02.05.1927
Efri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

108. mál, veð

Frsm. (Jóhann Jósefsson). Allshn. hefir haft þetta mál til meðferðar, en búið er að samþykkja það í hv. Nd. Nefndin komst að sömu niðurstöðu og meiri hluti hv. Nd. um nauðsynina á því að leiða í lög þessi ákvæði. Í greinargerð frv. upphaflega er svo að orði komist, að augljóst er, að flm. frv. gengur það til, að veðið sje sett til tryggingar láni, sem fari til þess að afla þess sjerstaka verðmætis, sem lánið er lánað til, en þetta er ekki skýrt tekið fram í frv. eins og það kom hingað. Þess vegna hefir nefndin leyft sjer að koma fram með brtt. á þskj. 462, sem gerir þetta, að því er nefndinni virðist, nægilega skýrt, sem sje, að veðið nái til þess afla, sem aflað er á því útgerðartímabili, sem lánið er veitt til. Jeg þykist ekki þurfa að orðlengja þetta frekar. Verði brtt. samþykt, er óhætt að líta svo á, að frv. geti náð tilgangi sínum. Nefndin leggur sem sagt til, að frv. verði samþykt.