06.04.1927
Efri deild: 46. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í D-deild Alþingistíðinda. (3742)

92. mál, yfirsíldarmatsstarf á Austurlandi

Jón Baldvinsson:

Jeg verð að taka undir með hv. fyrirspyrjanda (IP) um það, að mjer finst hæstv. stjórn nokkuð djarftæk um það, að setja ekki mann í þessa stöðu. (Atvrh. MG: Það var settur maður í hana). Og því frekar hefði stjórnin átt að hafa sjerstakan mann í þeirri stöðu, þar sem Alþingi hefir áður neitað að leggja niður þetta embætti, og það sýndi, að Alþingi taldi það ekki forsvaranlegt, jafnvel þó að um nokkur ár hefði ekki aflast þar síld. Mörgum þykir vera trygging í því, að þessir matsmenn sjeu á þeim svæðum, sem eftir bestu manna ráði hefir verið skipað niður í matsumdæmi á landinu, og þingið vildi ekki breyta þessu, og það var til engra bóta fyrir umdæmið að vera sett undir yfirsíldarmatsmanninn á Akureyri, þar sem það áður hafði verið sjerstakt umdæmi. Manni kemur þetta því ákaflega einkennilega fyrir sjónir. En raunar er það ekki meira en að víkja frá lögunum um atvinnu við siglingar, því að það er alt á eina bók lært hjá hæstv. stjórn. Hún virðist ekki skeyta mikið um það, þótt einstakar athafnir hennar sje hálfgerð mótsögn við þau lög, sem henni er ætlað að framfylgja.

Nú getur það verið, að það verði full þörf á að halda þessu embætti fyrir Austurland, og það hefir sýnt sig, að nú þegar er eitt ár liðið, sem mikil síldveiði hefir verið þar, og þeir, sem undir því eiga að búa, telja það ekki forsvaranlegt að leggja þetta embætti niður. En undarlegast þykir mjer þó það, að einn af fyrirsvarsmönnum Austfirðinga hjer á þingi, eins og hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), skuli telja þetta forsvaranlegt, einmitt af því að það er nú komið að því, sem hann trúir, að þessi 30 ára strandferð síldarinnar sje nú komin aftur að Austurlandi; þá finst mjer, að hv. þm. ætti að krefjast þess af stjórninni, að hún ljeti ekki þetta starf niður falla, heldur skipaði mann í starfið, sem þar ætti heima. Það er líka svo, að þó að hæstv. stjórn geri sig líklega til að lofa því, eða hv. þm. Seyðf. geri ráð fyrir því, að stjórnin muni skipa mann í embættið, ef síldveiðin eykst þar eystra, þá gæti farið svo, að hv. þm. brygðust þær vonir, eins og vonin um rannsókn á veg yfir Fjarðarheiði, sem hæstv. stjórn hefir, þrátt fyrir hans óskir og vonir, dregið að láta rannsaka. Jeg gæti líka hugsað mjer, að það væri of seint að skipa mann í starfið, eftir að síldveiðin væri komin í fullan gang, og mjer finst líka, að það ætti að auglýsa embættið og gefa mönnum kost á að sækja um það, til þess að hægt yrði að velja þann manninn, sem bestur og færastur þykir. En það getur verið of seint, þegar komið er fram á síldveiðitímann, því að einhvern frest verður að ætla mönnum til umsóknar. En þessi sameining á starfinu á Akureyri og Seyðisfirði fólst einmitt á bak við þá till., sem fram kom á þinginu 1923, og hefir þingið því í raun og veru fyrirfram neitað að samþykkja þessa gerð stjórnarinnar, og í öðru lagi með því að samþykkja það, sem nú er í lögum, að yfirsíldarmatsmenn skuli vera fjórir, og hefir hæstv. stjórn því farið í bág við vilja Alþingis, sem lýsti yfir því, að það vildi ekki leggja starfið niður.

Þá er þriðja atriðið, sem mest er um vert, að þessi gerð stjórnarinnar fer í bág við hagsmuni almennings, sem mest verður að taka tillit til, svo að hæstv. stjórn hefir brotið í bág við alt, sem hún hefði átt að telja sína helgustu skyldu að fara eftir.