11.04.1927
Efri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í C-deild Alþingistíðinda. (2835)

8. mál, samskólar Reykjavíkur

Jónas Jónsson:

Jeg sje, að orðið hafa straumhvörf um þessi mál við fráfall stjórnarformannsins í sumar. Jeg veit, að hæstv. atvrh. (MG) man svo langt, að í fyrra vildi stjórnarformaðurinn ekki ganga inn á þetta, taldi ekki fært að bæta meiru á ríkið en komið er af fræðslukostnaði unglinga.

Núverandi hæstv. kenslumálaráðh. lýsir því nú yfir, hvað ofan í annað, að hann ætli að halda áfram á þessari braut, að taka alla skóla inn í kerfið; en afleiðingin verður þá sú, að þeir komast allir á ríkið. Annars vildi jeg vekja eftirtekt á því, að það er engin ný regla, að ríkið leggi 2/5 af mörkum af stofnkostnaði nýrra skóla. Sú regla var upp tekin, þegar Laugaskólinn var reistur, að ríkið legði fram 2/5 kostnaðar gegn 3/5 annarsstaðar frá. En nýjungin við þetta samskólafyrirkomulag er sú, að kennararnir eru ráðnir af ríkisstjórninni og launaðir af ríkinu, að mestu leyti. Í þessu liggur stefnubreytingin, frá því sem áður var, og með þessu aukast gjöld ríkissjóðs til stórra muna. Og með þessu breytta skipulagi er verið að færa embættisværðina yfir í skólana — þessa værð, sem landskunn er orðin og jeg hefi margoft vikið að í öðru sambandi.

Hæstv. kenslumálaráðh. þarf ekki að gera sjer í hugarlund, að þær vonir hans rætist, að skólarnir verði ódýrari í rekstri, eftir að ríkið hefir tekið þá að sjer, en verið hefir áður. Í því sambandi þarf ekki nema að minna á Flensborgarskólann í Hafnarf. Hæstv. mentamálaráðh. ætti að athuga, hvað sá skóli hefir kostað, og hvað hann mundi koma til með að kosta, eftir að breytingin væri komin á. Með þessu er jeg alls ekki að mæla bót, hvernig búið hefir verið við kennara Flensborgarskólans. Því að laun þeirra hafa verið smánarlega lág og illa með þá farið — laun þeirra stundum verið um 13–1400 krónur á ári og þar í kring. Hæstv. ráðh. hlýtur því að sjá, hve mikið launin við þennan skóla koma til með að hækka, eftir því skipulagi, sem frv. fer fram á. Og svona mundi víðar fara, að ekki yrði hjá því komist að samræma kennaralaunin við alla þá skóla, sem falla undir þetta breytta skipulag, en það mundi hafa afskaplega hækkun í för með sjer fyrir ríkissjóð. Þó að Hinn almenni mentaskóli hafi vaxið óeðlilega mikið, þá er það ekki eftir skipulagi hans. En jeg get ekki betur skilið en að með frv. þessu sje verið að búa til fyrirkomulag, sem hljóti að verða þess valdandi, að skólarnir geti vaxið eftir þörfum. Það er sagt berum orðum, að kennurum geti fjölgað, eftir því sem þurfa þykir. Hjer gæti svo farið, að byrjað væri t. d. með 20 kennurum, en svo gæti sú tala hækkað upp í 30 á næstu árum og jafnvel tvöfaldast við það, sem byrjað var með, á tiltölulega fáum árum. Þetta ber í sjálfu sjer ekki að lasta, því að það sýnir fróðleiksþrá alþýðunnar, og get jeg því vel trúað, að hvaða fræðslumálastjóri sem er mundi gleðjast yfir þessu. En hitt get jeg ekki skilið, að menn, sem lögðust á móti 100 kr. styrk til ferjunnar á Hrosshyl, skuli með glöðu geði geta gengið inn á þessa braut í sparnaðarskyni. En þetta gerðu þeir í hv. Nd., festir Íhaldsmennirnir. Það gleður mig, ef þetta er af skilningi gert gagnvart unglingafræðslunni, og að sömu rjettinda megi vænta sveitunum til handa. En ef skólarnir hjerna í Rvík vaxa eftir þörfum, og engar hömlur settar fyrir því, að svo geti orðið, og segjum svo, að við löggiltum eina 5 skóla utan Rvíkur, en uppfyltum ekki þá þörf þeirra, að geta vaxið eftir þörfum, þá er komið ranglæti móts við það, sem Rvík hefir borið úr býtum. Við getum t. d. gert ráð fyrir, að þm. Snæf. komi til ríkisstjórnarinnar og segi, að nú sje búið að safna fje um Snæfellsnes, Dali og víðar til þess að reisa skóla á Helgafelli, og virðist hann þá, eftir þessu skipulagi frv., eiga heimting á að fá úr ríkissjóði 2/5 stofnkostnaðar og fasta kennara eftir þörfum. Það verður ekki hægt að afsaka sig með því, þegar til orða kemur að stofna nýja skóla, að Núpsskólinn sje fyrir Vesturland, Flensborgarskólinn fyrir Suðurland og Laugaskólinn fyrir Norðurland. Nú stendur svo á um alþýðuskólann á Laugum, sem Jón heitinn Magnússon vildi ekki taka á ríkið, að hann rúmar ekki nema 50–60 nemendur, en margfalt fleiri sækja um upptöku í hann á hverju ári. Er því auðsæ þörfin um að stækka hann, enda ætti að vera hægt að láta hann vaxa eftir því sem frv. ætlast til. Vildi jeg því gjarnan mega væna svars hæstv. ráðh. (MG) um þetta, og hvort hann líti ekki svo á, að óhjákvæmilegt sje að stækka Laugaskólann, svo að ekki þurfi að neita tugum mentunarfúsra unglinga um upptöku í hann.

