07.05.1927
Efri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í D-deild Alþingistíðinda. (3579)

192. mál, umboðsmaður sáttasemjara á Austurfjörðum

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg talaði ekki af neinum þjósti áðan — jeg tala yfir höfuð ekki af neinum þjósti um landsmál — en hitt get jeg vel játað, að það er óviðkunnanlegt hjá hv. 5. landsk. (JBald), að hann grípi tækifæri, þegar hæstv. atvrh. er hjer ekki staddur, til þess að segja hv. deild rangt frá um afstöðu hans til máls. þótt ekki sje neitt stórmál; það er nokkuð, sem ekki á að eiga sjer stað.

Jeg lít þannig á starf og stöðu sáttasemjara, að það sje ákaflega þýðingarmikið fyrir góðan árangur af hans starfi, að hann sje laus við íhlutun á sínu starfsviði, bæði frá þingi og stjórn. Það er auðvitað, að um stofnun þessa starfs hefir orðið að ákveða með lögum, og það er gert; en framkvæmdir í starfinu held jeg að fáist bestar á þann hátt, að hann sje laus við íhlutun frá þessum aðiljum. Andmæli mín gegn till. eru eingöngu á því bygð, að jeg álít ekki, að sinna megi svona máli, sem beinlínis snertir verk sáttasemjara sjálfs, nema því aðeins, að till. kæmi frá honum. Nú upplýsti hv. flm., að upptökin væru frá einhverjum verkamannafjelögum á Austfjörðum. En hverjum hafa verkamannafjelögin sent þessi tilmæli? Hafa þau snúið sjer til sáttasemjara? Það er nefnilega sú leið, sem ber að fara með slík tilmæli, sem beinlínis snerta starf sáttasemjara sjálfs. Það er ekki upplýst hjer, að svo hafi verið gert; og meðan það er ekki upplýst og ekki heldur um undirtektir sáttasemjara um slíka málaleitun, ef kæmi til hans kasta, þá held jeg það heyri ekki til að taka ákvörðun um málið nú. Hinsvegar vildi jeg ekki sýna málinu þá andúð að leggja til, að till. yrði feld.

Stjórnin tekur enga afstöðu til þess, hvort slíkur umboðsmaður ætti að vera á Austfjörðum ellegar ekki. En hún vill hafa frjálsar hendur, þangað til tilmæli og uppástungur um það koma frá sáttasemjara sjálfum. Fyr telur hún sjer hvorki skylt nje heimilt að gera neinar ráðstafanir í þá átt. En komi slík tilmæli frá sáttasemjara sjálfum, mun hún taka til vinsamlegrar yfirvegunar, hvort fært sje að heimta fje, sem til þyrfti.

Þar með hygst jeg hafa skýrt afstöðu stjórnarinnar gagnvart þessari till. og svarað öllu efni hennar.