25.04.1927
Sameinað þing: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í D-deild Alþingistíðinda. (3491)

71. mál, áfengisvarnir

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hv. aðalflm. þessarar till. (JG) er nú með ræðu sinni búinn að nota allan þann tíma, sem hægt er að verja til þessa máls, án þess að tefja þingstörfin meira en góðu hófi gegnir. Jeg skal því verða stuttorður.

Fyrsti og annar liður þessarar till. snerta minn verkahring, að því er við kemur viðskiftasamningi okkar við Spánverja og aðrar þjóðir, sem njóta sömu kjara. Hv. flm. (JG) fór hörðum orðum um þá ráðstöfun, sem gerð var 1922 viðvíkjandi útsölustöðum á áfengi, er var á þá leið, að útsölustaðir skyldu vera í hverjum kaupstað. Hv. flm. spurði, því gengið hefði verið svo óþarflega langt. Jeg tel núverandi stjórn ekki skylt að svara til um þetta, þar sem hún er hvorki skipuð sömu mönnum nje studd af sama flokki sem bar ábyrgð á þáverandi stjórn. En jeg vil taka undir með báðum ráðherrunum, sem verið hafa á undan mjer síðan 1922, um það, að þá tilhögun um útsölustaði, sem upp var tekin í byrjun, verðum við að láta standa vegna samningsins við Spánverja, meðan við viljum hafa þann samning í gildi.

Eins og kunnugt er, varð það að samkomulagi við Spánverja, að við skyldum njóta þar lægstu tollkjara á fiski gegn tilslökun á bannlögunum, sem í fyrstu var gerð til bráðabirgða, með lögum 31. maí 1922 og konunglegri tilskipun sama dag. Í þessum lögum og tilskipuninni voru sett ákvæði um, hvers við þyrftum að gæta um reglur innanlands viðvíkjandi útsölu vínanna, til þess að verða ekki af þeim hlunnindum, sem í boði voru af hendi Spánverja viðvíkjandi fiskversluninni. Þetta var þá orðað svo, að ákvæði til varnar misbrúkun við sölu og veitingar þessara vína megi ekki ganga svo langt, að þau „geri að engu“ undanþágu vína þessara frá ákvæðum aðflutningsbannslaganna. Sama orðalag er tekið upp í tilskipunina frá 31. maí 1922. Það næsta, sem gerðist í þessu máli, var, að 18. júlí sama ár var gefin út reglugerð um sölu og veitingu þeirra vína, sem flytja má til landsins samkvæmt lögum 31. maí 1922. Í þeirri reglugerð er kveðið á um þá útsölustaði, sem settir skyldu á stofn. Í 5. gr. reglugerðarinnar stendur: „Útsölustöðunum stjórnar maður eða fjelög í hverjum kaupstaðanna“. Síðan eru sett frekari ákvæði um tilhögun sölunnar.

Næsta ár, 1923, er svo endanlega gengið frá málinu með verslunarsamningi við Spánverja 23. júlí. Í þessum verslunarsamningi eru sett ákvæði um, hvers við verðum að gæta að því er snertir reglur gegn misbrúkun vínanna innanlands. Þetta var nú öðruvísi orðað en í lögunum frá 31. maí 1922 og tilskipuninni sama dags. Þessi verslunarsamningur við Spánverja er prentaður í Stjórnartíðindunum 1924, A, bls. 163, bæði á frakknesku og íslensku. En samningurinn var gerður á frakknesku eingöngu og gefinn út í tveim samritum á því máli. Íslenski textinn verður því að skoðast sem þýðing. Í þessari íslensku þýðingu er í niðurlagi 2. gr. viðhaft það orðalag um skilyrðin frá Spánverja hálfu, að íslenska stjórnin megi ekki setja ákvæði „sem koma í bága við undanþágu spánskra vína frá ákvæðum nefndra laga“. Þetta orðalag, að „koma í bága við“, er nokkuð ótiltekið, og það hefir verið deilt um það hjer innanlands, hvort hitt og annað fari í bága við undanþáguna. En nánari skýringu má fá í hinum gildandi frakkneska frumtexta. Þar er sett það skilyrði, að íslenska stjórnin „ne prenne pas par des dispositions régulatrices concernant l’abus du vin des measures qui servent á exténuer les effets de l’exemptions des vins espagnols de la dite loi“.

Þeir, sem athuga þennan texta, munu finna, að frakkneska orðið, sem notað er, er „e x t é n u e r“, sem þýðir „að gera rýrari“ eða „að draga úr“. Mjer er kunnugt um, að því hefir verið haldið fram í viðtali við erindreka okkar erlendis, með þennan frumtexta fyrir augum, að það væri ekki í samræmi við hann að gera ákvarðanir til þess að draga úr áhrifum eða verkunum undanþágunnar.

