30.04.1927
Neðri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í C-deild Alþingistíðinda. (2592)

60. mál, landnámssjóður Íslands

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Mjer þykir ekki ástæða til að ræða frekar um þessi einstöku atriði málsins, sem við hv. 2. þm. Skagf. erum ekki alveg sammála um. Við höfum hvor um sig lýst skoðun okkar, og við það getur setið í bráð. Jeg skal aðeins geta þess, að jeg vil helst ekki setja nein ákvæði um eignatakmörkin að neðan, sem orðið gæti til þess að hindra fátæka menn frá að njóta þessara kjara. Það er sýnilegt, að maður, sem reisir bú, verður annaðhvort að eiga einhverja fjármuni, eða þá að njóta trausts annara manna. Jeg tel það engu lakari meðmæli með manninum, að hann njóti trausts annara manna, heldur en hitt, að hann eigi einhverja ákveðna krónutölu. Við þekkjum þess mörg dæmi úr landbúnaðarsögu okkar, að bú hafa verið reist at ótrúlega litlum efnum, og þó hepnast vel. Jeg sje heldur ekki mikla hættu því samfara, þó að nýbyggi verði að gefast upp. Býlið er til eftir sem áður og ekkert aðalatriði, hver fær þar staðfestu. Maður mundi koma í manns stað. Jeg hlýt að sætta mig við, að málinu verði vísað til milliþinganefndarinnar í landbúnaðarmálum, ef deildin vill hafa þá afgreiðslu, og eins og hæstv. atvrh. tók fram, er þá atkvæðagreiðslan nú vitanlega ekki algerlega bindandi um einstök fyrirkomulagsatriði.