23.03.1927
Neðri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (2333)

62. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Þetta mál, sem hjer liggur fyrir, hefir áður valdið deilum hjer á Alþingi, og jeg geri því ráð fyrir, að hv. þdm. hafi þegar tekið afstöðu til þessa frv.

Kröfurnar um þessa skiftingu eru orðnar gamlar, og þm. kjördæmisins hafa áður flutt frv. um þetta efni, en nú reyndist ómögulegt að fá þá til þess. Þvert á móti snjerist 2. þm. G.-K. (ÓTh) þegar við 1. umr. á móti þessu frv.

Meiri hl. allshn. leggur það til, að frv. verði samþ. nú þegar á þessu þingi. Almennar kosningar fara nú fram í sumar eða í haust, og finst meiri hl. vel til fallið, að Hafnarfjörður fengi þá þegar sinn sjerstaka fulltrúa. Það er nú enginn annar kaupstaður utan Reykjavíkur jafnfjölmennur og Hafnarfjörður, sem þó hefir engan sjerstakan fulltrúa á þingi. Ef Akureyri á rjett á því að hafa sjerstakan þm., þá á Hafnarfjörður það líka. Ef Hafnarfjörður er borinn saman við Akureyri, kemur það í ljós, að hvað atvinnuháttu snertir er ekki meiri ástæða til að Akureyri sje aðskilið kjördæmi frá Eyjafjarðarsýslu heldur en Hafnarfjörður frá Gullbr.- og Kjósarsýslu. Á Akureyri lifir mikill hluti íbúanna af landbúnaði jafnframt, og eru atvinnuhættir þar að þessu leyti líkir því, sem er í sýslunni. En í Hafnarfirði er enginn landbúnaður að ráði nje bátaútgerð, sem mikil er ísýslunni, heldur aftur á móti togaraútgerð, sem engin er annarsstaðar í sýslunni, að undantekinni Viðey. Hafnarfjörður er því enn sjerstæðari heldur en Akureyri að atvinnuháttum. Eins er heldur ekki mjög mikill munur á mannfjöldanum í Hafnarfirði annarsvegar og sýslunni hinsvegar, og ekki meiri en annarsstaðar, þar sem skifting hefir átt sjer stað.

Nú er það mín skoðun, að kjördæmaskipunin ætti að vera með öðru móti en nú er. En þar sem hinsvegar tæplega verður gert ráð fyrir, að stjórnarskrárbreyting sú, sem jeg hefi borið fram, nái fram að ganga á þessu þingi, þá get jeg fylgt því fram, að taka þeirri rjetting mála, sem í skiftingunni felast. Um vilja Hafnfirðinga í þessu efni þarf jeg ekki að efast. Hann hafir komið skýrt fram á opinberum funduin og í bæjarstjórn kaupstaðarins, og er eindregið með skiftingunni, en hinsvegar hafa engin opinber mótmæli komið frani frá Hafnfirðingum.