13.05.1927
Neðri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í D-deild Alþingistíðinda. (3378)

131. mál, uppmæling siglingaleiða og rannsókn hafnarbóta

Hákon Kristófersson:

*) Það er ekki til þess að andmæla þáltill. eða brtt., að jeg kvaddi mjer hljóðs. Jeg vil beinaþví til hæstv. stjórnar, þótt jeg telji sjálfsagt, að till. verði samþ., að jeg lít svo á, að framkvæmdir þessa verks geti ekki farið fram á undan slíkum mannvirkjum, er áður hafa verið samþ. fyrir fleiri árum. Fyrir nokkrum árum flutti jeg, ásamt Magnúsi Pjeturssyni, þá þm. Str., þáltill. um uppmælingu á siglingaleiðum á Húnaflóa og Breiðafirði.

En framkvæmdir á þessu hafa farist fyrir, sumpart af fjárhagslegum ástæðum og sumpart vegna þess, að stjórnin hafði ekki verkfróðum mönnum á að skipa. Jeg hafði hugsað mjer að bera fram brtt., en sá þess ekki þörf, þar sem áður liggur fyrir áskorun til stjórnarinnar. Aftur á móti vil jeg beina þeirri ósk minni til hennar, að úr framkvæmdum verði hið allra fyrsta. Vil jeg um leið geta þess, að rannsókn á lendingar- og hafnarbótum og uppmæling siglingaleiða má fela sitt hvorum, og má því framkvæma þetta í tvennu lagi.