07.04.1927
Neðri deild: 49. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í C-deild Alþingistíðinda. (2522)

11. mál, útrýming fjárkláða

Jörundur Brynjólfsson:

Mjer þykir það ekki nema eðlilegt, að menn ræði þetta mál nokkuð, þar sem það tekur til hagsmuna allra búandi manna í landinu. Jeg vildi, áður en jeg vík að aðalkjarna málsins, fara nokkrum orðum um gang þess á síðasta þingi.

Dýralæknirinn hjer í Reykjavík kom með tilmæli um það til landbn. í fyrra, að hún flytti frv. um útrýming fjárkláða. Hann undirbjó svo frv. og flutti nefndin það lítið breytt, og var það samþ. hjer í þessari hv. deild og afgreitt til hv. Ed. En þar var því þá vísað frá með rökstuddri dagskrá, vegna þess að undirbúningurinn væri ekki nógur.

Reynslan hefir nú sýnt, að oss hefir ekki lánast að útrýma kláðanum. Því hefir hingað til verið haldið fram, að aðalorsökin væri sú, að eigi hafi verið tvíbaðað. Og dýralæknirinn í Reykjavík hefir fullkomlega haft þessa trú, að ef tvíbaðað væri, þá mætti takast að útrýma fjárkláðanum. En nú þykir ekki fullkomlega sýnilegt, að það nægi að baða tvisvar sinnum, heldur að rjettara muni og tryggara að baða þrisvar. Á þessum grundvelli var frv. landbn. í fyrra reist. Nú heyri jeg sagt, eftir einum dýralækni, sem hefir kynt sjer málið, Sigurði Hlíðar, að það væri hvergi nærri fulltrygt, að útrýming tækist, þó baðað væri þrisvar, ekki hvað síst vegna þess, hvernig fjárhús vor eru. Segir hann, að maurinn lifi lengur en þann tíma, sem það taki, að baða fjeð, þó tvíbaðað sje, sem sje, að hann geti lifað í þrjá mánuði, en innan þess tíma er fjeð orðið fyrir löngu þurt, því ekki tekur nema rúman mánuð að baða fjeð, þó þríbaðað sje, og getur því maurinn komist á fjenaðinn aftur. Með þessu álít jeg fallnar aðalstoðirnar undan útrýmingarböðuninni, og þó að baðanirnar væru þrjár, þá er samt með þessu kipt fótunum undan frv. frá síðasta þingi. Hv. Ed., sem fjekk frv. til meðferðar í fyrra, afgreiddi málið til stjórnarinnar með þeim ummælum, að stjórnarráðið leitaði álits manna út um land um mál þetta. Jeg skal með leyfi hæstv. forseta, leyfa mjer að lesa upp hina rökstuddu dagskrá, sem hv. Ed. samþykti.

„Með því að þau rök vantar, er nægi til þess, að þingið eigi nú þegar að lögskipa baðanir til útrýmingar fjárkláða, þá vill deildin fara þess á leit við ríkisstjórnina, að hún leiti umsagnar allra sýslunefnda í landinu áður en lengra er gengið í þessu máli, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þessi dagskrá var afgreidd til ríkisstjórnarinnar á síðasta þingi. Hv. Ed. þótti viðurhlutamikið að lögskipa útrýmingarbaðanir með ekki meiri fyrirvara, án þess að leita álits manna út um land. Hún vildi gefa mönnum kost á því, að segja til þess, hvernig þeir væru við því búnir að framkvæma útrýmingarbaðanir. Jeg vil, til frekari glöggvunar, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp örfá orð úr ræðu eins hv. þm., sem átti sæti í landbn. Ed. í fyrra. Þau hljóða svo:

„Landbn. fanst sjálfsagt, að máli þessu verði ekki ráðið til lykta án þess, að það verði borið undir sýslunefndirnar. Hún telur alveg óviðeigandi og rangt að ganga alveg framhjá rjettum aðiljum þessa máls. Málið hefir ekki ennþá verið lagt undir dóm þjóðarinnar, en það verður að fá vitneskju um það, hvort menn alment óska eftir allsherjar útrýmingarböðun eða ekki. Það er kurteisisskylda gagnvart svo stórri stjett í landinu sem bændastjettin er, að hún fái að láta álit sitt í ljós um þetta, áður en það verður lögboðið. Jeg fæ ekki skilið, að neitt tjón geti af því hlotist, þó máli þessu verði frestað um eitt ár, aðeins til þess að fjölmennasta stjettin í landinu geti fengið tóm til þess að athuga það og láta upp sinn dóm og tillögur um það.“

