29.04.1927
Efri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í D-deild Alþingistíðinda. (3328)

101. mál, styrkur handa stúdentaefnum frá gagnfræðaskólanum á Akureyri

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hv. 1. landsk. (JJ) var að spyrja um það, hvort þessari till. mundi verða framfylgt, ef hún yrði samþykt, og þá jafnvel, hvernig það myndi verða, og þó hv. þm. (JJ) spyrði ekki beinlínis um það, þá skildist mjer hann helst eiga við, hve mikill styrkur myndi verða veittur.

Það mun vera búið að lýsa yfir því, af þeim ráðherra, sem það mál heyrir undir, að hann muni framkvæma þá styrkveitingu, ef hún verður samþykt, og hefi jeg engu við það að bæta. Jeg vil þó leiðrjetta það, sem hv. 1. landsk. (JJ) sagði, að jeg hefði sagt, að jeg teldi mig ekki bundinn af till. Jeg sagði aðeins, að það mundi verða að gæta sparnaðar, eins og á öðrum sviðum, og til þess gefur till. líka fult tilefni, nefnilega að greiða ekki fje fram yfir það, sem nauðsynlegt er, þar sem till. fer fram á, að ekki verði greiddur ferðakostnaður, heldur ferðastyrkur, og skilst mjer það þá hugsað þannig, að þeir, sem væru svo efnum búnir, að þeir þyrftu ekki mikils með, fengju þá minna, en þeir, sem fátækari væru, nokkru meira, og þetta virðist mjer líka koma fram í nál., þó að þar sje ekki aðeins talað um ferðastyrk, heldur líka dvalarstyrk.