11.03.1927
Neðri deild: 27. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í C-deild Alþingistíðinda. (2608)

74. mál, innflutningsgjald af bensíni

Flm. (Ólafur Thors):

Jeg bjóst ekki við því, að mál þetta kæmi til umræðu í dag, en jeg sje þó ekki ástæðu til þess að óska frestunar á því, því að hjer er ekki langrar framsögu þörf. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þegar bifreiðum tók að fjölga hjer á landi, þá kom það brátt í ljós, að þær slitu mjög vegunum. Það þótti því sanngjarnt, að bifreiðaeigendur ljetu eitthvað af mörkum, sem endurgjald fyrir slit akveganna. Með lögum nr. 56, 27. júní 1921 var lagður skattur á bifreiðar, og var skatturinn miðaður við hestorku vjelarinnar. Reynslan hefir nú sýnt, að þessi mælikvarði er ekki rjettlátur, því að það er að sjálfsögðu ekki hestorka vjelarinnar, sem veldur því, hve mikið slit bifreiðin orsakar á vegunum, heldur hitt, hve mikið henni er ekið. Bifreiðaeigendur hafa fundið til þessa órjettar. Þeir höfðu hugsað sjer að senda ríkisstjórninni áskorun um að breyta lögunum um þetta efni, en urðu of seinir fyrir með undirskriftir. Því var það, að þeir á elleftu stundu báðu mig að flytja frv. þetta. Áskorunin er undirskrifuð af 175 bifreiðaeigendum, 87 eigendum fólksflutningsbifreiða og 88 eigendum vöruflutningabifreiða. Jafnframt sendu þeir greinargerð, þar sem þeir benda á, hversu núverandi bifreiðaskattur sje órjettlátur. Sem dæmi nefna þeir, að 4 manna Ford-bifreið gjaldi í skatt 22 X 8 krónur, eða 176 krónur, því að vjel hennar hefir 22 hestöfl, en skatturinn er 8 krónur af hestaflinu. En hinsvegar geldur 14 manna Fiat-bifreið ekki nema 14x8, eða 112 krónur, en allir sjá, að hún hefir betri aðstöðu til þess að greiða þyngri skatt, þar sem hún tekur 14 farþega, en hin ekki neina 4. Þá bentu þeir líka á það, að yfirbygðar vöruflutningsbifreiðar, sem notaðar eru til fólksflutninga, þyrftu ekki að borga nema ¼ af fólksflutningsbifreiðaskatti, en þær rúma fleira fólk en nokkur fólksflutningsbifreið og hafa því betri aðstöðu til þess að afla tekna. Ennfremur bentu þeir á það, að oft kæmi það fyrir, að bifreiðaeigendur ættu gamlar bifreiðar, sem þeir vissu ekki hvort þeir ættu að rifa niður eða láta gera við. En af þeim verða þeir að borga fullan skatt, þótt þær standi heilt ár inni í skúr. Oft er það einnig, að bifreiðar bíla, og það tekur langan tíma að ná í varahluti í þær, en skatt verður að gjalda af þeim á meðan, eigi að síður. Jeg held, að það sje óþarfi að rökstyðja það frekar, að núgildandi skattur er órjettlátur. En þá er að athuga, hvort mín breyting er rjettmæt. Það er nú vitanlegt, að bensíneyðslan segir sæmilega til um það, hve mikið bifreiðin er notuð, en eftir notkuninni fer slitið á vegunum mikið. Mjer hefir verið bent á það, að skatturinn mundi koma rjettlátlegar niður, ef tollur væri líka lagður á gúmmí, því að það segði eigi síður til um slit á vegunum. Þessu skýt jeg fram, hv. fjhn. til athugunar, en til hennar mun jeg leggja til, að málinu verði vísað. Jeg veit nú að vísu, að bensín er notað til annars en bifreiða, en þó hygg jeg, að það muni ekki vera í ríkum mæli.

Jeg ætlast til, að þessi skattur, sem greiddur verður, samkv. frv. mínu, jafngildi núverandi bifreiðaskatti. Jeg hefi því miður ekki getað fengið skýrslur um bensín-innflutning á árunum 1925 og 1926, en hefi skýrslu frá árinu 1924. Þá voru flutt inn 508 þús. kíló af bensíni, en það ár var bifreiðaskatturinn 23600 kr. Með öðrum orðum, ef mín uppástunga hefði gilt þá, hefði skatturinn orðið tæpum 2000 kr. meiri. Nú hefir bifreiðaskatturinn hækkað eitthvað; hann er áætlaður 30 þús. fyrir árið 1928, en jeg tel víst, að bensíninnflutningur hafi aukist hlutfallslega. Ríkissjóður mun því ekki bíða neinn skaða, þó þetta frv. nái fram að ganga. Eins og menn vita, eru greiddir 30 aurar í vörutoll af hverjum 50 kg. af bensíni. Jeg hefi ekki sjeð mjer fært að leggja til, að sá tollur verði afnuminn, því að þessi nýi skattur rennur í sjerstakan sjóð til viðhalds vegum eins og bifreiðaskatturinn.

Að endingu vil jeg leyfa mjer að leggja til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.