13.05.1927
Efri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í C-deild Alþingistíðinda. (3751)

10. mál, heimavistir við Hinn almenna menntaskóla

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg leyfi mjer að þakka háttv. meiri hl. mentmn. fyrir afgreiðslu þessa máls.

Um staðinn fyrir þetta hús er það að að segja, að hann er ekki ákveðinn. Upphaflega var hugsað til, að það stæði á lóð skólans, en ýmsir telja vafasamt, að það sje hentugt. Hefir því engu verið slegið föstu um staðinn enn, enda ekki gert ráð fyrir að byggja hús þetta á næsta ári.

Þá vil jeg snúa máli mínu til háttv. 1. landsk. (JJ). Jeg varð alveg hissa, þegar jeg sá álit hans á þskj. 565, það var svo gerólíkt því, sem þingskjöl eiga að vera. Upplýsingar eða skýringar um málið er þar engar að finna, heldur dylgjur um það, af hvaða hvötum málið sje borið fram.

Fyrst segir hann, að frv. þetta sje borið fram ófyrirsynju. Því hefir háttv. frsm. meiri hl. svarað, og hefi jeg þar engu við að bæta. Þá segir hann ennfremur, að málið hafi ekki verið borið undir rektor mentaskólans. Þessu er því að svara, að frv. um heimavistir við hinn almenna mentaskóla hefir komið fram áður, og hefir því áður verið horfið undir rektor skólans. Síðan þessum andmælum var hreyft í þinginu hefi jeg spurt rektor skólans að því, hvort hann væri ekki sama sinnis og áður um þetta mál, og sagði hann, að svo væri. Það væri líka einkennilegur skólastjóri, sem hjeldi það, að heimavist væri til ills fyrir skólann eða nemendur hans. Þetta hlýtur hv. þm. (JJ) að vita, eða gat vitað það, að minsta kosti ef hann hefði lesið athugasemdirnar við stjfrv.

Það þykir mjer þó undarlegast í nál. hv. minni hl., þar sem svo er komist að orði, að frv. þetta sje borið fram af aðila, sem sje málinu óviðkomandi, Hyggur hann þá, að mentamálastjórnin eigi ekki að skifta sjer neitt af mentamálum? (JJ: Hún gerir það sjaldan). Það ætti þó að vera betra, að hún gerði það stundum, heldur en aldrei, og jeg veit ekki, hver er rjettur aðili að bera fram þetta mál, ef það er ekki mentamálastjórnin. Hv. þm. (JJ) er altaf að blaðra um mentamál, en alt sitt vit notar hann til þess að vera altaf á móti þeim hjer í þinginu. Og hann er með þeim ósköpum fæddur, að hann getur aldrei unnað sannmælis neinum manni, sem er úr öðrum flokki en hann. En hjer ber svo vel í veiði, að jeg get vísað honum til skoðana flokksbróður hans, fræðslumálastjórans, sem jeg býst við, að hv. þm. (JJ) telji, að hafa muni vit á þessu máli, en hann fylgir frv. eindregið og telur það miða til mikilla bóta.

þá sagði hv. þm. (JJ), að undirbúningur þessa máls væri ófullkominn. Þetta er nú vana mótbáran hjá honum, þegar hann getur eigi fundið einhverju máli annað til foráttu. En mál þetta er betur undir búið heldur en framsöguræða hans hjer, því að það var hvergi að sjá á henni, að hann hefði lesið athugasemdirnar við stjfrv., því að þar er vísað til athugasemdanna við frv., sem stjórnin bar fram á þinginu 1926 þar sem skýrt er frá áætlun um og teikningu af hinu fyrirhugaða heimavistahúsi, eftir húsameistara ríkisins. Um þetta, áætlun og teikningu, var nú hv. þm. (JJ) að spyrja, og það sýnir einmitt ljósast, að hann hefir ekki lesið athugasemdirnar við frv. Stjórninni þótti ekki ástæðu til þess, að auka kostnað með því að prenta þetta upp að nýju, en ljet sjer nægja að vísa til álitsskjals húsameistara, sem prentað er í A-deild Alþtíð. 1926, bls. 76, eins og stendur í athugasemdunum. Hv. þm. (JJ) hefði því átt að vera vorkunnarlaust að fá ljeð það bindi Alþtíð., en hann mun ekki hafa viljað leggja á sig þá geysilegu fyrirhöfn, að fara inn á skrifstofu Alþingis og fá ljeð þetta bindi!