Hjer verður að líta á það, að samningurinn var gerður eftir að það skipulag komst á, með reglugerðinni 18. júlí 1922, sem við enn búum við. Jeg verð því að taka undir það með fyrirrennurum mínum, að stjórnin mun ekki sjá sjer fært að gera t. d. ákvæði um fækkun á útsölustöðum frá því, sem ákveðið var 1922, meðan þess er óskað af okkar hálfu, að samningurinn sje í gildi, af því að mjer sýnist slík ráðstöfun draga úr eða rýra (exténuer) verkanir undanþágunnar. Spánverjar mundu ef til vill telja slíka breytingu nóg tilefni til þess að segja samningnum upp, en jeg álít ekki, að við eigum á nokkum hátt að gefa tilefni til þess, af því að samningurinn felur í sjer svo mikilsverð hlunnindi fyrir fiskverslun okkar á Spáni. Ef ske kynni, að mönnum væri ekki í fersku minni ákvæði þau, er snerta toll á fiski til Spánar, ætla jeg að rifja þau ofurlítið upp.

Tolllög Spánverja eru þannig úr garði gerð, að fyrir flestar vörutegundir gilda tveir tolltaxtar, fyrri dálkurinn, sem er hærri, og síðari dálkurinn, sem er lægri. Á innfluttum saltfiski er tollurinn 96 pesetar fyrir hver 100 kg. eftir fyrri dálkinum, en 32 pesetar fyrir hver 100 kg. eftir þeim síðari. Þetta er miðað við gullpeseta og hækkar því hlutfallslega eftir því sem pappírspesetinn stendur lægra. Nú er það svo, að þær þjóðir, sem ekki hafa verslunarsamning við Spán, verða að greiða toll samkvæmt hærri taxtanum. Samningsþjóðir hafa aftur á móti greitt toll samkvæmt lægri taxtanum, og sumar eftir þeim taxta, að frádregnum 20%. Það þýðir, að fyrir hver 100 kg. af saltfiski eru greiddir 25,60 pesetar. En einstöku þjóðir, þar á meðal við Íslendingar, hafa komist að enn hagstæðari kjörum og greiða 24 gullpeseta fyrir hver 100 kg. Þessa njótum við að minsta kosti meðan nokkrar aðrar þjóðir eru til, sem ekki borga hærra aðflutningsgjald af sínum saltfiski en þetta. Af þjóðum, sem mjer er kunnugt um að hafa notið sömu kjara, vil jeg nefna Englendinga. En jeg hefi ástæðu til að ætla, að nú sje búið að ganga frá nýjum samningum milli Englendinga og Spánverja, sem gengið hafi í gildi í fyrradag, og eftir þeim samningi hefir tollur á enskum saltfiski hækkað upp í 25,60 peseta. Jeg álít, að ef til vill sje svo mikil tilhneiging hjá Spánverjum til að hækka yfirleitt aðflutningsgjald á saltfiski, að við ættum ekki á nokkurn hátt að ýta undir það, að samningnum verði sagt upp, jafnvel þó að þeir væru fáanlegir til að taka upp nýja samninga, því að það er hætt við, að þeir mundu enda þannig, að við yrðum að sætta okkur við tollhækkun.

Jeg skal minna á, að Danmörk hefir nú árum saman reynt að fá verslunarsamninga við Spán, en það hefir ekki tekist. Afleiðingin er sú, að „danskur“saltfiskur, það er að segja færeyskur saltfiskur, hefir sætt mun erfiðari kjörum en sá íslenski, og danska ríkið hefir orðið að borga í tollmismun á færeyskum saltfiski og öðrum 400–500 þús. kr. á ári.

Jeg get ekki talið það rjett af þinginu að samþ. annan lið till., svo framarlega sem þingið vill, að við höldum þeim kjörum um fiskverslun á Spáni, sem við höfum nú. Jeg veit ekki annað en að það sje skoðað sem algild regla, að ef við óskum eftir nýjum samningi við þjóð, sem við höfum áður haft samning við, þá þýði það uppsögn á eldra samningnum, eða að minsta kosti sje það vottur um það, að við sjeum ekki ánægðir með þann samning, sem í gildi er, og þess vegna sje það hinum aðiljanum tilefni til uppsagnar. Eins og þeir vita, sem hafa sjeð samninginn eins og hann er prentaður í Stjórnartíðindunum, má segja honum upp frá beggja aðilja hálfu, og fellur hann þá úr gildi þrem mánuðum eftir uppsögn. Jeg veit ekki, hvort það er ætlun hv. flm., að þeir vilji gera svo mikið úr því aðhaldi gegn áfengisnautn, sem fyrsta og önnur tillögugrein stefnir að, að þeir fyrir það aðhald vilji vinna það til að missa samninginn. En sje það ekki skoðun þeirra, að þessir tillöguliðir sjeu svo mikils virði, að samþykt þeirra hjer megi kosta oss þetta, vil jeg fara fram á það við þá, að þeir taki þessa tvo liði till. aftur. Ef þeir vilja ekki fallast á það, vil jeg ráða þinginu til að samþ. ekki þessa tvo liði, af þeim ástæðum, sem jeg hefi greint.