29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í C-deild Alþingistíðinda. (2906)

53. mál, strandferðaskip

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hæstv. atvrh. er hjer ekki við, vegna þess að hann er bundinn við umr. í Nd. En hann hefir að öllu leyti haft vandann af þessu máli nú á þingi og er því kunnugri því en jeg, og skal jeg því fátt eitt um það segja.

Hæstv. 1. landsk. gerði ráð fyrir því, að stjórnin vildi svæfa þetta mál í nefnd. Jeg veit nú ekki vel, hvað hann hefir fyrir sjer í þessu, nema honum sýnist sjálfum frv. þetta vera svo úr garði gert, að sú meðferð væri ekki ósennileg. Jeg veit ekki til, að það hafi verið gefin nein bending um þetta, og hlýtur það því að vera sprottið upp í hans eigin meðvitund.

Um málið get jeg sagt það, að frá fjárhagslegum ástæðum er það varhugavert. Þó væri ekki um það að sakast, því að lán mætti taka til slíks, ef sjerstök nauðsyn væri fyrir hendi eða hagsmunavon í aðra hönd. En mjer heyrðist annað á ræðu háttv. 1. landsk. Aðalbreytingin verður sú, að Esja fer þrem sinnum á mánuði kring um land og dvelst 5 10 mínútur á hverri höfn, rjett til þess að afgreiða farþega og ef til vill taka við lifandi gripum, en hafa aftur sem minsta vöruflutninga. Þetta á að verða til þess að bæta afkomu Esju, en það verður nú eitthvað annað. Rekstrarreikningur Esju frá 1925 — síðari reikninga hefi jeg ekki — sýnir, að tekjur skipsins af vörugjöldum hafa verið 149 þús. kr. og af farþegum 10 þús. kr. meira, eða 159 þús. kr. Nú er verið í óða önn að leggja vegi, og stendur til að leggja veg milli Faxaflóa og Norðurlands. En hann mun einmitt svifta Esju og væntanlegt strandferðaskip miklum farþegaflutningi. Þegar vegur þessi er kominn, mun fólksflutningurinn hjeðan til Eyjafjarðar og jafnvel til Suður- Þingeyjarsýslu fara fram á landi mestan hluta árs og allan þann hluta ársins, sem mest eru ferðalögin. Það er því óálitlegt að ætla, fám árum áður en þetta kemst í kring, að taka upp þá tilhögun, sem háttv. þm. (JJ) hefir nú gylt svo mjög, sem sje, að gera strandferðaskip það, sem við nú höfum, að póst- og fólksflutningaskipi eingöngu. Tilkostnaðurinn eykst eftir vegalengdinni, sem skipið siglir, en tekjurnar minka, þegar ekki er tími til þess að taka við og afhenda vörur á höfnunum. En vörugjaldið hefir verið um helmingurinn af tekjum Esju. Fyrir mikið af vörunum hefir þó ekki verið greitt fult flutningsgjald, því að mikið hefir verið flutt af vörum fyrir skip Eimskipafjelagsins á hinar smærri viðskiftahafnir Esju, fyrir millilandaflutningsgjald, sem svo skiftist á milli hennar og Eimskipafjelagsins. Farmgjaldsupphæðin er því ekki rjett mynd af því, hve miklir flutningarnir hafa verið með Esju hingað til. Jeg sje ekki, að það sje haganlegt, að flutningarnir skiftist þannig, að fólksflutningurinn verði með því skipinu, sem hraðara fer, en vöruflutningurinn með því, sem hægar fer, nema ef vera skyldi að því leyti, að ferðunum fjölgar. En þó að það sje auðvitað þægilegt að fá fleiri ferðir, þá vegur þar á móti kostnaðurinn fyrir ríkissjóð. Jeg ímynda mjer, að nýja skipið komi nú til að kosta um 600 þús. kr., og eftir þeirri reynslu, sem hingað til er fengin af strandferðum, tel jeg okkur sleppa vel, ef árlegur halli þessara tveggja skipa verður ekki meira en tvöfaldur halli Esju einnar. En hætt er nú við, að hann verði meiri. Því að útgerðarkostnaður Esju er nú um 450 þús. kr. á ári. Og þó að þessi upphæð tvöfaldist ekki alveg, þá verður þó útgerðarkostnaður tveggja skipa sú upphæð, sem slagar hátt upp í hana tvöfalda. Ekki er heldur nein trygging fyrir því, að samanlagðar tekjur beggja skipanna verði meiri en Esju einnar, eða rúmlega 300 þús. kr. Jeg gæti ímyndað mjer, að rekstrarkostnaður þessara beggja skipa kæmist upp í 800 þús. kr., en tekjurnar verði aftur á móti ekki meiri en um 100 þús. kr. Verður þá tillag ríkissjóðs um 100 þús. kr., í stað þess, að það er nú um 150 þús. kr. til Esju. — Jeg heyrði ekki, að háttv. 1. landsk. hefði lagt málið neitt niður fyrir sjer, eða að annarsstaðar hefði verið gerð nokkur skynsamleg áætlun um það. Ef leggja á fram aukið tillag úr ríkissjóði til strandferða, sem nemur máske 200 til 250 þús. kr., þá held jeg, að þm. þeir, sem fjallað hafa um fjárlagafrv., geti sjeð það í hendi sjer, að peningar verða ekki teknir til þess úr ríkissjóði, nema feld verði niður tilsvarandi upphæð til verklegra framkvæmda, sem nú er unnið að í landinu. Það er auðvitað rjett, að reyna að bæta úr þörfum þeirra smáhafna, sem lakast verða úti með samgöngur. En það verður að gerast með skynsamlegum álögum á ríkissjóð. Það verður heldur ekki hjá því komist að halda uppi nauðsynlegum umbótum í þessum efnum, enda er nú reynt með flóabátunum að bæta úr hinni brýnustu þörf.

Þegar jeg sagði, að útgjaldaaukinn fyrir ríkissjóð mundi verða um eða yfir 200 þús. kr., tók jeg ekki beinlínis tillit til þess, að á hvers árs fjárlögum hljóta að koma vextir og afborganir af skipsverðinu, sem yrði ekki minna fyrst um sinn en 50–60 þús. kr. á ári. En sú upphæð er fyrir því, ef jeg hefi áætlað rekstrarhalla Esju hærri en hann reynist, vegna lækkandi verðlags og hækkandi peningagildis í landinu.

Háttv. 1. landsk. vildi bera hjer saman samgöngubætur þær, sem gera á í Árnessýslu. En það er nú svo, eins og hann tók fram í umr. um það mál, að það er ekki sjeð fyrir endann á því, hvort sú leið, sem þar er reynd, leiðir til úrlausnar á málinu. En eftir því sem frv. þetta er orðað, er hreint og beint skylt að láta það koma til framkvæmda, eða byggja skipið, og það mjög fljótt.

Jeg geri nú ráð fyrir því, að málið fari til nefndar og fái þar nákvæma athugun. Sjerstaklega vænti jeg þess, að fjárhagshliðin verði athuguð, sem því stóra fjármáli sæmir.

Þetta mál var víst í samgmn. í Nd. og mun þá að líkindum ganga til sömu nefndar hjer.