Mjer virðast þessi ummæli hins látna merka þm. í Ed. fullkomlega á rökum bygð. Jeg bjóst ekki við því, að þetta mál yrði fyrir tekið hjer, án þess að álits bænda út um land yrði leitað, svo sem ráð var fyrir gert í fyrra. Jeg vil þó ekki beint álasa hæstv. stjórn fyrir það, að hún hefir borið þetta frv. fram aftur núna, þar sem þessi hv. deild var málinu fylgjandi í fyrra, en jeg neita því ekki, að mjer hefði þótt æskilegra, að leitað hefði verið álits bænda, eða þá að minsta kosti sýslunefndanna, því að þá hefði fremur fengist vitneskja um álit og óskir bændanna, en fram hjá þeim má ekki ganga í slíkum málum sem þessum. Nú hefir verið safnað skýrslum um útbreiðslu kláðans víðsvegar um landið. En jeg geri nú ráð fyrir því, að þótt sýslunefndirnar hefðu annast það, þá hefði útkoman orðið áþekk. En hitt, að bændum og sýslunefndum hefir ekki verið gerður kostur á því, að láta í ljós álit sitt, það álít jeg skort á undirbúningi þessa máls. Jeg orðaði það á fundi, sem jeg var á, áður en jeg fór til þings, að það gæti ekki komið til mála, að þessu máli yrði hreyft á þessu þingi, og bygði jeg það á því, að jeg vissi, að álit sýslunefndanna gat ekki verið komið til hæstv. stjórnar. En nú hefir málið verið tekið fyrir hjer aftur, og lasta jeg það ekki í sjálfu sjer, eins og jeg sagði áðan. En það gefur mjer ástæðu til þess að vilja fara varlegar nú en áður.

Þá skal jeg snúa mjer að málinu sjálfu. Jeg efast um það að hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) sje meira áhugamál að losna við fjárkláðann úr landinu heldur en mjer eða öðrum, sem standa á öndverðum meiði við hann í þessu máli, enda finst mjer hann gera of mikið úr því, sem á milli ber. Meiri hl. landbn, hefir ekki sagt, að hann vilji ekki á sínum tíma hverfa að allsherjar útrýmingarböðun, heldur þykir honum málið ekki nægilega undirbúið, til þess að ákveða nú, hvenær það skuli gert. Jeg skal nú stuttlega víkja að því, hvers vegna okkur finst málið ekki nægilega undirbúið, til þess að hægt sje að ganga að frv. stjórnarinnar. Í fyrsta lagi er það hvergi nærri upplýst, að unt sje að útrýma kláðanum með þessari útrýmingarböðun. Það mun að vísu vera hægt að hreinsa fjeð sjálft með tveimur böðum, en það er ekki hægt að ganga tryggilega frá húsunum. Það nægir í þessu efni að skírskota til reynslu Englendinga. Þeir hafa í nokkrar aldir átt í höggi við kláðann, en þeim hefir ekki fram til síðasta árs tekist að losna við hann. Þó er mikill munur á því, hvað þeir eiga hægara aðstöðu en við. Þeirra fje er alt í pössun, og geta þeir því náð í það, hvenær sem þeir vilja. Jeg veit að vísu ekki, hvernig fjárhúsum þeirra er háttað, en mikið mun það ganga sjálfala, og jeg býst við, að auðveldara muni vera að hreinsa húsin hjá þeim en allflest fjárhús hjá okkur. En það er vitanlegt, að hjer gengur fje sumsstaðar sjálfala á vetrum og kemur stundum ekki fram fyr en næsta haust. Það er engin sönnun fyrir því, að kláðinn geti ekki leynst með þessu fje og það sýkt frá sjer, þegar það kemur fram. Þó geri jeg ekki svo mikið úr þessu. Aðalvandræðin verða með sótthreinsun fjárhúsanna. Þá er og engin vissa fyrir því, að baðlyf þau, sem nota má, sjeu nógu góð. En slíkt verður vel að rannsakast áður en ákveðið er, hvenær útrýmingarböðun fari fram. En þessi frestur, sem í frv. er settur, er alt of stuttur til þess, að veruleg rannsókn á baðlyfjum geti farið fram. Þá mundu bændur í sumum hjeruðum landsins líka verða að afla sjer meiri heyja; bændur munu jafnvel verða að farga fje sínu vegna heyskorts, ef útrýmingarböðun væri ákveðin. Þingið verður að undirbúa þetta mál svo vel að öllu leyti, að bændur megi treysta því, að þessi útrýmingarböðun komi að fullum notum.

