31.03.1927
Efri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í D-deild Alþingistíðinda. (3716)

91. mál, störf fiskifulltrúans á Spáni

Jóhann Jósefsson:

Jeg átti á sínum tíma þátt í því, að fje var veitt til erindreka á Spáni til að starfa að aukinni fisksölu í Miðjarðarhafslöndunum. Af því og öðru hefi jeg talsverðan áhuga fyrir því, að sem mest gagn verði að þessari ráðstöfun, sem jeg fyrir mitt leyti vil fullyrða og þori að segja fyrir hönd þeirra manna annara, er að stóðu, að gerð var með það fyrir augum, að gera aðstöðu íslenskra fiskútflytjenda betri en áður.

Okkur var það kunnugt, að helsta samkepnisþjóðin á markaðinum þar syðra, Norðmenn, höfðu úti erindreka fleiri en einn í þessum löndum til þess að vinna að framgangi vöru sinnar. Það var því eðlilegt, að við hlytum að draga af því þá ályktun, að við mundum standa ver að vígi um sölu fiskiafurða, ef við ljetum undir höfuð leggjast að senda íslenskan erindreka suður þangað, til þess að gæta hagsmuna íslenskra fiskútflytjenda og styðja þá í samkepninni við Norðmenn. Jeg þykist líka viss um, þó að okkur kæmi þá ekki fyllilega saman um, hvernig þessu starfi skyldi háttað, mjer og flm. fyrirspurnarinnar (IP) og öðrum hv. þm.,1. landsk. (JJ), að við höfum allir verið sammála um höfuðatriði þessa máls, nauðsyn á útbreiðslu og upplýsingastarfsemi þar syðra, til þess að kynna þessa útflutningsvöru okkar og vekja athygli okkar á, hvað helst þyrfti að gera til þess að hún hjeldi því sæti, sem hún hafði þá þegar náð á Spáni. Það er rjett, sem hv. flm. (IP) hefir haldið fram, að ágreiningurinn milli mín og hans var aðallega um það, hvort heppilegra væri að senda mann við og við til markaðslandanna, eða hafa manninn búsettan syðra að öllu leyti, eins og jeg vildi. Hvaða álit sem menn kunna að hafa um gagnið af starfsemi þess manns, sem nú dvelur á Spáni, haggar það ekki minni skoðun. Jeg álít, að til þess að erindrekinn geti unnið okkur gagn, verði hann að dvelja langvistum í þeim löndum, sem hann ætlar að starfa í. Jeg felst samt á hitt með hv. flm. (IP), að æskilegt væri, að erindrekinn kæmi hingað til lands við og við, svo að við, sem verkum og flytjum út fisk, ættum kost á að bera okkur saman við hann um ýms atriði, sem snerta verkun og útflutning. Þegar þess er gætt, hve stutt er síðan þessu starfi var fyrir komið svo sem nú er, og síðan hefir árað fremur illa í fiskverslun, er eðlilegt, að ekki sje hægt að benda á miklar umbætur, sem hægt sje að þakka þeim manni, er gegnir erindrekastarfinu nú sem stendur. En þótt ekki sje hægt að benda á ákveðin atriði í þessu efni, er óhætt að gera ráð fyrir því, að erindrekinn hafi hjálpað til að liðka ágreiningsatriði milli farmseljanda og farmsmóttakanda, en slík ágreiningsatriði koma fyrir í allri verslun í stórum stíl, og geta vissulega komið fyrir í fiskverslun, þó að lögskipað mat sje á fiskinum. Við höfum lögskipað mat á fleiri vörutegundum en fiski, en sú ráðstöfun, þó góð sje, er ekki nægileg trygging fyrir því, að aldrei geti ágreiningur risið milli kaupanda og seljanda.

Það er að vísu rjett, að erindrekinn kostar allmikið fje, og jeg get vel fyrir mitt leyti tekið undir með þeim, sem á það hafa minst, að mjer þykir ganga til hans nokkuð mikið fje. En auðvitað þurfa það ekki að vera miklar misfellur, sem lagfærðar eru, til þess að það vegi þar á móti. En jeg get ekki neitað því, að mjer finst árangurinn af starfi mannsins ætti að geta verið góður, þó að hann kostaði ekki svona mikið fje.