Þá er getgáta hv. minni hl. um það, hver muni vera „hinn sanni tilgangur þessa frv.“, og hún er þessi, að það eigi „að tefja fyrir framgangi þess, að þroskaðir menn, sem aðallega styðjast við vinnu sína, fái aðstöðu til að nema til stúdentsprófs á Akureyri“. Jeg get nú ekki skilið, að það geti spilt neitt fyrir námsmönnum á Akureyri, þótt heimavistin komi við þennan skóla, og mjer finst þetta afar undarlegur hugsanagangur hjá hv. þm. (JJ). Og það skal jeg segja honum, að ein aðalástæðan til þess, að frv. er borið fram, er sú, hve dýrt verður hjer nám fyrir fátæka sveitapilta. Og það er ekki nema sanngjörn krafa, að þeir, sem vilja taka stúdentspróf hjer, hafi svipaða aðstöðu eins og nemendur við Akureyrarskóla. Mjer þætti gaman að vita, í hverju það væri fólgið, að sanngjarnt sje að gera greinarmun á þeim. Það mætti ef til vill segja, að það væri eitthvert vit í hugsanagangi hv. þm. (JJ), ef öllum nemendum ætti að vísa til Akureyrarskólans, en það er ekki hægt, því að skólinn getur ekki tekið við þeim. Sje ætlast til þess, að fátækir nemendur geti lokið mentaskólanámi hjer, þá verða þeir að fá ókeypis húsnæði, ljós og hita, en þetta snertir ekki Akureyrarskólann, hvorki beinlínis nje óbeinlínis. Að vísu er svo að sjá í nál. minni hl., að hann vilji vísa öllum fátækum nemendum til Akureyrarskólans og láta þá taka stúdentspróf þar. Þetta gæti komið til mála, ef gagnfræðaskóladeildin yrði tekin út úr skólanum, en jeg hygg þó, að eigi muni samt verða nægilegt húsrúm þar.

Hv. þm. (JJ) sagði, að með aldurstakmarkinu, sem sett er hjer, væri þroskaðri menn útilokaðir frá því að taka hjer stúdentspróf. Aldurstakmarkið er ekki annað en reglugerðarákvæði, sem breyta má, hvenær sem það þykir henta. Hann sagði líka, að í gegnum Akureyrarskólann færi menn á 5 árum. Jeg hjelt, að það væri venjulega 6 ára skóli, eins og hjer, en það hefir þráfaldlega komið fyrir, og kemur þráfaldlega fyrir, að nemendur hafa lokið mentaskólanámi hjer á 5 árum, svo áð það er ekkert sjerkenni á Akureyrarskólanum. Duglegir og þroskaðir nemendur geta lagt á sig miklu meira við nám heldur en unglingar, og er það engin ný viska, heldur alviðurkendur sannleiki.

Jeg ætla ekki að fara neitt út í það, hvað fyrverandi forsætisráðherra, Jón Magnússon, kann að hafa sagt á Akureyri í sumar, fáum dögum áður en hann dó. Jeg hefi engar sagnir haft af því og játa hvorki nje neita, að hann hafi sagt eitthvað á þá leið, sem hv. þm (JJ) hefir eftir honum. Jeg get ímyndað mjer, að hann hafi sagt eitthvað á þá leið, að hann mundi ýta undir það, að Norðlendingar fengi að meira eða minna leyti uppfyltar óskir sínar um skólann. Stjórnin vill alls ekki skóinn niður af þeim skóla, en hún vill gera báðum skólunum jafnhátt undir höfði. En það væri hróplegt ranglæti við mentaskólann, ef hann yrði einn settur hjá með heimavistir. Í fyrra og í ár höfum við veitt fje til heimavista handa stúdentum. Hv. þm. (JJ) flutti sjálfur till. um það á þinginu í vefur, að komið yrði upp heimavistum fyrir kennaraskólann, og jeg held, að hann hafi einhverja heimavistarnefnu við sinn eigin skóla.

Eina ástæðan, sem gæti rjettlætt það, að vera á móti þessu frv., er sú, að þessar framkvæmdir, yrðu okkur of dýrar og eigi væri þörf á þeim. Það er nú margsýnt, að þörfin er mjög brýn, og það hefir líka verið sýnt fram á, að þessar heimavistir verða okkur ekki dýrari en við aðra skóla.

Að síðustu spurði hv. þm. (JJ), hvort það mundi ekki ganga út yfir fjárveitingu til landsspítalans, ef ráðist yrði í að reisa heimavistahús. Hann spyr nú ekki þessa af því, að hann viti það ekki, að til er samningur um fjárframlög til spítalans. Þessi samningur er hv. þm. (JJ) vel kunnur, því að hann var lesinn hjer í deildinni orði til orðs 1925. Og jeg get tæplega búist við því, þótt margs megi vænta af hv. 1. landsk. (JJ), að hann ætli stjórnini það — hvort það er núverandi stjórn eða ný stjórn — að hún fari að svíkja gerða samninga. Það er auðsætt, að ef ekki er hægt að koma upp heimavistahúsinu án þess að það gangi út yfir landsspítalann, þá verður heimavistahúsið að bíða betri tíma. En jeg skal benda hv. þm. (JJ) á það, að við erum nú að losna við þunga bagga, sem legið hafa á okkur þessi árin. Kleppshælið er búið í árslok 1928, en það hefir tekið til sín 100 þús. kr. á ári. Á sama ári verðum við líka búnir með heilsuhælið í Kristnesi, en það kostaði okkur 75 þús. kr. 1926, 125 þús. kr. á þessu ári, og á næsta ári eru ætlaðar til þess 65 þús. kr. Þegar við erum lausir við þessa bagga, þá losnar eitthvað af fje, sem nota má til heimavistahússins, að meira eða minna leyti.

Fleiru þarf jeg ekki að svara hv. þm. (JJ). Það kom ekki annað fram í ræðu hans en það, sem hann stiklar á í nál. sínu.