15.03.1927
Neðri deild: 30. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í C-deild Alþingistíðinda. (2923)

72. mál, fiskimat

Ólafur Thors:

Vegna þess að frsm. (SvÓ) er veikur, hefir það orðið að samkomulagi, að jeg hjeldi uppi svörum af nefndarinnar hálfu. — Hv. þm. Borgf. (PO) flytur brtt., sem hann hefir gert grein fyrir. Jeg er honum þakklátur fyrir það, að jeg veit, að fyrir honum vakir alt gott í garð sjávarútvegsins. En hinsvegar er jeg þess fullviss, að honum hefir í þetta skifti missýnst og að honum tekst ekki með tillögum sínum að ná markinu.

Jeg skal því gera grein fyrir því, hvað fyrir nefndinni vakti með till. sínum. Nefndin vill afnema skyldumat á saltfiski, sem selst innanlands. Samkvæmt lögum á sá fiskur að metast, en nefndin álítur, að ef ekki á að flytja hann út óverkaðan, sje óþarft að hafa á honum skyldumat, en auðvitað er kaupanda í sjálfsvald sett að krefjast þess af seljanda, að fiskurinn sje metinn. Oft getur staðið svo á, að kaupandi sje viðstaddur og geti sjeð fiskinn, eða haft mann í þjónustu sinni, sem metið getur, hvort fiskurinn sje góður eða ekki, og sem hann treystir eins vel og matsmanni. En slíkir menn vinna ódýrar en matsmennirnir. Og þótt við Íslendingar höfum gott af fiskimatinu, verðum við að hafa gát á framleiðslukostnaðinum. Og þar sem höfuðatriði matslaganna er ekki brotið með þessu, þá finst mjer rjett, að till. þessi nái fram að ganga. Höfuðtilgangur fiskimatslaganna er sá, að tryggja erlendum kaupendum góða vöru, og þótt þessi till. verði samþ., verður með henni ekkert úr því dregið. Breytingin sparar útgjöld, án þess þó að brjóta stefnu þá, sem liggur á bak við lögin.

Þá kem jeg að hinni brtt., að eftirlitsmaður fari um landið til þess að líta eftir matinu. Það vakti fyrir nefndinni að auka ennþá á öryggi um mat á fiskinum. Nefndin er viss um, að þess er full þörf, því að þótt matið hafi bætt vöruvöndun, er því ábótavant enn. Þetta vita útflytjendur manna best, því þeim berast að staðaldri háar kröfur, og því miður stundum rjettlátar, vegna þess að gæði vörunnar reynast önnur en matsvottorð segir til um. Það getur að vísu komið fyrir, að fiskurinn skemmist á útleið, en því er ekki um að kenna, þegar stærðir reynast rangar, svo sem þegar fiskur, sem átti að vera 16 tommur, hefir ekki verið nema 14. Þessar kröfur hafa útflytjendur orðið að greiða spönskum fiskkaupendum að nokkru, en hitt lent á kaupendum í bili; en hvernig sem það hefir skipast, hefir það samt lent og mun að endingu lenda á framleiðslunni. En það geigvænlegasta við það, ef matinu er ekki að treysta, er það, að við missum þau hlunnindi um greiðsluskilmála, sem við nú höfum. Greiðslan fer nú fram á þann hátt, að kaupandi opnar „kredit“, sem er þannig háttað, að banki hans skuldbindur sig til að greiða fult andvirði vörunnar gegn vissum skjölum. En trygging kaupanda liggur í matsvottorðinu. Reynist það rangt, missum við fyr eða síðar þessi hlunnindi, sem við höfum lengi verið að ná.

