22.02.1927
Neðri deild: 12. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í D-deild Alþingistíðinda. (3608)

30. mál, vaxtalækkun

3608Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Það er alveg rjett á litið af hv. flm þessarar till., að það mundi hafa verulega þýðingu fyrir atvinnuvegi landsins, ef unt væri að lækka vexti. Þetta hefir stjórninni jafnan verið ljóst, og hún hefir sýnt það í verki, því að sú vaxtalækkun, sem hjer fekst síðast, í október 1925, komst fram, eins og áður hefir verið upplýst hjer í þinginu, fyrir ekki sjerlega litla eftirgangsmuni stjórnarinnar, sem tók þetta mál upp við bankana og fekk því fram komið, að annar bankinn lækkaði útlánsvextina um 1%, en hinn um ½%.

En þótt allir geti verið sammála um, að æskilegt sje vegna atvinnuveganna að hafa vexti lága, fer um verðlag á lánsfje eins og um verðlag á öðrum hlutum, að það fer eftir fleiru en menn kynnu að óska í þann og þann svipinn, og óskum um lækkun vaxta verður því aðeins framfylgt, að mönnum takist að skapa skilyrði fyrir því, að vextir geti lækkað. Það er ekki svo að valdboð stjórnar eða þings nái til þessa sviðs, nema að örlitlu leyti. Það er, eins og till. ber með sjer, farið fram á, að vextir aðallánstofnananna verði lækkaðir; en aðallánstofnanirnar eru bankarnir tveir og útibú þeirra. Nú eru þessir bankar báðir að meira eða minna leyti handbendi löggjafarvaldsins, og má því segja, að stjórn og þing hafi nokkur tök á þeim, en þó einungis að því leyti sem bankamir eiga sjálfir það fje, sem þeir fara með. En það er því miður svo, að sjálfseign beggja bankanna er tiltölulega lítil á móts við veltu þeirra. Hjer um bil alt það fje, sem bankarnir hafa til útlána, er ekki þeirra eign, heldur er það falið þeim af öðrum til ávöxtunar. Það gefur að skilja, að í sambandi við allar ráðstafanir viðvíkjandi vöxtunum verður að taka fult tillit til þess, að stofnanirnar geti haldið áfram og missi ekki það fje, sem þeim er trúað fyrir til ávöxtunar. Jeg veit, að því muni verða haldið fram af bönkunum, að ef farið verði of langt í að heimta af þeim niðurfærslu vaxta, megi búast við því, að svo og svo mikið fje verði tekið út úr bönkunum, af því að eigendurnir vilji þá heldur sjá um ávöxtun þess sjálfir.

Það er ýmislegt, sem hjer kemur til greina, sem mjer finst ekki hægt að fara út í núna. Jeg skal segja það strax, að jeg álít rjettast, að þessari umræðu verði frestað og till. vísað til fjhn., því til athugunar, hvort um sje að gera ráðstafanir til þess, að vextir lækki.

Jeg vil benda á, að ein hliðin á útlánsstarfseminni, sem í raun og veru hefir verið afrækt undarfarin ár, er fasteignalánastarfsemin. Hún hefir nú síðustu mánuðina komist í nokkurt horf, og jeg hygg, að óhætt sje að segja, að ef von á að vera til þess að almennir vextir lækki hjer, verði að sjá fyrir því, að fasteignalánastarfsemin haldin áfram óhindruð, til þess að ekki þurfi að bætast við úr þeirri átt óeðlileg samkepni um það fje, sem bankarnir hafa til annara útlána.

Jeg finn þannig ekki ástæðu til annars en að taka þessari tillögu vel og óska, að hún fái þá meðferð, sem líklegust er til að leiða til einhvers árangurs.

Út í ræðu hv. aðalflm. (MT) sje jeg ekki ástæðu til að fara, einkum í þau atriði ræðu hans, sem snertu gengismálið. Jeg býst við, að mjer gefist seinna tækifæri til þess, enda kýs jeg að gera það þá í samhengi, heldur en að vera nú að stikla á einstökum atriðum, eins og ræða hans gaf tilefni til. Jeg verð að segja, að það kveður við nokkuð annan tón nú en þegar stjórnarskiftin urðu 1924. Nú er gengislækkun sú, sem þá varð og olli almennum ótta og kvíða, í munni hv. flm. (MT) bara orðin linkind við atvinnuvegina.

Hv. flm. benti á, að til væri ein leið enn, til þess að ljetta á atvinnuvegum landsins, nefnilega lækkun skatta. Sagði hann, að stjórnin hefði ekki treyst sjer til þess að fara þá leið. Þetta er að því leyti rjett, að stjórnin hefir ekki lagt neitt slíkt fyrir þetta þing. En þessa leið er búið að nota. Á þinginu í fyrra voru samþyktar lagabreytingar, sem ljettu að verulegum mun gjöld á atvinnuvegum landsins, þeim, sem verst höfðu orðið úti. Þær lækkanir nema svo miklu, að stjórnin sjer sjer ekki fært að ganga lengra en þá var gert.

Það er ekki rjett hermt hjá hv. flm., að munurinn á innlánsvöxtum og útlánsvöxtum sje hjá okkur meiri en hjá öðrum kristnum þjóðum. Munurinn á innlánsvöxtum og útlánsvöxtum hefir allan þann tíma, sem jeg hefi þekt til, verið hærri á Englandi en hjer, og hafa Englendingar þó ekki þótt eftirbátar annarra þjóða í peningamálum. En það hefir farið svo, að vextir af innlánsfje eru þar mjög lágir. Þó að þetta sje svo, væri mjög æskilegt, ef okkar bankar sæju sjer fært að hafa þennan mismun á innlánsvöxtum og útlánsvöxtum lægri en hann er nú.

Hitt, sem hv. flm. bar fram og snerti gengismálið að mestu leyti, ætla jeg ekki að fara út í. Jeg vil aðeins enda mál mitt með því að láta í ljós, að jeg get ekki neitað því, að mjer fanst hv. þm. (MT) mála upp meira vonleysi en nokkur ástæða er til, enda þótt ástandið sje erfitt. Því að það, sem kreppir að, er í aðalatriðunum það sama og svo oft áður, sem sje verðfall á okkar afurðum. Verð á þeim er svo miklum sveiflum undirorpið, að það er altaf tilfinnanlegt, þegar þær falla úr sæmilega háu verði niður í það, sem kalla má mjög lágt verð, í samanburði við alment verðlag í heiminum. Slíkt heldur áfram að koma fyrir, og er því ekki ástæða til að örvænta. Það lagast aftur. Á hinn bóginn er ekki rjett að miklast um of, þó að verðlag hækki aftur í eitt eða tvö ár, og telja sjer alla vegi færa. Það er best að líta á alt þetta með ró og yfir lengri tíma í einu.

Jeg vil sem sagt taka þessari tillögu hið besta, að því leyti sem hún er hugsuð sem tilraun til þess að koma einhverju fram í þessa átt. Tel jeg sjálfsagt, að henni verði vísað til fjhn.