12.05.1927
Efri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í D-deild Alþingistíðinda. (3363)

121. mál, landsspítali

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg skal svara spurningu hv. 5. landsk. (JBald) viðvíkjandi Kleppi. Eftir því sem stjórninni er frá skýrt, mun láta nærri, að sú fjárhæð, sem veitt er í fjárl. 1928 til byggingarinnar á Kleppi, muni nægja til þess að fullgera húsið, auk þess, sem veitt er á yfirstandandi ári. Mjer finst því ekki geta legið fyrir að taka lán til að fullgera bygginguna. Það er þá aðeins um það að ræða, hvort stjórnin treysti sjer til að leggja fram nægilegt fje í sumar, gegn endurgreiðslu úr ríkissjóði á næsta ári. Um þetta get jeg ekki gefið ákveðið svar. Það hefir verið afráðið af stjórninni að sjá til fram á sumarið, áður en tekin væri ákvörðun um það, hvort hraða skyldi verkinu með því að taka nokkuð af fjárveitingu næsta árs fyrirfram. Um eiginlega lántöku skilst mjer að ekki geti verið að ræða.

Þá spurði hv. þm., hvort jeg hjeldi, að lög fyrndust. Það var ekki það, sem jeg átti við. En ef til kæmi, að taka ætti lán í útlöndum, má gera ráð fyrir, að lánveitanda þætti tortryggilegt, ef ekki væri hægt að vísa í neina yngri heimild en frá 1919. Efnahagsbreytingar og sveiflur í fjármálum eru svo tíðar nú, að það væri dálítið óvanalegt, ef stjórnin þyrfti að nota svo gamla heimild, og því væri betra að geta vísað í eitthvað frá nýrri tíma. Það mundi eyða allri tortrygni, sem fram kynni að koma um það, að með lántökunni væri verið að ganga fram hjá vilja löggjafarvaldsins, sem nú er.