06.04.1927
Efri deild: 46. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í D-deild Alþingistíðinda. (3748)

92. mál, yfirsíldarmatsstarf á Austurlandi

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg hefi ekki mikla trú á því, að hægt sje að sýna fram á það með rökum, að þessi ráðstöfun hafi komið að sök, og að minsta kosti hefir það ekki verið gert enn. En í sambandi við þetta vil jeg upplýsa, að síldarmatsmaðurinn á Seyðisfirði dó seinast í júní í fyrra, og mestan hluta júlímánaðar gegndi starfinu maður sá, er það hafði gert í sjúkdómsforföllum hins látna. Hann fór eftirlitsferð um Austfjörðu í júlí, til þess að undirbúa matið í fyrra, en í ágústbyrjun mun yfirsíldarmatsmaðurinn á Akureyri hafa tekið við starfinu, og hann ferðaðist einnig um umdæmið. Starfið hefir því verið rækt forsvaranlega, og það, sem verið er að finna að, er það, að ekki hafa verið greidd laun fyrir haust- og vetrarmánuðina, meðan engin síldveiði var og ekkert að gera. Jeg sá og sje enga ástæðu til að borga þannig fje úr ríkissjóði fyrir ekki neitt, og má ávíta mig eins og vill fyrir það. Jeg læt mig það litlu skifta; en þá, sem sýna svo litla sanngirni, met jeg minna eftir en áður, og þeir geta tæpast vænst að komast langt með þeirri aðferð. Um að skipa mann í stöðuna lofa jeg hv. 2. þm. S.-M. (IP) engu. En eins og jeg hefi tekið fram, verður matið tekið til athugunar, ef út lítur fyrir talsverða veiði á Austfjörðum í sumar.