07.04.1927
Neðri deild: 49. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í C-deild Alþingistíðinda. (2523)

11. mál, útrýming fjárkláða

Magnús Torfason:

Hæstv. atvrh. (MG) sagði í svarræðu sinni til mín, að hann hefði ýmislegt að athuga við það, sem jeg sagði. Þó varð í meðförunum heldur lítið úr því, svo sem von var til, því að við erum alveg sammála um kjarnaatriðið: að kláðanum beri að útrýma, fyr eða síðar, með almennri útrýmingarböðun. Deiluefnið er aðeins það, hvort málið sje nú svo vel undir búið, að útrýmingarböðunin megi fara fram þegar í stað. Því hefi jeg neitað. Jeg held, að þeim, sem vilja láta til skarar skríða, sje ómögulegt að sanna okkur hinum, að útrýmingarböðun muni hepnast. Hæstv. ráðh. sagði, að það væru kák eitt, þótt fyrirskipaðar væru kláðaskoðanir á vissum svæðum, því að kláðinn gæti altaf komið aftur. Hann orðaði þetta nú þannig, að hann spurði, hvenær Árnessýsla mundi loga aftur í kláða. Jeg held nú, að það verði mjög langt þangað til. Undirbúningur undir kláðaböðunina þar var mjög öflugur og góður. Á öllum mannfundum var rætt um nauðsynina til að hefjast handa, og hvernig farið skyldi að. Allir bestu menn sýslunnar voru fengnir til að vera eftirlitsmenn með böðununum og gangast fyrir þeim. Síðan var nákvæmlega skoðað alt fje, bæði í rjettum og heima á bæjum. Á þennan hátt kom kapp í fólkið með útrýminguna. Og hvenær sem kláðakind sjest í Árnessýslu, er óðara sagt til um það, og reynt að stemma stigu fyrir útbreiðslu kláðans. Þetta er sá undirbúningur, sem með þarf. Þetta er sá hugsunarháttur, sem þarf að vekja hjá fólkinu. Það þarf að gera öllum almenningi það að metnaðarmáli, að losna við kláðann. Þessi undirbúningur er kominn vel á veg í mínu kjördæmi. Þar þykir það skömm fyrir bónda, að færilús sjáist á fjenaði hans, hvað þá fellilús. Hún er þar nú alls ekki til, nema á aðkomufje. Það þarf að innræta mönnum, að það sje alveg eins skammarlegt að hafa kláða á fje sínu, eins og að hafa hann á heimilisfólkinu, og fyrst þegar reynist hægt að halda niðri kláðanum, má hugsa til útrýmingarböðunar. En til þess þarf hver einasti bóndi að vera nokkurskonar kláðafræðingur. Það er t. d. ekki nóg, að geta drepið kláðann í fjenu og í húsunum. Það þarf líka að drepa hann í högunum. Þar getur hann lifað tímunum saman undir ullarlögðum o. þ. h. T. d. þarf ekki annað en hugsa sjer barð, sem kláðakind hefir nuddað sjer upp við. Þaðan gæti kláðinn hæglega breiðst út. Það er ákaflega margt, sem athuga þarf, og miklu fleira en menn gera sjer alment í hugarlund. Þar koma m. a. baðlyfin til greina. Eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, get jeg ekki sagt um það, hvort baðlyfið okkar er gott. En hitt er víst, að alþýða manna hefir heldur litla trú á því og kann ekki með það að fara. Einn aðalgallinn á lyfinu er sá, að það sest ekki jafnt, svo að það efni, sem drepur maurinn, er ekki jafnt í öllu lyfinu. Þetta þarf að kenna fólki að forðast, áður en hrapað er að útrýmingarböðun.

Annars vil jeg líka taka það fram, að jeg hefi enga trú á útrýmingarböðun, sem framkvæmd er aðeins eitt ár. Hún þarf að fara fram hvert árið eftir annað, og það væri áreiðanlega ekki of miklu til kostað, ef það hepnaðist, að útrýma kláðanum.

Að lokum vil jeg draga það í efa, að kláðinn sje að aukast í landinu. Jeg held, að þær skýrslur, sem borist hafa, sanni frekar hið gagnstæða. Það, sem nú á að gera, er að gefa út kláðapjesa, sem skrifaður sje af sjerfræðingi, og að kenna fólki að fara með kláðann að öllu leyti. En meðan kláðanum verður ekki haldið niðri í stórum sveitum, er víst, að lítið þýðir að fást við útrýmingarböðun.