01.03.1927
Neðri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í D-deild Alþingistíðinda. (3165)

47. mál, lögheimili og byggðarleyfi

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það eru aðeins fáein orð til hv. 4. þm. Reykv. (HjV). Hann var að tala um fátækralögin og dæma þau út frá sínu sjónarmiði. Jeg vildi aðeins segja honum, að jeg álít fullsnemt fyrir hann að dæma um þau, áður en þau hafa komið til atkvæða hjer í þinginu. Jeg get ekki heldur tekið við ákúrum fyrir slæman undirbúning á þeim, fyr en þingið hefir dæmt um þau.

Þegar jeg benti hv. þm. á, að hann hefði sjálfur verið með því að leggja höft á innflutning manna hingað til bæjarins, vildi jeg sýna honum, að hann er í ósamræmi við það, sem hann sagði í dag, sem sje að hafa engar skorður gagnvart fólki í atvinnuleit. Þetta tvent getur ekki samrýmst. Því að slík auglýsing hlýtur að eiga að vera skorður við innflutningi fólks í atvinnuleit; annars er hún meiningarlaus.

Viðvíkjandi því, hvort jeg hefi minni hluta hjer í hv. deild, þá er hv. 4. þm. Reykv. (HjV) innan handar að fá það upplýst á þinglegan hátt. Jeg þarf ekki að kenna honum, hvernig það er gert; vonandi, að hann sje svo vel að sjer í þingsköpum. En jeg vil líka benda honum á, að það eru tvær deildir í Alþingi; hin deildin hefir líka nokkurn rjett, og verður að taka tillit til hennar, þegar dæmt er um það, hvernig meiri hluta og minni hl. er háttað í þinginu.