Þá er annað atriði, sem jeg vjek dálítið að áður, að það er mjög varhugavert að samþykkja þetta frv. án þess að leita fyrst álits bænda um málið. Hv. 2. þm. N.-M. bjóst við því, að það mundi reynast auðsótt að fá bændur til fylgis við þetta mál. Það má vel vera, að svo sje, en það þarf tíma til þess. En það er höfuðskilyrði fyrir framkvæmd þessa máls, að bændur ljái því fylgi sitt. Það má ekki hefjast handa með útrýmingarböðun meðan bændur eru ekki við henni búnir eða vantar skilning á málinu. Það ætti að vera ærin ástæða til þess, að ákveða ekki útrýmingarbaðanir, nema með miklum fresti, að nota þann frest til undirbúnings í þessu sem öðru. Mjer er það fullljóst, að minsti tími til undirbúnings þessu máli eru 5 ár.

Hv. 2. þm. N.-M. vjek að því, að sökum breyttrar aðstöðu með kjötmarkað okkar, þá væri okkur nauðsynlegt að losna við fjárkláðann. Jeg er honum sammála um það, að mikið væri unnið við það, að geta flutt út lifandi fje til Englands. Okkur hefir nú staðið opið að flytja fje til Englands, með því að slátra því skömmum tíma eftir að það kemur þar á land. En með þeim takmörkunum fáum við ekki besta markað fyrir kjötið. En þó frv. verði samþ. og útrýmingarböðun fari fram, þá hygg jeg, að hv. þm. líti of björtum augum á það, að Englendingar taki það trúanlegt, að við sjeum orðnir lausir við fjárkláðann. Þeim mundi ekki nægja eitt til tvö ár til þess að sannfærast um það. Það yrði að líða lengri tími til þeirrar reynslu. Það er sjálfsagt, að ganga að því með alvöru og alúð, að útrýma þessum vágesti sem fyrst. En það er óheppilegt, að hverfa að því ráði, að lögbjóða útrýmingarböðun fyr en fylsti undirbúningur er fenginn. Jeg veit ekki, hvort jeg skildi hv. 2. þm. N.-M. rjett, en jeg skildi hann á þann veg, að hann væri ekki með öllu sannfærður um að útrýmingarböðunin leiddi til fullkomins árangurs. Hvar erum við þá staddir? Vissulega stöndum við þá í sömu sporum með kjötmarkaðinn í Englandi. En jeg vil benda hv. þm. á það, að ef þessi tilraun mistekst nú, þá líða áratugir áður en slík tilraun verður gerð aftur. Hún er of kostnaðarsöm til þess, að að henni verði horfið aftur, nema þá að full vissa sje fyrir því, að hún hepnist. Jeg þarf svo ekki að fjölyrða frekar um ræðu hv. 2. þm. N.-M. það er ekki svo mikið, sem okkur ber á milli. Okkur greinir meir á um aðferð en í skoðun.

