10.03.1927
Neðri deild: 26. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í C-deild Alþingistíðinda. (2861)

53. mál, strandferðaskip

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. þm. V.-Sk. spurði, hvernig háttað væri styrknum til bátaferða í Austur-Skaftafellssýslu. Þetta hefir nú þegar verið upplýst af hv. þm. þess kjördæmis (ÞorlJ), og hefi jeg þar litlu við að bæta. Sýslunefnd hefir fengið styrkinn til úthlutunar, og álítur hv. þm. V.-Sk. (JK), að honum hafi verið illa varið, en hlutaðeigandi þm. (ÞorlJ) er á gagnstæðri skoðun. Skal jeg ekkert um það segja, að svo stöddu, hvor rjettara hefir fyrir sjer. En svona fljótt á litið virðast líkurnar vera fyrir því, að sýslunefnd veiti styrkinn þangað, sem hann kemur hjeraðsbúum að bestu gagni. Nú hefi jeg fengið ósk úr ýmsum áttum um að mb. „Faxa“ verði veittur þessi styrkur, en aðrir vilja, að haldið verði sama skipulagi og áður.

Jeg vildi biðja háttv. þm. að takmarka yfirleitt ræður sínar við 1. umr. málanna, til þess að þau komist sem fyrst í nefnd. Það segir sig sjálft, að ef þau komast ekki tiltölulega fljótt til nefnda, þá gefst minna tækifæri til að athuga þau, og minni líkur til að þau nái fram að ganga, en það er þó væntanlega tilætlunin um þau mál, sem fram eru borin.