13.04.1927
Efri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í C-deild Alþingistíðinda. (2562)

89. mál, húsmæðraskóli á Hallormsstað

Frsm. meiri hl. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Það hefir tekið hv. minni hl. (JJ) langan tíma að skýra afstöðu sína til þessa máls. Jeg býst við, að hv. l. landsk. sje einnig kunnug afstaða mín til málsins, þar sem jeg er í meiri hl. mentmn. og hefi borið fram nál. meiri hl. ásamt samnefndarmanni okkar, hv. þm. Seyðf. Jeg stend við það, sem þar er sagt, og skal taka það fram að gefnu tilefni, að jeg hefi lagst á móti frv. af ráðnum hug án áeggjana nokkurra manna. Ekki af neinni hreppapólitík, heldur af landspólitík. Jeg hefi haft það fyrir reglu, að tala aðeins í þeim málum, sem jeg þykist bera skyn á, en öðrum ekki.

Hv. minni hl. (JJ) óskaði eftir því, að fá að vita, hvaða framtíðarskipulag vekti fyrir mjer. En um slíkt er ekki hjer að ræða, að meiri hl. ákveði skipulagið, þar sem gert er ráð fyrir því í nál. meiri hl., samanber hina rökstuddu dagskrá, að ríkisstjórnin taki húsmæðrafræðslumálið til rækilegrar yfirvegunar áður en ráðist verður í frekari framkvæmdir á aukinni húsmæðrafræðslu í landinu. Hv. 1. landsk. ætti að vera það kunnugt, að jeg er síst mótfallin því, sem orðið getur til þess að auka andlega og líkamlega mentun kvenna. Það er ekki hægt að spyrja okkur um það, hversu margir húsmæðraskólar verði stofnaðir. Hv. 1. landsk. sagði, að það mætti ekki vera minna en einn húsmæðraskóli í hverjum landsfjórðungi. Það er alveg rjett, en það verður að velja staðinn svo, að hann fullnægi sem best þörfum manna og að auðvelt sje að sækja hann og góð vaxtarskilyrði sjeu fyrir hendi.

Annars er mikil vöntun á því og stór skaði, að ekki skuli vera til stofnun hjer, þar sem konur geta lært nóg til þess að gerast kennarar í húsmæðrafræðslu. Alla slíka fræðslu verður að sækja til útlanda. Hv. frsm. minni hl. (JJ) sagði, að þetta frv. væri sniðið eftir frv. um eyfirska húsmæðraskólann. Það má vel vera, og hefi jeg í bili ekkert að athuga við þær námsgreinar, sem taldar eru upp í 4. gr. frv. og gert er ráð fyrir að kendar verði við skóla þessa. Þá sagði hv. 1. landsk., að það væri gleðilegt að sjá, hvernig ein framkvæmdin vekti aðra, og átti hann þar við, að eyfirskar konur hefðu sent ríkisstjórninni áskorun að veita fje, sem lofað var í heimildarlögum frá 1917. Mjer kom þessi áskorun engan veginn á óvart. Jeg hafði litið svo á, að málið væri engan veginn kulnað út, þótt það hafi um skeið orðið að lúta í lægra haldi fyrir öðru máli, sem eyfirskar konur studdu með dáð og dug, heilsuhælinu í Kristnesi. En það var kuldaleg og ónærgætnisleg tilgáta hjá hv. minni hl., er hann gat sjer þess til, að eyfirskar konur hefðu sent þessa umsókn af öfund við þingeyskar konur út af því, að þær fengju sjerstaka húsmæðradeild við skólann á Laugum. Jeg tók það fram, að jeg væri ánægð yfir fjárveitingu þeirri sem hv. Nd. hefir veitt frú Sigrúnu Blöndal, til þess að gera byrjunartilraun í húsmæðrafræðslu á heimili sínu.

Jeg skil það vel, að Austfirðingum þyki vænt um Hallormsstað. Jeg hefi einu sinni komið þar, og fyrir mínum hugskotssjónum stendur hann sem einn hinn fegursti staður, sem jeg hefi komið á hjer á landi. En jeg efa, að samgöngur sjeu þar góðar, að minsta kosti fanst mjer vegurinn ekki góður yfirferðar, og reið jeg þó ágætum vekringum alla leiðina, og jeg hygg, að samgöngurnar hafi ekki verið mikið bættar síðan. Hv. 1. landsk. sagði, að kostir Hallormsstaðar væru svo miklir, að þeir hættu upp vegalengdina og erfiðleikana við aðdrætti. Þetta er frekar staðhæfing en staðreynd. Jeg dreg það ekki í efa, að Austfirðingar hafi tilnefnt Hallormsstað, vegna þess að þeir sjeu svo ánægðir með hann. En það þarf meira en fegurðina eina til þess að gera staðinn heppilegan eða góðan í því falli, sem hjer um ræðir. Þá sagði hv. 1. landsk., að við, meiri hl., vildum svæfa málið. Því neita jeg. Við höfum sýnt, að við álítum það tímaspursmál, hvenær skólinn kæmist á stofn. Hitt eru getsakir hjá hv. þm.

