07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í D-deild Alþingistíðinda. (3346)

126. mál, eignar- og notkunarrétt hveraorku

Sveinn Ólafsson:

Jeg stend ekki upp til þess að mótmæla till. Jeg álít einmitt, að hún eigi nokkum rjett á sjer. Jeg vildi aðeins gera fáar aths. út af orðum hv. flm. (JakM). Hann virtist líta svo á, að eftir væri að setja lög um eignar- og afnotarjett hveraorku, en ekki annarar vatnsorku. En jeg lít svo á, að búið sje að setja lög um þetta hvorttveggja með vatnalögunum frá 1923, 9. og 10. gr. Þar er fastákveðinn eignar- og afnotarjettur landeiganda að hverum og meðal annars lagðar á hann þær kvaðir að láta hveraorku fala í þarfir almennings. Jeg held því, að löggjöfin sje í þessu efni fullkomlega skýr. En jeg get ímyndað mjer, að þörf sje á lögum um það, á hvern hátt þessi almenningsnot megi verða eða hvenær megi skylda eigendur til að láta orkuna eða heita vatnið af hendi.

Um sjálfan eignar- og umráðarjettinn tel jeg að sje alveg skýrt ákveðið í þessum tilvitnuðu greinum vatnalaganna, En jeg er við því búinn að greiða till. atkv., þótt jeg hafi annan skilning á verkefni stjórnarinnar við undirbúning frv. um þetta efni en hv. flm.