05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (2470)

69. mál, hvalveiðar

Hákon Kristófersson:

Jeg hjelt að jeg hefði stilt svo í hóf mínum ummælum, að þau hefðu ekki þurft að móðga neinn. En skoðun mín á þessu máli er alveg óbreytt frá því sem var.

Hv. flm. (ÁÁ) beindi þeim orðum til mín, að mjer væri ákaflega illa við útlendinga, og ef þeir kæmu hjer nokkursstaðar nálægt, væri það eins og rauð dula á mig og aðra. Jeg er ekki hræddur við útlendinga, svo að jeg get fullyrt, að þessi ummæli hv. flm. hafa ekki við neitt að styðjast (KlJ: Alveg rjett!). Jeg hefi aldrei sagt, að hvalur væri lítils virði til neyslu. Þvert á móti þykir mjer hvalur mjög góður. En hitt sagði jeg, að þó að þetta frv. kæmist í framkvæmd, þá stæði það ekki nema í nokkur ár, sem við hefðum not af þessum ráðgerðu fríðindum, sem líkleg eru talin, ef frv. verður að lögum. Það eru ekki margir áratugir síðan hætt var að veiða hjer hval, af því að það þótti borga sig svo illa, þar sem mjög lítið veiddist. (ÁÁ: Sjerleyfið á að vera takmarkað.) Já, jeg efast ekki um, að hv. flm. gangi það allra besta til með frv. sínu, og flytji það vegna áskorana úr kjördæmi sínu. En jeg hefi enga trú á því, að þetta frv. verði til þess að bjarga við hinum aðþrengdu atvinnuvegum þar vestur frá, því að þessari hugsun bólaði á löngu áður en kreppan kom á atvinnuvegi okkar, bæði þar og annarsstaðar á landi hjer.

Hv. þm. sagði, að óskað hefði verið úr mínu kjördæmi eftir heimild handa útlendingi til að „stationera“ á Patreksfirði. Jeg hefi aldrei heyrt um það fyr, og verð jeg að biðja hv. flm. velvirðingar á því, að jeg skuli vera svona ófróður. Þó að jeg sje á móti frv. þessu, er það ekki meining mín, að gera mitt til að friða hvalina handa útlendingum. Þvert á móti. Jeg hefi bara ekki tilhneigingu til að fylgja því, af því að jeg býst við, að enda þótt það verði samþ., þá leiki mjög á tveim tungum, hvern hag Íslendingar hafi af því. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg sje hræddur við, þó að nokkrir Norðmenn flytjist inn í landið. Annars legg jeg ekki svo mikið upp úr þessu máli, að jeg vilji fara að lenda í þrasi út úr því. Jeg hefi lýst minni skoðun, og hún er sú, að jeg býst við, að enda þótt við fáum átuna af 40–50 hvölum, þá bjargi það þjóðinni ekki yfir eitt eða tvö vandræðatímabil.