Þá vil jeg víkja fám orðum að hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ). Hann talaði mjög sanngjarnlega og rólega um málið. Hann býst eins vel við því, að útrýmingarböðun lánist ekki. En hann vill gera tilraun með hana. Sömu skoðunar var hæstv. atvrh. Hann bjóst heldur ekki við, að þessi útrýmingarböðun hepnaðist. En þar sem hann segir, að afstaða meiri hl. landbn. sje sú, að við höfum trú á því, að hægt sje að útrýma kláðanum með aðferð þeirri, sem við stingum upp á, með einni böðun, þá virðast þau ummæli bygð á misskilningi á greinargerð frv. þess, sem við berum fram. En við segjum í grg., að það megi varna útbreiðslu kláðans, án þess að horfið sje að útrýmingarböðun. Síðar í grg. gerum við ráð fyrir því, að horfið verði að útrýmingarböðun, ef það tekst ekki að halda kláðanum í skefjum eða jafnvel losna við hann með okkar aðferð, og undirbúningur þessa máls er nægilegur orðinn. Ummæli hv. þm. eru því á nokkrum misskilningi bygð. Hv. þm. V.-Húnv. vildi gera mikið úr því, eins og líka hv. þm. N.-M., að við hefðum nú um stund reynt þrifabaðanir og þær ekki lánast, og því væri ekki til neins að halda þeim áfram. En það er nú ekki nema stuttur tími síðan sú tilhögun var upp tekin, sem höfð hefir verið á undanförnum árum, og síðan er kláðinn mjög í rjenun, og þó eru almennar kvartanir um það, að baðlyf þau, sem notuð hafa verið tvö síðustu árin hafi gefist mjög illa. Hv. þm. vildi telja útrýmingarböðunina heppilegri. Jeg vildi óska, að svo væri, því að ef ekki tekst að útrýma eða halda kláðanum í skefjum með aðferð þeirri, sem við leggjum til að höfð verði, þá geri jeg ráð fyrir því, að fyr eða síðar verði horfið að allsherjar útrýmingarböðun. En til þess þarf undirbúningurinn að vera betri en hann er hjer nú. Að hjer er um vandkvæði að ræða, sjest best á reynslu Breta og Norðmanna í þessum efnum. Mjer er sagt, að Norðmenn sjeu nú lausir við fjárkláðann, en það var ekki fyr en eftir margra ára eða áratuga baðanir, og þó er þeirra aðstaða áreiðanlega miklu betri en okkar. Menn mega því ekki vera of bjartsýnir á það, að þessi tilraun hepnist hjer. Þá mintist þessi hv. þm. á það, að kostnaðurinn við þrifabaðanir væri mikill, 3–4 ára kostnaður af þeim jafnaðist á við kostnað einnar útrýmingarböðunar. Kostnaðarhliðin er nú aukaatriði í þessu máli, ef full vissa er fyrir því, að hægt sje að útrýma kláðanum. En kostnaðurinn er þó svo mikið atriði, að ekki er vert að gera sjer leik að því, að koma hjer af stað útrýmingarböðun, ef hún svo mishepnast. Það er of mikið, að gera alt landið að einni tilraunastöð. Það væri betra að gera tilraun á minna svæði fyrst, og sjá, hvernig hún lánast.

Þá var hv. þm. Str. hjer í gær að bera fyrir sig álit búnaðarþingsins í þessu máli, og taldi það hlynt því, að útrýmingarböðun færi fram. En þar er ekki nema hálfsögð sagan. Búnaðarþinginu fanst það einmitt mjög varhugavert, að ráðast í útrýmingarböðun nú þegar. Samþyktin, sem það gerði um þetta, var því skilyrði bundin, að ekki yrði horfið að því ráði fyrst um sinn. Jeg skal, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mjer að lesa upp nokkur atriði úr nál. búfjárræktarnefndar á búnaðarþingi um þetta mál:

,,Telur nefndin hæpið, að hún (þ. e. sótthreinsun fjárhúsa) verði svo framkvæmd, að talist geti trygg útrýming, þar sem maur getur lifað alt að þrem mánuðum undir ullarlögðum eða kláðaskorpum ósljettra veggja. “ — Og á öðrum stað segir:

„— — Að öllu athuguðu vill nefndin ekki leggja til, að nú sje samþ. á Alþingi lög um útrýming fjárkláða, þar sem böðunarár sje fastsett. Hitt virðist nefndinni frekar geta komið til greina, að samþ. verði heimildarlög fyrir ríkisstjórnina, þar sem henni veitist heimild til að fyrirskipa slíka útrýmingarböðun í samráði við Búnaðarfjelag Íslands, þegar hentugur tími teldist til þess — .“

Þetta er það mesta sem nefndin segir, að þessi leið geti heldur komið til mála. En hún telur sjálfsagt að halda áfram undirbúningi málsins. Það er því lítill stuðningur fyrir málstað hv. þm. Str. (TrÞ) og skoðanabræðra hans, að vitna í álit búnaðarþingsins.