11.03.1927
Neðri deild: 27. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í C-deild Alþingistíðinda. (3050)

82. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Árni Jónsson:

Mjer þykir vænt um að heyra, að hv. þm. Str. (TrÞ) hefir nú haft hamskifti og íklæðst hempunni og talað af þeirri hógværð, sem honum er sjaldan eiginleg. Þætti mjer vænt um, ef hann gæti líka komið á sáttum við sinn innra mann, jafn vel eins og sættunum í búnaðarfjelaginu.

Hv. þm. (TrÞ) byrjaði á því, að segja, að það væri spursmál, hvort hann ætti að svara mjer. Þetta er alveg í samræmi við alla afstöðu hans til þessa máls, að þegja jafnan, þegar hann er rekinn á stampinn. Hann sagði, hv. þm., að það væri fruntaskapur að halda uppi þessari deilu við sig, líklega af því að hann hefir nú íklæðst hógværðinni sjálfur. Hann sagði líka, að það væri ekki rjettur vettvangur, að tala um þetta mál hjer í deildinni, heldur hjá landbn. En jeg vil benda honum á, að stjórn búnaðarfjelagsins, sem bar ábyrgð á þessu sem slík, getur ekki komið til landbn., vegna þeirrar einföldu ástæðu, að hún er ekki til.

Það er rjett hjá hv. flm., að við höfum rætt svo mikið um flutning áburðar hjer, að það er ekki ástæða til þess að fara langt út í það mál. Enda ætla jeg ekki að fara að munnhöggvast við hv. flm. út af orðalagi frv., sem allir sjá, að er mjög klaufalegt. (TrÞ: Það lagar nefndin góðfúslega í hendi sjer). Já, nefndin getur að sjálfsögðu lagað það.

Með frv. er ekki ráðin bót á því, sem hv. flm. sagði að væri aðalkjarni málsins, að menn út um dreifðar bygðir landsins fengi sömu aðstöðu til ræktunar og menn í kaupstöðum. Sú aðstaða fæst ekki með því, þótt áburðurinn sje sendur flutningsgjaldsfrítt á ýmsar hafnir, heldur með hinu, að menn þeir sem áburðarins þarfnast, hafi góð skilyrði til þess að sækja markað til þeirra kauptúna.

Hv. flm. sagðist búast við því, að mjer gengi ekki til velvild til búnaðarfjelagsins, að jeg skyldi tala svo sem jeg hefi gert. Jæja, mjer finst nú satt að segja, að búnaðarfjelagið geti ekki hrósað sjer af því að hafa þá stjórn, sem allir treysti. Þó er það ekki árás á fjelagið, að jeg finni að gerðum þess eða komi fram með fyrirspurnir.

Eitt atriði var merkilegt í ræðu hv. flm. Hann vildi koma sjer undan því, að gefa landbn. skýrslu, með því að hann hefði gefið henni skýrslu í fyrra. Jeg veit ekki um þetta, en svo var að heyra á hv. flm., sem hann teldi sig ekki skyldan til að gefa nefndinni skýrslu, heldur aðeins einstökum mönnum í henni. Jeg vil benda honum á það, að þessi nefnd er kosin á hverju ári, og nú í ár er það ekki sama nefndin og í fyrra, heldur sú nefnd, sem kosin var af þessu þingi. Og jeg lít svo á, að stjórn búnaðarfjelagsins hafi brotið af sjer, með því að tala ekki við nefndina áður en hún tók ákvarðanir sínar. Og í sambandi við þetta vil jeg spyrja hv. flm., hvort sá maðurinn, sem nú er farinn úr stjórn búnaðarfjelagsins, Vigfús Einarsson, hafi sæst á málið, eins og þeir hinir. Það er nauðsynlegt að fá vitneskju um þetta, því að hann var aðili, ekki síður en hv. þm. Str. og þeir hinir. Jeg vil biðja hv. flm. um skýr svör við því, hvort hann og Magnús Þorláksson hafi borið málið undir Vigfús. Og hafi hann ekki sæst á málið, þá liggur nærri að ætla, að hann hafi farið úr stjórninni vegna stefnufestu sinnar; en hinir sitja, vegna þess að þeir beygðu sig, — hafa hlaupið frá sínum fyrri skoðunum um það, hvað búnaðarfjelaginu væri fyrir bestu.

Hv. flm. virðist vera mjög hróðugur yfir málalyktunum, og getur kanske verið það, að því leyti, að hann á enn sæti í stjórn Búnaðarfjelags Íslands. En það má vera, að sá sigur verði honum nokkuð dýrkeyptur. Það er ekki nóg að berja sjer á brjóst og tala um sáttfýsi. Við erum nú orðnir slíkum látum vanir hjá þessum hv. þm. Mjer þætti ekki undarlegt, þó að komið væri töluvert sigg á brjóstið á honum. Svo oft hefir hann barið sjer á brjóst út af þessu máli. Jeg fyrir mitt leyti get ekki fallist á, að það sje neitt sjerstakt gleðiefni, þótt stjórn búnaðarfjelagsins hafi sæst á málið. Það væri alveg hliðstætt dæmi, ef ríkisstjórnin hefði vikið einhverjum embættismanni úr stöðu sinni, en verkið sætt mótmælum, og hún sjeð þann kost vænstan að breiða yfir það og taka manninn í sátt, af ótta við að missa völdin. Jeg held, að meðan málið er ekki frekar upplýst en nú er muni fjöldi manna líta svo á, að ekki sjeu öll spilin lögð á borðið, og ennþá muni vera eitthvað óhreint í pokahorninu.

Jeg held, að menn hefðu felt sig betur við úrslitin, ef búnaðarþingið hefði komist að niðurstöðu í málinu, hvort sem niðurstaðan hefði orðið á þá leið, að Sigurður væri sekur og ætti að láta af störfum, eða ekki. Því hafi ákæra búnaðarfjelagsstjórnarinnar á hendur Sigurði verið rjettmæt, þá átti hann að láta af störfum, ekki síst, þegar tekið er tillit til þess, hvernig hann svaraði ákærunni í nýútkomnu riti. Hafi stjórn búnaðarfjelagsins hinsvegar farið með rangar sakargiftir, þá átti hún að sjálfsögðu líka að koma fyrir dóm.

Hv. flm. fór um það mörgum orðum, að ekki mætti eiga sjer stað sundrung milli þeirrar stjórnar, sem hefði búnaðarmálin með höndum. Það er rjett. Hún verður að geta unnið saman. En mest er um vert, að stjórn búnaðarfjelagsins sje skipuð skapföstum og rjettsýnum mönnum, sem ekki snúast eftir því, sem vindurinn blæs.

Jeg held óhætt sje að fullyrða, að almenningur sætti sig ekki við þessi málalok. Hvað sem hv. flm. segir, má við því búast, að upp úr þessu slitni, og þá má búast við, að síðari leikurinn verði verri hinum fyrri. Þá koma upp allar þær sakargiftir, sem mönnum nú kemur saman um að grafa í bili.

Jeg skal nú ekki hafa um þetta fleiri orð. Hv. flm. fór svo hægt af stað, að jeg vildi ekki fara hörðum orðum um ræðu hans. Jeg skal aðeins benda honum á það að lokum, að hógværðin er því aðeins dygð, að ekki sje með henni verið að komast hjá að leiða í ljós það, sem ekki þolir dagsbirtuna.