23.03.1927
Neðri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í C-deild Alþingistíðinda. (3083)

95. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg ætla ekki að segja margt við þessa umr., aðeins vekja athygli hv. samgmn. á því, að á seinni árum hefir ekki verið venja að samþ. breytingar á símalögum, nema landsímastjóri rannsakaði og samþykti, að símalína sje lögð þá leið, sem farið er fram á. Og það er vitanlega alveg nauðsynlegt, til þess að tryggja, að ekki sjeu tekin nein gönuhlaup.

Út af því misrjetti, er hv. flm. gat um, sökum dráttar á byggingu loftskeytastöðva á Norðurlandi, vil jeg taka það fram, að meira misrjetti hafa sumar aðrar sveitir orðið að líða, sem hefðu getað vonast eftir síma samkvæmt hinum fyrstu símalögum, sem sett voru. Þær hafa verið beittar því órjettlæti, að vera settar hjá um síma til þessa, þótt þá væru gefin loforð um, að þær ættu að ganga fyrir. T. d. má heita að Norður-Ísafjarðarsýsla sje símalaus, þegar frá er skilið símasambandið milli Borðeyrar og Ísafjarðar.