Það verður óhjákvæmilegt, ef frv. þetta verður samþ., að ríkið taki að sjer á næstu árum Flensborgarskólann, Hvítárbakkaskólann og skólann á Núpi í Dýrafirði. Jeg þykist vita, að stjórnin láti sjer ekki detta í hug, að ófæddur skóli gangi fyrir þessum skólum með framlög til fastakennara o. s. frv. Jeg vil vekja athygli hæstv. stjórnar á því, að það er undarlegt, að sama stjórnin, sem neitaði í fyrra útborgun til skólans í Árnessýslu, og braut þar með lög landsins, skuli nú bera fram slíkt frv. sem þetta, þar sem enginn viðbúnaður er til þess, að það komi að gagni. (Atvrh. MG: Enginn viðbúnaður?) Nei; það er aðeins einn kennari, sem hefir athugað málið og borið fram hugmyndina, en bæjarstjórn Rvíkur hefir ekkert gert, aðeins lýst yfir því, að hún væri hugmyndinni hlynt. En hvort hægt sje að koma hjer upp slíkum skóla, hefir hún ekki látið sjer detta í hug að athuga.

Spurningu minni um það, hvenær ætti að reisa skólann, svaraði hæstv. ráðh. svo, að það væri háð ýmsum fjárhagsatriðum, en líklega yrði þó ekki byrjað á því að ári. Jeg vil þá benda á, að við erum hjer með stórbyggingu í smíðum, sem við verðum að ljúka á næstu 3 árum. Verður það um miljón króna, er við þurfum að leggja til hennar á þeim árum. Jeg hygg, að þetta sje svo mikið fje, að við sjáum okkur ekki fært að leggja í margar slíkar stórbyggingar. En jeg heyrði á ræðu hæstv. atvrh., að stjórnin hefir ekki hugmynd um, hver kostnaðurinn við skólabygginguna verður. Það er sama sagan eins og með viðbótarbygginguna á Kleppi, sem gert var ráð fyrir að kosta mundi 50–100 þús. kr., en það fje hrökk aðeins fyrir grunnstæðinu. Jeg hygg líka, að hæstv. stjórn hugsi ekki út í það, að með þessu frv. er hún að skapa hættu um það, að ekki verði hægt, fjárhagsins vegna, að ljúka við í rjettan tíma þær nauðsynlegu byggingar, sem við erum nú með. Bæjarstjórn Rvíkur hefir sagt, að hún vilji byrja á samskólanum, þegar hinn nýi barnaskóli er fullger. Mjer er sagt, að það geti dregist lengi. Þarna hefir þó bæjarstjórn vaðið fyrir neðan sig, en hæstv. landsstjórn vill enn einu sinni gefa út víxil „in blanco“, vill ráðast í þetta fyrirtæki, hvað sem landsspítalanum líður.

Með þessu hefi jeg gefið hæstv. kenslumálaráðh. tilefni til að gefa hv. deild upplýsingar um málið.