Hv. fyrirspyrjandi mintist á atriði viðvíkjandi fiskútflutningi frá Austurlandi og talaði um, að gott hefði verið, ef hægt hefði verið að benda á, að erindrekinn hefði greitt úr þessu, sem hann tiltók um stærðarflokkun fiskjarins. Það væri auðvitað mjög æskilegt, að erindrekinn gæti greitt úr sem flestu, sem miðar til óhags í versluninni við Spánverja og aðra, sem kaupa fisk. En þess verður að gæta, að ásaka ekki þennan embættismann að ástæðulausu og gleyma ef til vill, hvar höfuðsökin liggur. Það má ekki skella skuldinni á erindrekann fyrir þetta eða annað, nema honum hafi verið gefið tækifæri til að beita sjer fyrir því að fá það lagfært. Hafa nú þeir, sem bíða óhagræði af þessum stærðarkröfum Spánverja, snúið sjer beint til erindrekans eða stjórnarinnar, og hefir beiðni þeirra ekki verið sint? Sú spurning hlýtur að vakna, þegar sagt er, að erindrekinn hafi ekkert gert til að ráða bót á þessu. En það er fleira en þetta, sem byrjaði á stríðsárunum, og hefir síst farið batnandi. Það er t. d. gerður óhæfilega mikill verðmunur á fisktegundum víðsvegar af landinu, verðmunur, sem virðist ekki standa í rjettu hlutfalli við gæðamismun vörunnar. En mjer finst ekki hægt að ásaka erindrekann fyrir að hafa ekki fengið þessu breytt, ef menn hafa ekki snúið sjer til hans með óskir í þá átt. En nú er kominn tími til, að þetta sje tekið til athugunar, annaðhvort fyrir milligöngu stjórnarinnar, eða með því að snúa sjer beint til erindrekans. Það er vafalaust margt, sem erindrekinn gæti unnið okkur til gagns. En við verðum að minnast þess, að þó að hann hafi skyldur gagnvart okkur, höfum við líka skyldur gagnvart honum. Við verðum að gefa honum bendingar um, hvernig og hvar hann eigi að beita sjer fyrir umbótum á þessu sviði.

Það hefir oft komið hjer fram, að hv. fyrirspyrjandi gerir alt of lítið úr Spáni sem markaðslandi fyrir íslenskan fisk. Mjer væri auðvitað gleðiefni hvert spor, sem stigið væri til þess að auka markaðinn í öðrum löndum, en það má enganveginn gera lítið úr þessum mannsaldra gömlu viðskiftavinum. Við erum svo mjög háðir því, að Spánverjar kaupi og neyti íslenska fiskjarins. Það er ekki nema eðlilegur hlutur, að fyrst um sinn verði sá erindreki, sem gætir hagsmuna okkar á sviði fiskverslunarinnar, búsettur á Spáni, en ekki annarsstaðar. Hv. fyrirspyrjandi verður að skilja, að þetta álit mitt er ekki sprottið af andúð á því, að reynt sje að afla nýrra markaða. Jeg vildi stuðla að því eftir megni, að gerðar væru skynsamlegar tilraunir í þá átt. En jeg hvorki vil nje get lokað augunum fyrir því, sem á sjer stað. Það gleður mig að heyra frá hæstv. atvrh., að erindrekinn hafi útvegað ný sambönd á Ítalíu og í Portúgal. Jeg óska, að stjórnin ýti sem mest undir hann um að útvega nýja markaði utan Spánar, um leið og hann starfar að því að halda við hinu gamla og trygga viðskiftasambandi, sem verið hefir milli þessara tveggja þjóða um langt árabil. Jeg ber engan kvíðboga fyrir því, sem hv. fyrirspyrjandi taldi líklegt, að erindrekinn mundi bera hag Spánverja meir fyrir brjósti en hag okkar. Jeg býst við, eftir því sem jeg þekki þennan mann, að hann muni bera hag Íslendinga fyrir brjósti svo sem frekast verður krafist, og skýrslur hans og ráðleggingar okkur til handa sjeu gefnar af heilum hug. Það væri æskilegt, að fjárhagur okkar leyfði að hafa úti ekki einn erindreka, heldur fleiri, bæði fyrir þessa vöru og aðrar, sem nauðsynlegt er að koma að á heimsmarkaðinum. Jeg hefi altaf verið þeirrar skoðunar, að gagnsemi slíkra sendimanna byggist á því, að þeir dvelji langdvölum í landinu, sem þeir eiga að starfa í. Skyndifarir á þessum samkepnistímum geta naumast gefið staðgóðan árangur.

Hv. fyrirspyrjandi (IP) mintist á skýrslur erindrekans og sagði, eins og rjett er, að við, sem búum úti um landið, hefðum lítið af þessum skýrslum að segja. Jeg hefi tekið það fram áður, að jeg legði talsvert upp úr þessum skýrslum, ef þær væru útbreiddar meðal landsmanna á þann hátt, að þær mættu heita nýjar frjettir, þegar þær bærust út til þeirra. En það er ónóg, að þær berist með póstgöngum eða í blaðinu „Ægi“. Það vantar alt skipulag á, að þessar skýrslur geti komið þeim að gagni, sem úti á landi búa. En í því efni getum við síður ásakað erindrekann en okkur sjálfa.

Mjer þætti best fara á því, að þing og stjórn ynnu að því í sameiningu meir en gert hefir verið hingað til að koma vörum okkar á sem tryggastan markað, að gera sendimenn okkar sem best úr garði og vinna í sameiningu við þá að því að tryggja íslensku vörunum sem bestan markað. Það þarf að vera greið samvinna milli erindrekanna og stjórnarinnar, og sömuleiðis milli stjórnarinnar og útflytjenda, og mætti þá ýmsu kippa í lag, sem ábótavant hefir verið hingað til.