28.03.1927
Efri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í D-deild Alþingistíðinda. (3310)

101. mál, styrkur handa stúdentaefnum frá gagnfræðaskólanum á Akureyri

3310Einar Árnason:

Það er aðeins vegna lítillar fyrirspurnar til hv. flm. (JKr), að jeg kvaddi mjer hljóðs. Mjer fanst það ekki koma nógu skýrt fram í ræðu hans, hvernig þessum styrk skuli varið, og sama er að segja um greinargerð þá, er till. fylgir, að mjer finst ekki, að hægt sje að lesa út úr henni, hvað eiginlega sje meint með orðinu „ferðastyrk“. Er það aðeins fargjald hingað suður og til baka norður? Eða er það meira? Er þar með átt við annan kostnað, sem af förinni leiðir, dvalarkostnað hjer í Reykjavík á undan prófinu og kostnað við undirbúning prófsins, sem gera má ráð fyrir, að piltar þurfi að kaupa?

Þessu vildi jeg gjarnan fá svarað, áður en jeg á að greiða atkv. Í þessu máli, og eins er hitt, hvort samþ. þessarar þáltill. hefði það í för með sjer, að stúdentaefni, sem stundað hafa þetta framhaldsnám við skólann á Akureyri, megi vænta þessa styrks framvegis, eða á hverju ári. Mjer finst till. þessi, ef hún nær samþ., skapa einmitt slíkt fordæmi, og því virðist mjer nauðsynlegt, að það komi þegar fram í umr., hvernig eigi að skilja hana.

Eitt atriði var það í ræðu hv. flm., sem jeg finn ástæðu til að mótmæla. Hann sagði, að till. okkar, sem borin var fram í Sþ., um rjett Akureyrarskóla til þess að útskrifa stúdenta, hefði verið brot á háskólalögunum. Þessu var að vísu haldið fram í umr. um daginn í Sþ., en þó að það væri gert, get jeg samt ekki fallist á, að það sje á neinum rökum bygt. Enda hefi jeg fengið þær upplýsingar síðan deilt var um brjef háskólaráðsins í Sþ., að sjálft háskólaráðið hafi ekki verið sammála um, hvernig skilja eigi 17. gr. háskólalaganna. Tveir af fimm, sem þar eiga sæti, vildu taka það gilt, að Akureyrarskólinn útskrifaði sína stúdenta, en þeir beygðu sig fyrir meiri hl. En þetta kemur ekki þessu máli við, eins og því er nú komið. Stúdentamir hljóta að vera stúdentar, hvaðan svo sem þeir koma og hvað sem háskólinn segir um það. Enda væri ekki loku fyrir það skotið, að farin yrði sú leið, að erlendum háskólum gæfist kostur á að kveða upp sinn dóm í þessu máli, og þá á þann hátt, að þeir annaðhvort veittu þessum stúdentum viðtöku eða þá synjuðu þeim.