24.03.1927
Sameinað þing: 5. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í D-deild Alþingistíðinda. (3452)

88. mál, stúdentspróf við Akureyrarskóla

Einar Árnason:

Hæstv. kenslumrh. (MG) hafði það eftir einum kennara mentaskólans, að kenslan við framhaldsnámið á Akureyri hefði verið öðruvísi en kenslan hjer. (Atvrh. MG: Að því er prófin snertir). Já, það hafa ekki verið haldin nein próf. En það mátti líka skilja ummælin svo, að kenslan sjálf hafi farið öðruvísi fram, t. d. að ekki hafi verið notaðar sömu bækur. Þetta fer nú nokkuð eftir því, hvaða merkingu við leggjum í orðið „öðruvísi“. En á þessu stigi málsins álít jeg ómögulegt um það að segja hvort kenslan fyrir norðan hefir verið betri eða verri en hjer. Það verður prófið að sýna. En hafi kenslan farið öðruvísi fram, þá hlýtur það að vera enn örðugra fyrir nemendurna að ganga undir próf hjer. Þetta er einmitt mikilsvert atriði, því að mjer er nær að halda, að til þess að nemendur að norðan geti staðið á sporði meðalnemendum hjer, þegar til prófs kemur, þurfi þeir að vera sjerlega vel færir.

Þá kem jeg að þeirri margumtöluðu 17. gr. háskólalaganna. Jeg ætla með leyfi hæstv. forseta að lesa upp aðalefnið úr þeirri grein:

„Hver sá, karl sem kona, er lokið hefir stúdentsprófi við hinn almenna mentaskóla eða annan skóla honum jafngildan, á rjett á að verða skrásettur háskólaborgari“. Jeg þarf ekki að lesa lengra. Þegar það er athugað, að stúdentspróf hjer veitir rjett til innritunar í háskólann, er þar með slegið föstu, að háskólinn getur ekki neitað þessum mönnum um inngöngu.

En hvað er lærður skóli? Jeg er ekki viss um, að við, sem sæti eigum hjer á þingi, sjeum einbærir um að dæma um það. Það verður að gera greinarmun á þessu tvennu: að hafa rjett til þess að útskrifa stúdenta, og að eiga kröfu á því að ganga í háskólann.

Till. sú, sem hjer liggur fyrir, fer ekki fram á kröfu fyrir mennina til þess að ganga í háskólann. Þess vegna er alt tal um það vægast sagt rugl. Hitt er annað mál, þegar til háskólans kasta kemur að úrskurða, hvort hann skuli taka á móti mönnunum. Jeg get vel hugsað mjer, að háskólinn taki við þeim. Ef hann gerir það ekki, gæti þetta orðið dómstólamál. Hjer er sem sje enginn vettvangur til þess að kveða upp dóm um það.

Hæstv. kenslumrh. (MG) sagði út af orðum mínum um utanskólanemendur, að háskólinn hefði látið þá ganga undir próf áður en hann tæki við þeim. Þetta er alveg rjett, en hæstv. ráðh. (MG) láðist að geta þess, að latínuskólanemendur voru undir sömu syndina seldir. Mennirnir höfðu sama rjett eða sama rjettleysi, hvort sem þeir voru úr skóla eða utan skóla.

Hv. 2. þm. Reykv. (MJ) sagði, að þingið yrði að löggilda Akureyrarskólann, ef stúdentar þaðan ættu að fá rjett til inngöngu í háskólann. Þetta er ekki rjett nema að nokkuru leyti. Þingið þarf ekki einu sinni að löggilda Akureyrarskólann. Það getur stjórnin gert án íhlutunar þingsins. Mjer er ekki heldur kunnugt um nein lög, sem mentaskólinn hefir í þessu efni. Eftir því sem jeg veit best, starfar mentaskólinn ekki undir neinum lögum frá þinginu, heldur er hann rekinn eftir reglugerð, sem sett er af stjórnarráðinu. Stjórnin getur alveg eins sett slíka reglugerð fyrir Akureyrarskólann. En þetta er alt annað mál heldur en það, sem till. ræðir um.

Mjer þótti hv. þm. Ak. (BL) vera óþarflega gustmikill í minn garð. Jeg hefi lítið að honum vikið. Í fyrri ræðu minni var jeg aðallega að svara hæstv. ráðh. (MG). Hv. þm. (BL) virtist vera mjög móðgaður af því, að jeg hafði talað um blekkingu. Þetta orð hefir ef til vill ekki verið heppilegt. Það hefði líklega verið heppilegra að segja um hans ræðu, að hún væri rugl. Hv. þm. talaði mikið um það, að hann væri löglærður, en jeg ekki, og að jeg ætti þess vegna helst ekki að leggja til þessara mála. Þetta er engin röksemd.

Hv. þm. (BL) sló því föstu, að jeg bæri ekki skyn á, að ekki væri hægt að breyta lögum með þál. Ójá, þetta vissi jeg vel, enda er í þál. ekki farið fram á að breyta neinum lögum. Eða hvaða lögum ætti hún að breyta? Það vil jeg biðja hv. þm. að upplýsa. Ekki eru það lög mentaskólans, af því að þau eru engin til, ekki heldur háskólans, af því að háskólinn hefir ekki rjett til að útskrifa stúdenta, svo að þetta heyrir ekki undir hann. Jeg vildi sem sagt gjarnan fá skýringu á þessu atriði hjá hv. þm. Ak. (BL).

Um dagskrána er það að segja, að hún er, eins og hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) og jafnvel hv. 2. þm. Reykv. (MJ). hafa vikið að, mjög hæpin, svo að nærri heggur, að hún sje á móti þingsköpum, að minsta kosti eins og og hún var lesin hjer upp. Þá virðist svo sem hv. þm. Ak. (BL) sje ekki of vel að sjer í lögum.

Hv. þm. Ak. (BL) ætlar með þessari dagskrártill. að veita stúdentunum ferðastyrk hingað suður til þess að ganga hjer undir próf. En við, sem að þessu máli stöndum, förum fram á rjettindi skólasveinum þessum til handa, til þess einmitt að geta tekið sitt stúdentspróf við skólann á Akureyri.

Hitt má vel vera og er ekki óhugsandi, að hv. þm. Ak (BL) gefist tækifæri til á þinginu, að greiða atkvæði um styrk í þessu skyni. En það verður þá reynt að koma þeim styrk svo fyrir, að hann ríði ekki í bága við þingsköpin. Jeg get því ekki skoðað þessa dagskrártill. öðruvísi en tilraun hv. þm. (BL) að koma þessu máli fyrir kattarnef með nokkurskonar hundsbótum.