09.05.1927
Efri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í D-deild Alþingistíðinda. (3594)

128. mál, sparnaðarnefndir

Jóhann Jósefsson:

Það er víst óhætt að segja, að flestir hv. þm. vilja fylgja því, að sparað sje í útgjöldum ríkissjóðsins, eftir því sem við verður komið. Þessi till. á þskj. 509 er því í raun og veru ekki neitt nýtt í því efni. En viðvíkjandi þessari till. er það að segja, að það er nú komið fram, að hv. flm hefir sjálfur heldur þokukenda hugmynd um, hvernig nefndin verði til og um starfstilhögun hennar. Enda virðist, af fenginni reynslu undanfarinna ára um störf slíkra nefnda, ekki vera mjög mikið útlit fyrir, að raunverulegur árangur yrði af starfi því, sem farið er fram á með þessari till., eða hv. 1. landsk. (JJ) virðist eiga við. Það er eiginlega ómögulegt að gera samjöfnuð á þessari nefnd, sem á að koma með sparnaðar- og umbótatill. um rekstur ríkisins, og Þingvallanefndinni. Það er náttúrlega hægt að hugsa sjer, að nefnd þessi sitji fundi og geri till. til skipulagsbreytingar; en reynslan hefir ekki orðið sú, að þingið hafi verið mjög fúst á að verða við till. um skipulagsbreytingu á embættum í landinu. Við megum vera minnugir þess, hvernig tekið var í þær till., sem fyrv. stjórn á sínum tíma kom með um samfærslu á sýslumannaembættum; að vísu munu þær till. ekki hafa verið neitt viturlegar, en í sparnaðaráttina áttu þær samt að ganga.

Hv. þm. virðist sjálfur ekki hafa neina fasta hugmynd í þessum efnum; það mátti ráða af því, er hann mintist á tvö læknisembætti í sinni fyrstu ræðu, annað á Norðfirði, en hitt á Önundarfirði, og virtist gefa í skyn, að þau væru lítt þörf. Misjafnt líta menn á hlutina í þessum efnum sem öðrum. Frá Norðfirði kemur áskorun frá meiri hluta íbúa um að fjölga þar embættum, sem sje að fá bæjarfógeta. Þetta sýndi sig líka, þegar flokksbræður hv. 1. landsk. (JJ) í Nd. lögðust mjög á móti að spara að nokkru leyti laun fræðslumálastjóra með því að sameina það einu kennaraembættinu við kennaraskólann. Jeg veit ekki, hvernig hv. 1. landsk. leit á þetta, en svo mikið er víst, að margir flokksbræður hans í Nd. voru á móti þessum sparnaði. Því fer þess vegna mjög fjarri, að það sje sama sem að vilja engan sparnað í þessum efnum, þótt menn vilji ekki fallast á það, sem hv. 1. landsk. vill um framkvæmdir á sparnaðarhugmyndum. Langt frá. En jeg fyrir mitt leyti hefi ekki trú á, að menn, sem eiga að sitja í slíkri nefnd án þess að fá nokkuð fyrir það greitt — jafnvel þótt þeir hefðu besta vilja til — gætu komið fram með neinar ítarlegar till. um sparnað í ríkisrekstri. Þegar jeg segi ítarlega, á jeg við tillögur, sem byggjast á undangenginni rannsókn; en hún verður ekki framkvæmd nema með mikilli vinnu, eins og hæstv. forsrh. (JÞ) tók fram. Jafnvel þótt slíkar till. líti vel út á pappírnum, þá mundi líða langur aldur, þangað til þær kæmust til framkvæmda; og mjög er borin von um það, að þingið aðhyltist þær á sínum tíma. Að það mundi eiga sjer langan aldur, kom ljóst fram í ummælum hv. 1. landsk. sjálfs, sem sagði, að ómögulegt væri að koma fram sparnaði með því að lækka laun núverandi starfsmanna ríkisins. Hv. þm. talaði um, að sparnaði mætti ná með því að fækka starfsmönnunum. En þá kemur til greina, hverjir eiga að verða fyrir því að vera reknir frá. Um þetta atriði hygg jeg yrði skiftar skoðanir. Þrátt fyrir slíkar umbótatill., á alhliða sparnaður mjög langt í land.

En það er annar sparnaður, sem mætti ná með starfi, sem færi í líka átt og hæstv. ráðh. (JÞ) hugsar sjer, að settir verði glöggir menn og greindir til þess að rannsaka rekstur ríkisstofnana, skóla, sjúkrahúsa, opinberra skrifstofa, og verslana, sem ríkið rekur með steinolíu og áfengi o. s. frv. Getur það munað ríkissjóð tugum þúsunda, að tilhögun öll og tilkostnaður sje með sem hagkvæmustum og óbrotnustum hætti. Þykir mjer líklegt, að með skynsamlegri athugun og samanburði, gerðum af alúð og þekkingu, mætti sjá leiðir til þess að draga úr tilkostnaði við þessar stofnanir. Mundi þar þá þegar sparast stórfje. Jeg vildi fyrir mitt leyti óska þess, að hæstv. stjórn sæi sjer fært að vinda sem bráðastan bug að því, að slíkt rannsóknarstarf verði framkvæmt.

Mjer virðist af umræðum þeim, sem hjer hafa fram farið, og af orðaskiftum hv. 1. landsk. (JJ) og hæstv. forsrh. (JÞ), að skilningur hæstv. ráðh. (JÞ) á þessu máli sje að öllu leyti gleggri og skýrari en hv. 1. landsk. (JJ), og að till., þótt samþ. væri, mundi ekki bera þann árangur, sem annars gæti orðið, ef hæstv. stjórn tæki málið í sínar hendur og ljeti vinna að till. um sparnað á þessum liðum, sem jeg tilnefndi.

Jeg leyfi mjer því að leggja til, að málinu verði vísað til stjórnarinnar með þeim forsendum, er jeg nú hefi haft.