05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í D-deild Alþingistíðinda. (3566)

118. mál, yfirsíldarmatsmaður á Seyðisfirði

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg skal geta þess, út af ræðu hv. þm. Str. (TrÞ), að stjórnin hefir þegar skipað nefnd manna til þess að athuga þetta mál, vegna þess, að hún hefir orðið þess vör, að menn hafa gert lítið úr gildi síldarmatsins. Og af þeim ástæðum meðal annars áleit jeg ekki rjett að skipa þennan matsmann á Austfjörðum strax. Ef síldveiði verður mikil á Austfjörðum í sumar, þá álít jeg rjett að setja sjerstakan mann til þess að annast matið þar. En hann verður aðeins settur, því jeg álít ekkert vit vera í því að skipa mann í slíka stöðu, með 2–3 þús. kr. árslaun, aðeins yfir sumarmánuðina. Jeg álít það skyldu mína að gera þetta ekki að föstu starfi, fyr en sjeð er, að síldveiðin sje að glæðast fyrir Austurlandi. En nú höfum vjer ekki á annari reynslu að byggja en þeirri, að á síðustu 9 árum hefir veiðst fyrir Austurlandi frá tunnu og upp í um 1500 tunnur á ári, að undanskildu árinu 1926. Annars fellur mjer vel sú till., að málinu sje vísað til sjútvn.

Hv. flm. (SvÓ) sagði, að jeg hefði ekki viljað skipa síldarmatsmann eystra til þess að geta unnið Austfirðingum tjón. Eru þetta óneitanlega miður vingjarnlegar getsakir í minn garð. Jeg hygg, að hv. þm. (SvÓ) eigi örðugt með að sýna fram á það, að Austfirðingar hafi beðið tjón af síldveiðinni í fyrra, vegna þess, að þá hafi vantað yfirmatsmann. Ástæðan er sú, að síld hefir stórfallið í verði, og nú er enn þá verið að selja Akureyrarsíld mjög lágu verði, og er það ekki því að kenna, að þar hafi vantað yfirmatsmann. Þá er og annað atriði, sem hv. þm. (SvÓ) hefir upplýst, og valdið hefir miklu um tjón Austfirðinga af síldveiðunum, en það er það, að þeir voru ekki við því búnir að taka á móti síldinni. Sýnir það, hversu lítil síldveiðin hefir verið fyrir Austurlandi undanfarin ár, og er því ekki nema eðlilegt, að stjórnin skipaði ekki yfirmatsmann, þegar Austfirðingar sjálfir eru ekki undirbúnir, hvorki með tunnur nje salt. Það kom til mála 1922 að leggja niður yfirsíldarmatsmannsstarfið, en það þótti þá nokkuð harkalega að farið, vegna þess, að þá átti hlut að máli gamall og slitinn maður, sem var í starfinu. Mjer þykir því næsta undarlegt, að stjórninni skuli álasað fyrir að hafa sýnt sparsemi í þessu efni nú. Jeg fæ ekki sjeð, að þetta hafi valdið Austfirðingum tjóni; á Eyrarbakka veiddist t. d. síðastliðið sumar allmikið af síld, en undanfarin ár ekki. Eyrarbakki er í umdæmi yfirfiskimatsmanns Austfjarða, — en hvernig hefði hann átt að geta sint mati þar?

Mjer kemur undarlega fyrir, að hv. flm. (SvÓ) skuli halda því fram, að undirmatsmenn hafi vantað. Jeg veit ekki betur en að yfirsíldarmatsmaður hafi farið um Austfirði í byrjun síldartímans til að undirbúa matsstarf þar. Jeg hefi brjef frá honum, sem sýnir, að hann hefir verið að fást þar við slík störf. Ef málið fer í nefnd, skal jeg afla fullkominna upplýsinga um, hvort það er ekki rjett, sem hv. flm. neitar, að hann hafi verið þar á ferð í júlíbyrjun.

Annars er jeg fús til að setja mann til að gegna þessu starfi í sumar þá mánuði, sem þörf er á, ef síldveiði verður að mun við Austfirði.