31.03.1927
Neðri deild: 43. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í C-deild Alþingistíðinda. (2792)

103. mál, atkvæðagreiðsla utan kjörstaða kjósanda við alþingiskosningar

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg bjóst nú hálft í hvoru við því, að hv. 4. þm. Reykv. (HjV) mundi standa upp til andmæla. En reyndar gerði hann það nokkuð á annan veg en við samnefndarmenn hans höfðum ástæðu til að ætla. Hv. þdm. hljóta nú að álíta eftir hans ræðu, að honum hafi verið með öllu ókunnugt um þetta mál, og mættu þeir þá draga þá ályktun þar af, að ekki væri samvinna í allshn. á marga fiska, ef við högum okkur svona. En það vill svo til, að við erum ekki svo afleitir til samvinnu eins og hv. 4. þm. Reykv. gefur í skyn, því að honum var vel kunnugt um þetta mál, að það mundi koma fram. Satt að segja höfum við samnefndarmenn hans gert talsvert til þess að fá þennan hv. þm. til þess að vera með færslu kjördagsins og gera þessi lög sem allra best úr garði fyrir kjósendur þessa lands. Þeirri samvinnu hefir hv. 4. þm. Reykv. algerlega neitað. Jeg get búist við því, út af þessum ummælum, að hann hefði gjarnan viljað, að þetta þing hefði liðið svo, að altaf hefðum við verið að leita samvinnu við hann. Með því var best sjeð fyrir því, að hvorki færsla kjördags nje kosningar utan kjörstaða ætti sjer stað.

Jeg get búist við, að hann hafi ekki í sjálfu sjer á móti þessari breytingu, þar sem hún gerir mönnum auðveldara að kjósa en núgildandi lagaákvæði heimila. En hann veit það óskaplega vel, að við hefðum ekki lagt þetta frv. fram á þessu þingi, ef við hefðum ekki ætlað okkur að breyta kjördeginum. Við höfum talað oft við hann um þetta og vildum fá hann í lið með okkur. Allri þesskonar samvinnu neitaði hv. þm. Honum þýðir því ekkert að segja, að hann hafi ekkert vitað um þetta mál, að nefndin hafi skágengið hann í þessu efni. Honum var hægurinn hjá að vinna með okkur. — Annars ætla jeg ekki að fara að skýra nánar, hvers konar umræður hafa fallið milli nefndarmanna út af þessum málum. En vilji hv. þm. endilega, að það komi alt í dagsins ljós, þá getur hann náttúrlega vel komið með það.

Þá kom fram allmikill ókunnugleiki hjá hv. þm. á kosningalögunum. Mjer þótti undarlegt, satt að segja, að heyra, að hann furðaði sig á, að við tækjum ekki færslu kjördagsins upp í þetta frv. Það veit hv. þm., að það heyrði alls ekki til. Það frv., sem var vísað til allshn. snemma á þessu þingi, var alls ekki breyting á þessum lögum. (HjV: Það átti að taka þetta frv. upp í kosningalögin). Það hefði verið afskaplega afkáralegt, af því að innihald þessa frv. er gerólíkt ákvæðum kosningalaganna. — Hv. þm. sagði, að ekkert ákvæði í þessu frv. væri um það, hvernig talning atkv. ætti að fara fram. Það heyrði heldur ekki til þessu frv. Þau ákvæði eru í almennu kosningalögunum. Við munum á sínum tíma koma með breytingu á kosningalögunum um talningu atkv. Hvorugt þessara atriða, sem hv. þm. drap á, eiga heima í þessu frv. En hv. þm. getur verið alveg viss um, að við munum áður en langt líður bera fram brtt. við það frv., sem hv. þm. N.-M. flytja og vísað var til allshn. — og yfirleitt um þau atriði, sem nauðsynlegt er að breyta út af þessu frv. Jeg vona, að hv. þm. sjái muninn á þessu frv. og kosningalögunum, þegar hann athugar það betur.

Þá drap hv. þm. á atriði í 2. gr. frv., sem hann taldi athugavert. Jeg skal strax segja það viðvíkjandi ákvæðum 7. gr., sem hann drap á, að það er orðrjett tekið úr núgildandi lögum og hefir ekki verið að fundið. Í henni er drepið á, með hverju móti atkv. geti talist gilt. Sá varnagli er sleginn, að þótt þetta orð standi á seðlinum, skuli hann talinn gildur. Við flm. höfum ekki heyrt talað um, að þetta valdi neinum ruglingi við kosningar, og ljetum það þess vegna standa óbreytt. Annars er auðvelt að breyta þessu, ef talin er hætta á að það valdi ruglingi.

Þá drap hv. þm. á sektarákvæðið í 8. gr., sem honum þótti alt of lint, ef mönnum er meinað að neyta kosningarrjettar. Um þetta ákvæði er það sama að segja, að það er tekið orðrjett úr núgildandi lögum. Jeg hefi ekki heyrt talað um, að skipstjórar meini mönnum sínum að kjósa. Af hálfu okkar flm. er þetta ekkert aðalatriði. Ef ákvæði gildandi laga hafa verið eitthvað misnotuð, þá upplýsist það sjálfsagt við umræður þessa máls. Er þá ekki annað en bera fram brtt. um það. En við flm. þekkjum ekki til, að þetta hafi komið að sök, og því tekið ákvæðið óbreytt.

Jeg held jeg þurfi ekki frekar að gera að umtalsefni andmæli hv. 4. þm. Reykv. gegn þessu máli. Jeg vona, að hann við nánari íhugun þessa máls sjái sjer fært að vera með ekki einungis þessu frv., heldur líka á sínum tíma með frv. um færslu kjördags, þegar það mál kemur til 2. umr. Jeg vona, að hann á þann hátt reyni að gera öllum kjósendum landsins sem allra jafnast undir höfði og auðveldast að beita kosningarrjetti sínum. Það er þetta eitt, sem fyrir okkur vakir. Hinsvegar hygg jeg, að ekki sje hægt að finna nokkurn tíma ársins það hentugan, að öllum landshlutum sje jafnhentugur. En maður reynir að velja þann tíma ársins, sem kemur landsmönnum í heild einna best, og gera kosningalögin svo úr garði, að sem flestir kjósendur geti notið síns rjettar. En það er í sjálfu sjer erfitt að gera kosningalögin úr garði við hæfi allra kjósenda og hafa kjördaginn á þeim tíma, að trygt sje, að kjósendur kjósi, sem engan vilja hafa til þess.