn“ hjerna, eins og þegar hvíldarlögin fyrir togarana voru á ferðinni. Þá var sagt, að það væri unnið með fullu samkomulagi á milli skipstjóra annarsvegar og hásetanna hinsvegar; en það sýndi sig samt hvað eftir annað, að það komu áskriftalistar frá togaramönnum um að fá hvíldarlög, sem bentu á, hversu mikil þörf væri til að samþykkja eitthvað í þessa átt.

Það, sem hjer er farið fram á, er í raun og veru ekki annað en það, að verkamönnum sje trygður reglulegur 8 tíma svefn við hafnarvinnu, en hægt sje að vinna í 16 tíma. Það eru aðeins fáar undantekningar, sem hægt er að gera um lengri vinnutíma. Það, sem hv. þm. Reykv. (JÓI) var að tala um, að þennan svefntíma ættu verkamenn að kaupa sjer fyrir lægra kaup aðra tíma, geta þeir ekki fallist á. Við jafnaðarmenn álitum aftur á móti, að verkamenn eigi að vera þannig varðir af löggjafarvaldinu, að þeir þurfi ekki að misbeita vinnukrafti sínum, en það sjá menn líklega, að löggjafarvaldið gerir ekki nú. Fátækir menn verða að sækjast eftir eftirvinnunni, fyrir hvaða kjör sem þeim bjóðast, meðan atvinnan bíður ekki eftir þeim, þó að heilsa þeirra sje í veði. Þess vegna er það ekki nema sjálfsagt, að þeir fari þá leið, að koma með frv. inn á Alþingi, til þess að reyna að laga vinnuaðstæðurnar. Jeg veit ekki, hvaðan hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) hefir það, að reykvískir verkamenn leggi ekki neina áherslu á þetta atriði, þegar það er kunnugt, að verkamannafjelagið „Dagsbrún“, sem 9/10 af hafnarverkamönnum eru í hjer í bænum, gerir hvað eftir annað samþyktir um þetta, og að minsta kosti við síðustu kaupsamninga hefir altaf verið minst á þetta mál. Hvað það snertir, sem háttv. þm. (JÓl) talaði um, að þetta fyrirkomulag mundi spilla fyrir veiðum skipanna, þá er það fyrst að athuga, að tíminn, sem þarf til þess að ferma og afferma, er ekki nærri því eins langur og hv. þm. (JÓl) segir, venjulega nú aðeins 8–10 tímar, og stundum jafnvel skemri. Það, sem orsakar þessa næturvinnu, er það sama sem orsakaði hinar miklu vökur á togurunum. Það er aðallega hugsunarleysi útgerðarmanna. Þeir átta sig hvorki á því, að kostnaðurinn við vinnuna verður meiri með því fyrirkomulagi, sem nú er, og að það er hægt að komast hjá þessum kostnaði, nje taka neitt tillit til heilsu verkamanna. Jeg ætla aðeins að benda hv. þingdeild á það, að verkamenn yfirleitt eru algerlega á andstæðri skoðun við hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) um þetta mál, og að það er ekki hægt fyrir þá að meta heilsu sína í fiskskippundum.