29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í C-deild Alþingistíðinda. (2900)

53. mál, strandferðaskip

Hákon Kristófersson:

Mig langaði aðeins til að gera athugasemd við þau orð hv. frsm. meiri hl. (SvÓ), að jeg hafi afflutt orð þau, er hann sagði í þessari hv. deild við síðustu umr. þessa máls. Hann neitar nú algerlega að hafa sagt, að góðar samgöngur væru í kjördæmi hans. Út af þessu vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þau orð, er skrifarinn hefir náð eftir honum, og jeg votta, að eru rjett eftir höfð:

„ .... Það er svo um mitt kjördæmi, að það nýtur ágætra samgangna á sjó, vegna góðra og margra hafna ....“. (SvÓ: Jeg lýsi þetta ósatt!). — Hv. þm. ætlar að gera sig að minna manni með því að lýsa þetta ósatt. Man hann ekki, að þegar hann hafði gert þessa játningu, greip jeg fram í fyrir honum og sagði, að það gleddi mig að heyra þetta? Þá var hv. þm. (SvÓ) svo vandur að virðingu sinni, að hann stóð við nýsögð orð sín. Þeir dagar, sem liðið hafa síðan 2. umr. lauk, hafa leitt þennan gamla og mæta þingmann inn á þá braut, að vilja renna frá þeim orðum, er hann hermir rjettust. Ef til þess kæmi, að hann strikaði þessi góðu orð út úr ræðu sinni, þá hefi jeg sjeð fyrir, að þau koma þó óbrjáluð í minni ræðu í þingtíðindunum.

Hv. þm. Str. fór að bera saman þetta mál og viðburði, sem gerðust fyrir mannsaldri, er í ráði var að leggja veg austur yfir Hellisheiði. Þetta finst honum dæmalaust góður samanburður og segir, að okkur, sem andvígir eru þessu frv., sje líkt farið og körlunum að austan, sem komu til landshöfðingja og báðu hann að hverfa frá hinu mikla óráði, er þessi vegarlagning væri. Hv. þm. viðurkendi, að þessum mönnum hefði gengið gott til, eins og okkur nú; hann var þó svo rjettsýnn — (TrÞ: Eins og altaf!). Betur, að jeg gæti sagt það sama! — En þetta, sem hv. þm. vildi bera saman, er alls ekki sambærilegt. Nú eru hjer á landi svo miklu fleiri vegir en þá voru, og þeir „vegir“, sem á að leggja með þessu frv., eru nú þegar í svo sæmilegu lagi, að vel má við hlíta fyrst um sinn. Auk þess er lítil samgöngubót að því, að taka fje frá brúa- og vegagerðum, og leggja í þetta. En áður óx hjeraðsmönnum eystra svo í augum kostnaðurinn, að þeir sáu ekki framförina, sem af vegarlagningu mátti leiða. Það eru í mesta máta óviðurkvæmileg orð hjá hv. þm. Str., að við sjeum á móti þessu frv. af því að við trúum ekki á landið. Andstaða okkar á ekkert skylt við vantrú á landið. En við lítum svo á, að með því að nota þau flutningatæki, sem hjer eru nú, megi fá sæmilegar samgöngur á sjó.

Jeg mun ekki fara út í þær deilur, sem hjer hafa átt sjer stað. Þótt ýmsir greiði frv. atkv. með hálfum huga, þykist jeg sjá fram á, að það verði samþ. hjer. Við því er auðvitað ekkert að segja, ef þeir álíta, að ríkissjóður hafi efni á þessu. En þeim góðu mönnum hefir ekki tekist að sanna með rökfærslum sínum, að strandferðir væru yfirleitt ekki nægilegar eins og þær eru nú. Það hafa þeir líka forðast eins og heitan eld, að fara neitt inn á það, að hrekja rök þau, sem fram hafa komið um kostnaðinn, sem hið væntanlega skip kemur til að baka ríkissjóði. Einkum verð jeg að segja það um háttv. frsm. meiri hl., að hann hefir oft sýnt virðingarverða viðleitni til þess að vera sparsamur, en nú er hann svo haldinn af áhuga fyrir þessu strandferðaskipi, að hann kemur ekki auga á neitt annað. Bæði hv. frsm. minni hl. og hv. þm. N.-Ísf., og raunar fleiri, hafa flutt fram svo góð rök í þessu máli, að ekki þarf um að bæta. Hv. frsm. meiri hl. hefir að vísu leyft sjer að kalla rök þessi rakaleysu, en það sýnir aðeins hina fullkomnu blindni hans í málinu og að hann verður sjálfur að veifa slagorðum í stað skynsamlegra raka.