Það hefir því vakað fyrir sjútvn. að herða á matinu og tryggja öryggi þess, og er þessi till. fyrsta sporið til þess, þótt hún sje mjög ófullkomin, hvorki fugl nje fiskur, og aðeins fyrsta spor í þá átt, er nefndin álítur rjett að stefna í. Við nefndarmenn urðum á eitt sáttir um það, að fara ekki lengra að þessu sinni, en væntum, að hægra yrði um vik á næsta þingi að koma hugmynd okkar í framkvæmd. En hin er sú, að skipaður verði einskonar matsstjóri yfir alt landið, er sje yfirmaður allra fiskimatsmanna, og hirði jeg ekki að þessu sinni að skýra nánar starfssvið það, er nefndin ætlar honum. Í bili ætlumst við aðeins til, að atvrh. velji einn mann til þess að gera tilraun með þetta á næsta sumri. Hugmyndin er sú, að hann gefi svo atvrh. skýrslu um starf sitt, hvað helst hann hafi sjeð ábótavant og hvað gera mætti. Svo legði atvrh till. hans fyrir Fiskifjelagið, Fjelag íslenskra botnvörpuskipaeigenda o. fl. til athugunar og umsagnar. Er ekki að efa, að margt gagnlegt mundi af hljótast, og væntir þá nefndin, að hugmyndin næði fram að ganga á næsta þingi. Hv. þm. Borgf. taldi aðra leið heppilegri, en báðar stefna þó að sama markinu, að tryggja matið. En þá er að meta, hver leiðin er styst að markinu. Jeg hefi það að athuga við till. hv. þm. Borgf., að 5 manna fundur komi í stað eftirlitsmannsins, að þar vantar alveg úrskurðarvald. Auk þess mundi væntanlegur matsstjóri hafa ágæta aðstöðu til þess að sýna matsmönnum, hvernig fiskurinn eigi að vera, því hann mundi ferðast um að sumarlagi, meðan verið er að verka fiskinn. En yfirfiskimatsmennirnir hafa ekki aðstöðu til að skoða fisk, meðan þeir eru hjer að rökræða reynslu sína, því að þeir mundu halda fundinn að vetrarlagi, þegar minst er að gera. Jeg held yfirleitt, að enginn vafi sje á því, að við færðumst nær markinu með því að velja yfirmann, hæfan til forystu á þessu sviði, heldur en með því, að 5 menn kæmu saman. Hitt er sjálfsagt, að þessi yfirmaður boðaði matsmennina við og við á fund, en hefði þar sjálfur úrskurðarvaldið. Um það hefir mikið verið rætt í nefndinni.

Jeg vil taka undir það með hv. þm. Borgf., að það er ágætt, að fiskimatsmennirnir skreppi til neyslulandanna. Jeg veit vel, að þeir ná mestri fullkomnun í starfi sínu, ef þeir sjá með eigin augum, hvaða kröfur neytendurnir gera til verkunar fiskjarins og tala við þá menn, sem hafa þekkingu og reynslu á þessu sviði. En samkv. till. hv. þm. Borgf. er aðeins ætlast til, að hver þeirra fari sem svarar 10. hvert ár, og þá held jeg, eins og líka nefndin álítur, að markinu verði betur náð, ef sú leið er farin, sem sjútvn. stakk upp á. En hún er sú, að matsstjóri ferðist svo oft um landið sem kostur er á, helst að sumarlagi, en fari á ári hverju að vetrarlagi til einhverra neyslulandanna. Á eftirlitsferðunum talaði hann svo við yfirfiskimatsmennina og segði frá hinni nýju reynslu, sem hann hefði aflað sjer. Jeg get í fæstum orðum sagt, að flest af því, sem háttv. þm. Borgf. leggur til, það hefir nefndin hugsað sjer að næði fram að ganga. Yfirfiskimatsmennirnir eiga að koma saman til fundar undir forustu þessa eftirlitsmanns, og ný reynsla verður flutt heim á ári hverju við ferðir hans til útlanda. En nefndin álítur, að till. hans sjeu með öllu óþarfar, ef hugmynd nefndarinnar nær fram að ganga. Jeg vildi að endingu segja það, að jeg skil vel, að ráðgjafar háttv. þm. Borgf., sjálfir yfirmatsmennirnir, kæri sig ekkert um neinn yfirmann og álíti sig einfæra að vinna þetta verk. En það er engin sönnun þess, að verkið geti ekki orðið betur unnið.