Þá áleit hv. 1. landsk. það síst um of í lagt, að skólinn rúmaði 40 stúlkur. En eftir minni reynslu og þekkingu á þessum málum, þá leyfi jeg mjer að efa, að það þurfi rúm fyrir 40 nemendur á skóla þessum, ef að fjórir slíkir skólar komast upp í framtíðinni. Mjer skilst, að fyrir hv. 1. landsk. vaki það eitt, þegar rætt er um fræðslu kvenna, að gera þær hæfar til þess að gegna inniverkum, matreiða, þvo þvott o. fl. þvílíkt. En ef hv. þm. neitar því ekki, að konan hafi sál og gáfur, þá finst mjer þessi fræðsla vera nokkuð einhæf. Það verður að líta til fleiri hliða. — Þá komst hv. 1. landsk. inn á það, að tala um kvennaskólann í Reykjavík. Það er nú gamall kunningi hjer í deildinni, og jeg hefi enga tilhneigingu til þess að fara að rifja upp þær umræður, sem fram fóru um hann hjer 1925. Hv. þm. sagði, að mikið kapp hefði verið lagt á það, að gera þann skóla að ríkisskóla, en það hefði mistekist, vegna þess að hv. frsm. minni hl. (JJ) og samherjar hans hefðu neitað því, að kvennaskólinn væri sjerskóli. En það þýðir bara ekkert fyrir hv. þm. að neita því. Kvennaskólinn hjer er og verður sjerskóli. Þá sagði hv. þm., að lítið væri upp úr því leggjandi að hafa skólann á Eiðum. Þar væru gallar eins miklir, en ekki þeirri fegurð fyrir að fara, sem er á Hallormsstað. Jeg legg nú mikið upp úr allri fegurð, í hvaða mynd sem hún birtist, en jeg legg líka mikið upp úr hinu, að hægara er að styðja en reisa. Á Hallormsstað þyrfti að byggja alt að nýju, en á Eiðum tel jeg víst, að nægja mundi viðbótarbygging við það, sem er. Það mætti nota margt sameiginlega við báða skólana, og yrði því sparnaður á mörgum sviðum. Hv. þm. kann að kalla þetta fullyrðingu, en bak við þessa fullyrðingu liggur nokkur þekking, sem jeg hefi aflað mjer á þessu máli. Jeg hygg því, að skólanum mundi farnast fult svo vel á Eiðum sem á Hallormsstað, þótt staðurinn sje ekki eins fagur. Jeg drap á það, að mjer fyndist Hallormsstaður vel fallinn til hressingarhælis. Skólar eru nauðsynlegir, en hressingarhæli eru það ekki síður, og jeg vona, að þjóðin verði þess megnug að reisa fleiri en eitt hressingarhæli í framtíðinni.

Hv. þm. (JJ) mintist á það, hve mikla þýðingu það hefði, að góð húsakynni væru reist á fögrum stöðum upp til sveita, og í sambandi við það drap hann á, hve við værum illa staddir í þessum efnum, þegar útlenda gesti bæri að garði. Jeg vil nú síst allra tefja fyrir því, að góð húsakynni verði reist á landi hjer, svo myndarlega sje hægt að taka á móti góðum útlendum gestum. Hv. þm. sagði, að það væri ekkert hjer í borginni, sem hægt væri að sýna útlendingum. Það yrði að vera upp til sveita. Það má vel vera, að þetta sje svo. Þetta er nú bara alment skraf, en jeg verð að svara því, þegar skrafinu er beint til mín.

Hv. þm. láðist að geta þess, hvað sá sjóður væri stór, sem austfirskar konur rjeðu yfir í þessu skyni. Það væri fróðlegt að fá að heyra það. — Að nokkurt kapp sje lagt á að koma þessu máli þegar í framkvæmd, til þess að geta notið krafta þessarar góðkunnu konu, sem jeg fullkomlega treysti, er skiljanlegt. En það er ekki nóg ástæða til þess að flaustra málinu af. Jeg verð að leyfa mjer að draga í efa, að eyfirskar konur hafi engri hæfri forstöðukonu á að skipa fyrir sinn væntanlega húsmæðraskóla. Norðlendingar eru ekki það ver mentir en Austfirðingar, að þeir eigi enga færa konu, er geti tekið að sjer forstöðu slíks skóla, enda hefi jeg ekki heyrt þá mótbáru fyr.

Jeg vil að lokum undirstrika það, að jeg teldi það vel farið, að frú Sigrúnu Blöndal verði veittar 1500 kr. á fjárlögum, til þess að geta haldið áfram þeirri kenslu, sem hún að undanförnu hefir haldið uppi. Þar álít jeg, að starfskraftar hennar og þekking njóti sín fullkomlega.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að segja fleira um mál þetta að svo stöddu.