15.03.1927
Neðri deild: 30. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í C-deild Alþingistíðinda. (3041)

79. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Tryggvi Þórhallsson:

Út af þessari skýrslu, sem hæstv. atvrh. vill gera að engu, vil jeg aðeins taka það fram, að hún gefur mynd af árangri gengishækkananna, bæði 1924 og 1925. Þessar opinberu, hlutlausu tölur sýna alveg öfuga mynd af því, sem ætti að sjást, ef kenningar gengishækkunarmannanna væru framkvæmanlegar. Krónan og dagsverkið hækkar — hvorttveggja eftir mati. — Jeg get svo enn bætt því við, að hjá þingmanni, sem á sæti í þessari hv. deild, og sem jafnframt á sæti í nefnd, sem vinnur að verðlagsskráningu, hefi jeg fengið að vita það, að í hans umdæmi muni dagsverkið hækka enn meira.

Jeg skal svo ekki tala mikið um afstöðu hæstv. forsrh. í þessu máli. En það er dálítið skrítið, að við slíka umr. sem þessa, skuli hann halda til inni í öðru herbergi, og skuli ekki koma þaðan, hversu hart sem að honum er gengið. — Hv. 2. þm. G.-K. hafði um það samlíkingu, hvernig hæstv. ráðh. stæði sig í þessari hólmgöngu. Það þarf engin orð að hafa um það, því að sjón er sögu ríkari. Hæstv. ráðh. er flúinn af hólminum.