06.05.1927
Neðri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í C-deild Alþingistíðinda. (2773)

64. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á hafnarmannvirkjum

Pjetur Þórðarson:

Jeg er í sjálfu sjer ekki mótfallinn því, að bæir og kauptún fái slíka heimild sem þessa, en hinsvegar sýnist mjer alt of lauslega um það búið, hvernig bæjarstjórn eða hreppsnefnd fer að semja eða setja slíka samþykt sem ráð er fyrir gert. Hjer í frv. eru ekki nokkur ákvæði um það, hvernig slíkar samþyktir eigi að vera gerðar, til þess að þær veiti bæjarstjórnum og hreppsnefndum þessi víðtæku rjettindi. Þetta kalla jeg lauslegan undirbúning, þar sem um svo þýðingarmikil ákvæði er að ræða. Jeg minnist þess ekki, að til sje nein almenn lagaheimild, er veiti leyfi til þess að gera slíkar samþyktir, eða hvernig þær skuli gerðar, og vil jeg skjóta þeirri spurningu til hæstv. atvrh. (MG), hvort nokkur almenn lög sjeu til um þetta efni.

Það er alkunnugt, að samþyktir hreppsnefnda og sýslunefnda verða að vera útbúnar á vissan hátt, til þess að þær geti náð staðfestingu. En í þetta frv. vantar alveg ákvæði um það; takmörkin eru engin, og það virðist svo sem hægt sje að gera samþyktir með aðeins eins atkvæðis mun. Jeg álít, að það þurfi að vera einhver sjerstæð, ákveðin takmörk fyrir því, hvernig samþyktir þurfa að vera gerðar, til þess að þær hljóti staðfestingu. Þarf því, að mínum dómi, að endurbæta frv. mikið, ef það á að verða að lögum.

Þess er heldur eigi getið í 2. málsgr. 1. gr., hvaða aðili á að semja þessar samþyktir fyrir hönd kauptúna. Þar er hreppsnefnd ekki nefnd á nafn. En það þarf ekki nema litla orðabreytingu til þess að laga þetta. Það þyrfti ekki annað en að byrja aðra málsgrein svo: „Hreppsnefnd í kauptúni, sem er sjerstakt hreppsfjelag“, o. s. frv. Það er því ekki heldur rjett hjá hv. minni hl., að hreppsnefndum sje heimilað samkv. frv. að gera slíkar samþyktir, og orðið „hreppstjórn“ í niðurlagi greinarinnar er óviðeigandi. Það væri miklu nær að þar stæði „hreppsnefnd“, því að svo heita stjórnir hreppsfjelaga.

Ef hæstv. atvrh. (MG) getur eigi bent á nein almenn lög um forkaupsrjettarsamþyktir, þá finst mjer nauðsynlegt að setja sjerstök ákvæði um það í frv., hvernig þær eigi að vera gerðar, til þess að þær geti hlotið staðfestingu stjórnarráðsins. Jeg lofa því þó ekki, að koma fram með brtt. við frv. við 3. umr. til þess að laga þessa galla, sem jeg nú hefi bent á, að eru á frv., en jeg er ekki á móti því, að vera í samvinnu við hv. meiri hl. nefndarinnar um að lagfæra frv. svo, að það þyrfti ekki að stranda hjer í deildinni.