07.03.1927
Efri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í C-deild Alþingistíðinda. (2302)

63. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á jörð í nágrannahreppi

Einar Árnason:

Ef þetta frv. verður að lögum, þá gefur það kaupstöðum og kauptúnum rjett til þess að blanda sjer í kaup og sölu á jarðeignum í ýmsum hreppum á landinu. Hjer er sem sje verið að bæta við enn einum forkaupsrjettaraðilja við það, sem áður var; þeir eru þegar, eins og hv. flm. (JBald) tók fram, þrír fyrir, og hjer kemur sá fjórði til viðbótar. Jeg veit nú ekki, hve langt verður hægt að teygja þennan forkaupsrjett, en það getur gengið svo langt, að það verði töluvert mikið haft á athafnafrelsi manna og geti gengið fullnærri eignarijettinum. Jeg sje nú í rauninni ekki, að það sje verulega brýn ástæða til þess að gefa kaupstöðum eða kauptúnum, sem eru sjerstakir hreppar, nein sjerstök vildarkjör í þessu efni, því að það er sá aðili, eins og reynslan hefir sýnt, sem hverjum einstakling er um megn að keppa við, þegar um jarðakaup er að ræða í nágrenni þeirra, af því að kaupstaðirnir hafa miklu meira bolmagn til að gefa hátt verð fyrir jarðir, vegna þess, að þeir hafa miklu betri tök á að leigja út land jarðanna til einstaklinga í kaupstaðnum fyrir svo hátt verð, að það er óhugsandi, að bændur, sem reka búskap á jörðunum, geti kept við þá.

Það er ekki annað hægt að sjá af þessu frv. en að kaupstaðirnir geti stungið sjer niður hvar sem er í nágrannahreppunum og keypt eina og eina jörð, þar sem þeim sýnist. Þar sem jeg þekki best, hagar svo til, að þrír hreppar liggja að kaupstaðnum, og þá eru það þrír allstórir hreppar, sem falla undir þessi ákvæði frv. Það er vitanlegt, að kaupstaðir hafa gert töluvert að því, að kaupa jarðir í nágrannahreppum sínum, og hygg jeg, að það hafi orðið sú reyndin á, að einstakir jarðabraskarar hafi grætt töluvert á þeirri verslun. Hinsvegar er það og vist, að sveitarf jelögin, sem jarðirnar liggja i, hafa ekki beðið annað en skaða af þessu. Það er alls engin trygging fyrir því, að bæjarfjelögin fari ekki hreint og beint að „spekúlera“ Í því, að fara að kaupa upp jarðir í nágrannahreppum. Auk þess er það ekki útilokað, að bæjarfjelög geti með þessum hætti látið ýmsa vandræðamenn verða sveitlæga í nágrannahreppum sínum. Jeg fullyrði ekki, að þetta hafi enn komið fyrir, en það liggur nærri að ætla, að af þessu geti stafað hætta fyrir viðkomandi hreppa, einkum síðan sveitfestistíminn var styttur. Að minsta kosti þyrfti að búa svo um hnútana, að þau sveitarfjelög, sem hlut eiga að máli, hefðu rjett til að krefjast þess, að þær jarðir, sem kaupstaðirnir þannig eignast, yrði að leggjast undir lögsagnarumdæmi kaupstaðarins. Jeg þekki þess dæmi, að kaupstaður eignaðist jörð í nágrannahreppi. Í landi þessarar jarðar reis svo upp allstórt þorp, og hlutaðeigandi hreppur hefir mjög eindregið óskað þess, að bærinn vildi taka þetta land undir sitt lögsagnarumdæmi,vegna þess, að hreppurinn hefir töluvert inikil þyngsli af þessu þorpi, en kaupstaðurinn hefir algerlega neitað því, og það mun vera ákveðið í lögum, að þetta er ekki hægt að gera, nema með samkomulagi milli hlutaðeigandi sveitar og bæjarfjelags. Sem sagt, mjer sýnist þetta frv. vera töluvert athugavert, og í þeirri mynd, sem það nú er, mun jeg ekki fylgja því.