19.03.1927
Neðri deild: 34. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í C-deild Alþingistíðinda. (3070)

82. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg hafði eiginlega ætlað að spara mjer ræðuhöld um þetta mál, þangað til það kæmi frá nefnd. En hv. 2. þm. Árn. gaf mjer sjerstakt tilefni til að standa upp núna. Hv. þm. sagði sem sje, að stjórn Búnaðarfjel. Ísl. væri kosin pólitískt og flokkarnir tilnefndu menn í stjórnarnefndina. Þetta verð jeg að lýsa hrein ósannindi, að því er til Íhaldsflokksins tekur. Aldrei hefir verið minst einu orði á slíka tilnefningu á nokkrum fundi flokksins, og hv. 1. þm. Rang. segir mjer, að sama megi segja um Framsóknarflokkinn. En alt virðist benda í þá átt að þeir, sem stjórna búnaðarfjelaginu, vilji skjóta sjer bak við hina pólitísku flokka. Formaður fjelagsins, hv. þm. Str., kallar sig „fulltrúa Framsóknarmanna“, og býðst til að gefa umbjóðanda sínum, Framsóknarflokknum, skýrslu um málið. Þetta verð jeg að telja algerlega ósæmilegt af hv. þm., að neita að gefa nema einum þingflokki skýrslu um annað eins mál og það, sem hjer um ræðir. (TrÞ: Þetta er algerlega rangt hjá hv. þm.!). Jeg skrifaði orð hv. þm. hjá mjer, þegar hann talaði þau. Hann kvaðst skyldu gefa umbjóðanda sínum skýrslu um málið (TrÞ: Já, landbúnaðarnefndum). Það var ekki fyr en síðar í ræðunni, að hv. þm. vildi lofa landbúnaðarnefndum að fljóta með.

Annars er það undarlegt, að ekki má á það minnast, að hjer sje hneykslismál á ferðum, og að framkoma búnaðarþingsins sje hneykslanleg. Þetta er þó öllum ljóst, ekki síst bændum. (TrÞ: Fulltrúar bænda voru þó ánægðir). Já, það er nú svo, en hvernig var málið undirbúið fyrir þá bændafulltrúa? Það er erfitt að koma fram öllum gögnum um þetta mál, því að stjórn búnaðarfjel. hefir lagt hömlur á, að það gengi sinn rjetta gang. Og það var sú stjórn, sem beitti valdi sínu til að koma þeim mönnum, er henni sýndist, í „rannsóknarnefndina.“

Mig langar ekki til að lengja umræður um þetta mál, en það vil jeg taka fram, að jeg get aldei fylgt því, að koma pólitík inn í búnaðarfjelagið. Og þeir, sem vilja starfa þar á pólitískum grundvelli, gera minna gagn en ógagn. Og jeg veit ekki betur en að þegar málið var farið að skýrast fyrir bændum, hafi það orðið almenn krafa þeirra, að stjórn búnaðarfjelagsins segði af sjer. Sú krafa varð almennust og eindregnust, er stjórn búnaðarfjelagsins hafði gefið út skýrslu sína.

Það þýðir ekkert að ætla sjer að dylja almenning hins sanna um það, hvort Sigurður Sigurðsson sje sekur af því, sem á hann hefir verið borið. Almenningsálitið hefir ekki aðeins heimild, heldur skyldu til að sýkna Sig. Sig. eftir þeim málalokum, sem urðu á búnaðarþingi. Það hefir líka þegar sýknað hann. Þeir, sem halda vilja uppi vörn fyrir framkomu stjórnar búnaðarfjel., ættu að taka sjer að einkunnarorðum það, sem hv. 2. þm. Árn. sagði áðan í öðru sambandi: „Það skiftir engu máli, þótt jeg hafi sagt það.“

Fyrir hönd flestra bænda á Vesturlandi vil jeg loks krefjast þess, að Sigurður Sigurðsson fái að halda störfum sínum að því er veit að íslenskum bændum, það er leiðbeiningar í jarðrækt o. fl. Ef stjórn búnaðarfjel. verður ekki við þeim tilmælum, skal hún enn fá orð í eyra.