26.04.1927
Efri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í C-deild Alþingistíðinda. (2758)

64. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á hafnarmannvirkjum

Jón Baldvinsson:

Jeg er hissa, að jafngreindur maður og hæstv. forsrh. skuli bjóða deildinni þær röksemdir, sem hann kemur með í þessu máli. Hann reynir að koma því inn hjá mönnum, að forkaupsrjettur sveitarfjelaga á jörðum sje ekki eins víðtækur og sá forkaupsrjettur, sem hjer er farið fram á. En hann kemst ekki í kringum það, að hreppurinn á forkaupsrjett að jörð að leiguliða frágengnum, og þeim, er slíkur rjettur var trygður með breytingunni 1926. Í raun og veru ganga þau lög lengra að því er snertir kvaðir á jarðir, því að þar er um meira að ræða en forkaupsrjett sveitarfjelaga. Í þessum lögum er eingöngu um að ræða almenna hagsmuni.

Jeg skil ekki annað en öllum þyki heppilegt, að bæirnir eigi sjálfir hafnarmannvirki, bryggjur o. s. frv., en þetta frv. fer aðeins fram á að tryggja þau yfirráð. Svo kom hæstv. forsrh. með þá firru, að greindir borgarar gætu ekki svarað því, hvað gerðist hjá bæjarstjórn. Spurningin er villandi, því það ætti þá að spyrja þá um, hvað hafi gerst hjá bæjarstjórn, sem snertir þá sjálfa eða í sjerstökum málum, sem þá varða. Jeg er viss um, að hver einasti borgari fylgist með í slíkum málum. Það mætti reyna að spyrja mann, sem sótt hefði um byggingarleyfi, hvernig því hefði reitt af. Auðvitað vissi hann það upp á hár. Og svo heldur hæstv. forsrh., að fasteignaeigendur fái ekki vitneskju um, ef gerð eru einhver sjerstök ákvæði viðvíkjandi fasteignum þeirra. En hann má reiða sig á, að um þetta verður engin óvissa, hvorki hjer í Reykjavík nje annarsstaðar.

Hæstv. ráðh. talar um það sem möguleika, að þetta yrði heldur ekki þinglesin kvöð, og það yrði til þess að gera rjettaróvissuna meiri. En því er samfara nokkur kostnaður, og svo getur verið, að slík þinglesin kvöð sje meiri hefting á fasteignum en forkaupsrjettarsamþykt, sem birt væri í B-deild Stjórnartíðindanna. — Yfirleitt sje jeg ekki neina ástæðu til þess, að deildin taki til greina þessar mótbárur hæstv. forsrh.